Greinar
Birkihrísla
Birkihrísla við Grímsstaði á Mýrum.

Árið 2009

Tíðarfarsyfirlit

Trausti Jónsson 15.1.2010

Tíðarfar var hagstætt á árinu 2009. Hiti var langt yfir meðallagi um landið sunnanvert og einnig vel yfir meðallagi nyrðra. Í Reykjavík var árið það 10. hlýjasta frá upphafi mælinga. Hitinn var 1,2 stigum ofan við meðaltalið 1961 til1990 og 0,6 stigum ofan meðaltalsins 1931 til 1960, auk þess 0,2 stigum ofan meðallags síðustu 10 ára. Á Akureyri var árið ívið svalara að tiltölu, og lenti í 31. sæti frá upphafi mælinga þar, 1882, og í Stykkishólmi var árið það 14. hlýjasta frá upphafi mælinga 1845. Í Reykjavík og á Akureyri voru allir mánuðir nema tveir með hita yfir meðallagi. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu og meðalhita allra sjálfvirkra stöðva í sérstöku pdf-skjali (0,07 Mb).

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 5,55 1,24 10 139
Stykkishólmur 4,70 1,22 14 165
Bolungarvík 3,87 0,93 20 113
Grímsey 3,69 1,25 10 136
Akureyri 4,06 0,77 31 129
Grímsstaðir 1,62 1,12 20 103
Egilsstaðir 3,92 0,98 17 60
Dalatangi 5,02 1,29 4 72
Teigarhorn 4,89 1,17 10 137
Höfn í Hornaf. 5,61 1,07
Fagurhólsmýri 5,85 1,24 3 112
Stórhöfði 6,02 1,21 8 133
Hveravellir 0,28 1,37 6 44
Eyrarbakki 5,30 1,23 12 114

Hitavik ársins 2009
hitavik 2009
Hitavik einstakra mánaða í Reykjavík (blátt) og á Akureyri (rautt). Miðað er við meðaltal áranna 1961 til 1990. Langflestir mánuðir voru ofan meðallags, þó var nokkuð kalt á Akureyri í febrúar.

Hitaþankar

Á Akureyri var árið það 11. í röð yfir meðallaginu 1961 til 1990, en hið 14 í samfelldri röð ofan meðallags í Reykjavík og hið 9. í röð yfir meðallaginu 1931 til 1960. Það gerðist aldrei á stórhlýindaskeiði 20. aldar (1925 til 1964) að svo mörg ár samfellt væru yfir því meðallagi.

Hins vegar voru árin 24 í röð sem voru yfir meðallaginu 1901 til 1930 þegar hlýindaskeiðið byrjaði, frá 1925 til 1948, 14 eftir að 1901 til 1930 „tók gildi". Elsta 30 ára meðaltalið var 0,2 stigum kaldara en 1961 til 1990 og 0,8 stigum kaldara en 1931 til 1960.

Hitafar í Reykjavík 1866 til 2009
Hiti í Reykjavík 1866 til 2009
Hitafar í Reykjavík 1866 til 2009 (grár ferill). Rauði ferillinn sýnir 10-ára keðjumeðaltöl en sá græni 30-ára keðjumeðaltöl. Taka ber eftir því að hér eru gildi keðjumeðaltalanna sett á endaár tímabilsins en ekki á ár nærri miðju tímabilsins eins og algengast er í myndum af keðjumeðaltölum (samanber myndirnar síðar í þessum texta).



