Greinar
borgarís, loftmynd
Borgarísjakar á Grænlandssundi 28.9.2009.

Haustþing 2009 - ágrip erinda

Veðurfræðifélagið

Guðrún Nína Petersen 13.10.2009

Haustþing Veðurfræðifélagsins var haldið miðvikudaginn 21. október í Orkugarði. Veðurfræðifélagið er opið öllum áhugamönnum um veður og veðurfræði og þingið sömuleiðis. Hér fer ágrip nokkurra erinda:

Fjarkönnun og rauntímaeftirlit með hafís

Ingibjörg Jónsdóttir og Auðunn Friðrik Kristinsson
Ýmsar myndgerðir henta til fjarkönnunar á hafís, einkum ratsjármyndir, ljós-, hita- og miðinnrauðar gervitunglamyndir. Hafísþekjan breytist hratt og er afar fjölbreytileg: þykkt íssins og aldur, þéttleiki, landslag, snjóhula, bráðnun, hryggir, lænur, vakir og rek.

Borgarísjaka er oft að finna innan ísbreiðunnar auk þess sem þeir eru til nokkurra vandræða þegar hafísinn er fjarri, ekki síst á haustin. Engin ein myndgerð nýtist fullkomlega við hafíseftirlit en samanburður og samtvinnun ólíkra myndgerða hefur gefist nokkuð vel til að fylgjast með hafísnum við Ísland. Samanburður við upplýsingar og kort úr ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar hefur einnig gefist vel í flestum tilfellum þótt nýmyndun hafíss hafi stundum komið út sem þéttari ís á myndunum.

Stöðlum International Ice Charting Working Group er fylgt við ískortlagninguna þegar það á við, en við þróun aðferða er framsetning öllu frjálslegri. Landupplýsingakerfi eru notuð til myndvinnslu, kortagerðar og vörslu gagnanna.

Í erindinu verður greint frá helstu þáttum í hafíssögu síðastliðins árs og lögð sérstök áhersla á þá möguleika sem ný flugvél og búnaður Landhelgisgæslunnar býður upp á, ekki síst við eftirlit með borgarís. Sagt verður frá vinnufundi IICWG síðastliðið sumar og loks rætt um mikilvægi hafíseftirlits við breytt skilyrði í veðurfari og skipaumferð.

Sandstormar á ÍslandiThrostur_Sandstormar_a

Modis mynd af sandstormi frá Landeyjarsandi og Markarfljóti 28. apríl 2007 sem liggur yfir Reykjavík (Þröstur Þorsteinsson).

Greining á gosösku og sandstormum með gervitunglagögnum

Hróbjartur Þorsteinsson og Þröstur Þorsteinsson
Gervitunglagögn á mismunandi bylgjulengdum er hægt að nota til að auðkenna gjósku vegna eldgosa með mismuna-aðferðum (Wen and Rose, 1994). Greiningin er áreiðanleg ef hitastig gjóskunnar er nægjanlega frábrugðið hitastigi bakgrunns eða bakgrunnsgeislunar. Einnig gagnast gervitunglagögn á sýnilega sviðinu við greiningu á sandstormum. Mögulega er hægt að greina sandstorma hérlendis með mismuna-aðferðum. Aðstæður þurfa hins vegar að vera "réttar" og rannsaka þarf gögn frá atburðum sem sjást greinilega á sýnilega sviðinu til að þróa aðferðir til að meta hvenær og hversu nákvæmar upplýsingar er hægt að fá með þessum aðferðum.

MODIS mynd af Mýraeldum 2006
Throstur_Myraeldar2006
MODIS mynd af Mýraeldum 2006. Rauðu ferlarnir afmarka eldana og reykinn leggur út á Faxaflóa (Þröstur Þorsteinsson) .

Fjarkönnun og veðurfarstengd náttúruvá: Gróðureldar

Þröstur Þorsteinsson
Sinueldarnir miklu á Mýrum vorið 2006 sýndu, svo ekki varð um villst, að hættan vegna gróðurelda er raunveruleg á Íslandi. Fjarkönnunargögn á mismunandi bylgjulengdum frá MODIS nemunum, sem eru í Aqua og Terra gervitunglum NASA, veittu mikilvægar upplýsingar um ákafa og útbreiðslu eldanna. Unnið er að því að þróa sjálfvirkar rauntíma mismuna-aðferðir til að reikna hitafrávik, sér í lagi útgeislunarorku (fire radiative power), stærð svæðis sem logar á og hitastig.

Athuganir á upptökum moldviðris á Austurlandi

Victor Kr. Helgason og Árni J. Óðinsson
Uppfok og moldviðri þekkjast víða á Íslandi þegar þurrir vindar blása. Í aðdraganda og við byggingu Kárahnjúkavirkjunar var búist við að uppfok myndi aukast á Austurlandi við tilkomu Hálslóns. Landsvirkjun brást við með greiningu, rannsóknum, eftirliti og ýmsum mótvægisaðgerðum. Ýmsar landupplýsingar innan lónstæðisins voru greindar til að einangra erfiðustu svæðin, fallryksmælar hafa verið settir upp víða um austanvert landið, fylgst er með gervitunglamyndum af landinu og vökvun og fokgirðingum er beitt við heftingu uppfoksins.

En við hvaða skilyrði verður uppfok á Austurlandi, hverju skilaði greining landupplýsinganna, hvað