Núverandi hlýskeið er orðið heldur snarpara heldur en stórhlýindaskeiðið. Síðustu 10 árin eru þannig um 0,2 stigum hlýrri en hlýjustu samfelld 10 ár eldra skeiðs [1932 til 1941] í Reykjavík og 0,1 stigi á Akureyri. Í báðum tilvikum er munurinn þó varla marktækur því flutningar stöðvanna skapa óvissu af svipaðri stærð. Samfellt hlýjustu 30 ár á 20. öld voru 1932 til 1961, síðustu 30 árin [1980 til 2009] vantar 0,3 stig til að vera jafnhlý í Reykjavík og 0,2 stig á Akureyri. Þrjátíu ára meðaltalið 1980 til 2009 er 0,1°C hlýrra en meðaltalið 1979 til 2008, árið 1979 var óvenjukalt en 2009, sem kom í staðinn, var óvenjuhlýtt. Tvö önnur mjög köld ár, 1981 og 1983, detta út úr 30 ára meðaltalinu á næstu árum. Ef hlý ár koma í stað þeirra er líklegt að gamla 30-ára hámarkið falli, reyndar dugar að meðalhiti næstu þriggja ára verði í meðaltali (1961 til 1990) til að fá nýtt met.

Nú verður spurning um úthald núverandi hlýskeiðs. Hinn jafnhái hiti áranna 2002 til 2009 er sérlega eftirtektarverður og verður að telja með miklum ólíkindum ef ekki snýr til kaldara veðurfars hér á landi á komandi árum, þrátt fyrir hnattræna hlýnun.

Aftur upp

Hitaútgildi

Hæsti hiti ársins mældist 26,3 stig á Egilsstaðaflugvelli 29. júní og á Torfum í Eyjafirði þann 1. júlí. Síðarnefnda daginn mældist mestur hiti ársins á mannaðri veðurstöð, á Torfum, 25,6°C. Það er nærri meðalárshámarki áranna 1961 til 1990.

Lægsti hiti ársins mældist í Svartárkoti 12. febrúar, -29,0 stig. Lægsti hiti á mannaðri veðurstöð mældist í Reykjahlíð við Mývatn sama dag, -24,0 stig.

Í Reykjavík mældist hæsti hiti ársins á mönnuðu stöðinni 21,1 stig, bæði 12. og 20. júlí. Lægstur varð hitinn á mönnuðu stöðinni í Reykjavík -9,7 stig þann 5. febrúar og á Þorláksmessu, 23. desember.

Hæsti hiti á Akureyri mældist að kvöldi 1. júlí (skráð 2. júlí), 21,5 stig. Lægstur hiti á Akureyri var -14,2 stig og mældist þann 27. febrúar og einnig þann 28. mars.

Úrkoma

Ársúrkoma mældist 713 mm í Reykjavík og er það um 10% undir meðallagi. Þetta er þurrasta ár í Reykjavík síðan 1995. Óvenjuþurrt var í Reykjavík og víðar um sunnan- og vestanvert landið framan af sumri. Á Akureyri mældist úrkoman 652 mm og er það ríflega 30% umfram meðallag. Þetta er mesta ársúrkoma á Akureyri síðan 1991, en 1992 var úrkoman einnig svipuð og nú. Mestu munar um óvenju úrkomusaman desember en úrkoma hefur ekki mælst meiri í desember á Akureyri frá upphafi samfelldra mælinga þar 1927. Heldur meiri úrkoma mældist á Gróðrarstöðinni á Akureyri í desember 1925, en þar voru stundaðar mjög stopular úrkomumælingar um það leyti.

Hlutfallslegt úrkomumagn í einstökum mánuðum 2009
ar2009_rvk_ak_urkfravik
Hlutfallslegt úrkomumagn í Reykjavík og á Akureyri í einstökum mánuðum 2009 miðað við meðaltalið 1961 til 1990. Fjórir mánuðir eru óvenju úrkomusamir á Akureyri; janúar, maí, nóvember og desember. Í Reykjavík er apríl mjög úrkomusamur en júlí gríðarþurr.



Í Stykkishólmi mældist úrkoman 711 mm og er það í meðallagi. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist ársúrkoman 1798 mm, en það er 13% umfram meðallag. Apríl og október voru sérlega úrkomusamir í Vestmannaeyjum.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á mannaðri veðurstöð mældist í Hólum í Hornafirði 10. október, 180,6 mm. Þetta er mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í Hólum, en þar hefur úrkoma verið mæld í nær 80 ár, frá 1930.

Mest sólarhringsúrkoma á sjálfvirkri veðurstöð mældist 10. október á Eskifirði, 185,3 mm.

Mest sólarhringsúrkoma í Reykjavík mældist 20,1 mm 10.október og 9. nóvember. Mest sólarhringsúrkoma á Akureyri mældist 21,5 mm 25. desember, á jóladagsmorgni.

Aðeins einn sólarhringur var þurr á öllum veðurstöðvum landsins, 9. til 10. júlí, miðað er við tímann frá kl. 9 til næsta morguns kl. 9. Að morgni 23. apríl mældist úrkoma næstliðinn sólarhring á öllum stöðvum nema einni, Svínafelli í Hjaltastaðaþinghá.

Snjór

Árið verður að teljast snjólétt. Mesta snjódýpt ársins mældist á Mýri í Bárðardal 18. janúar, 166 cm.

Mest snjódýpt í Reykjavík mældist 19 cm, þann 29. janúar. Mest snjódýpt á Akureyri mældist 90 cm að morgni 30. desember. Þetta er mesta snjódýpt sem mælst hefur í þeim mánuði á Akureyri.

Fjöldi alhvítra daga á Akureyri 1924 til 2009
Alhvítir daga á Akureyri
Fjöldi alhvítra daga á Akureyri 1924 til 2009. Grár ferill sýnir einstök ár, en rauðu punktarnir 7-ára keðjumeðaltal. Athugið að tölur áranna 1949 og 1950 eru mjög gallaðar, en raska ekki heildarmyndinni. Keðjumeðaltalið er sett við miðár meðaltalsins, t.d. er meðaltal áranna 1951 til 1957 sett við 1954.



Alhvítir dagar í Reykjavík voru 40 og er það 25 dögum færra en að meðaltali 1971 til 2000 og 15 dögum færra en að meðaltali 1961 til 1990. Þetta er svipað frávik og algengt hefur verið á nýju öldinni. Fæstir urðu alhvítu dagarnir í Reykjavík á árinu 1965, 20, en flestir 110 árið 1990. Á Akureyri voru alhvítu dagarnir 97, 20 dögum færri en að meðaltali 1971 til 2000 og 22 dögum minna en að meðaltali 1961 til 1990. Snjór hefur þó verið enn minni en þetta á flestum undanförnum árum, flestir voru alhvítu dagarnir á Akureyri 1999, 161, en fæstir 54, árið 1933.

Aftur upp

Úrkomudagafjöldi

Úrkomudagar voru 205 í Reykjavík, 16 dögum færri en í meðalári. Úrkomudagarnir á Akureyri voru 201 og er það 31 fleiri en í meðalári, enda úrkoma þar um 30% umfram meðallag, eins og áður var fram komið.

Úrkoma mældist 1 mm eða meira í 138 daga á árinu 2009 í Reykjavík, það er 10 dögum undir meðallagi. Á Akureyri náði úrkoman 1 mm í 116 daga og er það 13 dögum umfram meðallag.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust um 1490 og er það meir en 200 stundum umfram meðallag. Þetta er 10. árið í röð með sólskinsstundafjölda ofan meðallags í Reykjavík. Skýjahula í Reykjavík var undir meðallagi. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1050 og er það í meðallagi.

Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík
Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík
Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík 1914 til 2009. Grár ferill sýnir einstök ár, en rauðir punktar sýna 7-ára keðjumeðaltal. Nokkur ár vantar í kringum 1920 og mælingarnar fyrir þann tíma eru gerðar á Vífilsstöðum. Eftirtektarvert er hversu sólríkt hefur verið í Reykjavík á síðustu árum. Gildi keðjumeðaltalsins er sett við miðár tímabilsins, t.d. er meðaltal tímabilsins 1951 til 1957 sett við 1954.

Ríkjandi vindáttir

Austlægar áttir voru tíðari en í meðalári og hefur austanáttin ekki verið jafn þrálát frá árinu 1985, en þá var hún svipuð og nú. Munur loftþrýstings sunnan- og norðanlands var í samræmi við það, hann var með mesta móti. Meðalþrýstingur var hins vegar svipaður og í meðalári, í Reykjavík var þrýstingurinn 1,5 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Illviðradagar

Skaðaveður sem náðu til stórs hluta landsins voru óvenjufá á árinu og tíðnin talsvert undir meðallagi. Tímabilið eftir 1995 hefur verið mjög hagstætt hvað þetta varðar miðað við það sem á undan hafði gengið. Minnst er á nokkur illviðri í mánaðayfirlitinu hér að neðan.
Mesta veðrið hvað útbreiðslu og styrk varðar gekk yfir 9. og 10. október.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Árið byrjaði með hlýjum og úrkomusömum janúar og var tíð talin góð. Fyrri hluti mánaðarins var sérlega hlýr en síðari hlutinn svalari. Tíðarfar í febrúar var einnig talið hagstætt því lítið var um illviðri og samgöngur voru lengst af greiðar. Fyrstu tólf dagar mánaðarins voru mjög kaldir, í Reykjavík ámóta kaldir og sömu dagar í febrúar 2002, en á Akureyri þarf að fara áratugi aftur í tímann til að finna sama tímabil ámóta kalt, en hiti var svipaður fyrstu 12 dagana í febrúar 1969 og 1955 og var nú. Þurrt var um mestallt land allan þennan tíma og sólskin, snjór var á jörðu, en ekki mikill. Frá og með þeim 13. hlýnaði að mun og síðari hluti mánaðarins var hlýr, sérstaklega 16. til 18. Úrkoma var þá mikil sunnanlands, en heldur minni nyrðra.

Tíðarfar í mars var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990. Hitinn var alls staðar mjög nærri meðallagi. Lítið var um illviðri en hríðarveður trufluðu þó samgöngur stund og stund. Víðast hvar var snjólétt en þó var allmikill snjór um tíma á norðanverðum Vestfjörðum og í útsveitum á Norður- og Austurlandi. Á Norðurlandi varð snjórinn mestur í lok mánaðarins og tepptust þar samgöngur um tíma. Snjóflóðahætta var viðloðandi á norðanverðum Vestfjörðum framan af mánuðinum. Fyrstu dagana féllu mörg snjóflóð á þeim slóðum, sem og sums staðar norðanlands. Talsverð snjóflóðahætta var í útsveitum á Norðurlandi í lok mánaðarins.

Dynkur í Þjórsá
Dynkur
Dynkur í Þjórsá á fögrum vetrardegi, 29. mars 2009. Ljósmynd: Einar Kjartansson.

Vormánuðir

Hlýtt var í apríl um land allt, hlýjast að tiltölu suðaustanlands, en einna svalast á Vestfjörðum. Mjög úrkomusamt var um mestallt land og sérlega úrkomusamt víða á Suðurlandi og einnig vestan til á Norðurlandi. Fremur hvassviðrasamt var og slagviðri með tíðara móti miðað við árstíma, sérstaklega á tímabilinu 19. apríl til 14. maí, og úrkoma víða gríðarmikil á þeim tíma.

Nokkur mánaðarúrkomumet féllu. Úrkoman á Kvískerjum mældist 523,7 mm og hefur ekki mælst meiri á íslenskri veðurstöð í aprílmánuði. Eldra met var sett á Kvískerjum í apríl 1984 en þá varð heildarúrkoma mánaðarins 520,7 mm, lítillega minni en nú. Aprílúrkomumet voru sett á fleiri stöðvum, þeirra merkust eru nýtt met í Vestmannaeyjum, en þar hefur verið mælt frá 1881, og á Eyrarbakka þar sem einnig hefur verið mælt frá 1881, en með nokkrum hléum. Met var sett í Vík í Mýrdal (mælt frá 1926) og á allmörgum stöðvum á vestanverðu Norðurlandi þar sem mælt hefur verið í 5 til 15 ár. Snjólétt var í mánuðinum.

Maímánuður var hlýr, nokkuð úrkomu- og vindasamt var miðað við árstíma en tíð var samt hagstæð og sólskinsstundir mældust umfram meðallag.

Aftur upp

Sumarmánuðir

Tíð var almennt hagstæð í júní, hiti var yfir meðallagi um land allt, en úrkoma heldur undir meðallagi. Lengst af var hægviðrasamt. Loftþrýstingur var óvenjuhár. Vindar voru hægir í júní, ekki hefur verið jafn hægviðrasamt á sjálfvirkum stöðvum í byggð þann tíma sem meðaltöl eru til fyrir (frá og með 1996). Á mönnuðu stöðvunum hefur ekki verið hægviðrasamara síðan í júní 1963 en meðalvindhraði var þó svipaður í júní 1987 og 1982. Samanburðurinn nær aftur til 1949.

Tíðarfar var hlýtt og þurrt um mikinn hluta landsins í júlí. Sérlega hlýtt og þurrt var suðvestanlands en hiti var undir meðallagi inn til landsins á Austurlandi. Á vestanverðu landinu lét gróður sums staðar á sjá vegna þurrkanna. Fyrsta vika mánaðarins var hlý um nær allt land en síðan kólnaði eystra og víða á hálendinu. Mikið kuldakast gerði í nokkra daga seint í mánuðinum. Þá snjóaði í fjöll norðanlands og næturfrost varð allvíða á Suðurlandi, en það er mjög óvenjulegt í júlí. Frostin eyðilögðu grös í kartöflugörðum og varð tjón mikið. Í Reykjavík þarf að fara allt aftur til ársins 1889 til að finna jafnlitla úrkomu í júlí. Met voru sett á allmörgum stöðvum þar sem athugað hefur verið styttri tímabil.

Ágúst var fremur hlýr um allt land, sólríkur á Suður- og Vesturlandi, en norðanlands og austan var sólarminna og sums staðar á þeim slóðum rigndi mikið. Veður var hægviðrasamt lengst af. September var fremur hlýr um land allt, hlýjastur að tiltölu austanlands en svalastur á Vestfjörðum. Úrkoma var í ríflegu meðallagi en sólskinsstundir með færra móti um landið sunnanvert.

Sumarið var hlýtt, í Reykjavík er það hið 10. til 11. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871 og það fjórða hlýjasta frá nýliðnum aldamótum. Ekki varð alveg jafnhlýtt að tiltölu á Akureyri.

Síðasti hluti ársins

Hiti var í ríflegu meðallagi í október víðast hvar nema norðaustanlands þar sem hann var lítillega undir því. Talsvert kuldakast var ríkjandi í upphafi mánaðarins, þá festi snjó um mikinn hluta landsins. Veður hlýnaði síðan og voru síðustu dagarnir sérlega hlýir ásamt nokkrum dögum um miðbik mánaðarins. Suðaustan- og austanillviðri gerði um landið sunnan- og vestanvert föstudaginn 9. Tjón varð einna mest á Kjalarnesi en víða urðu minniháttar skaðar.

Nóvember var fremur hlýr, hlýjast var að tiltölu við ströndina austan- og sunnanlands en kaldast var á norðvestanverðu landinu. Vægt kuldakast var í upphafi mánaðar en svo hlýnaði og var mjög hlýtt á landinu fram yfir miðjan mánuð. Mjög hlýtt var fyrir og um miðjan desember en síðustu dagana fyrir jól kólnaði og var síðasta vika ársins mjög köld um meginhluta landsins. Óvenjumikill snjór var sums staðar norðanlands en annars yfirleitt fremur snjólétt.
Aftur upp



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica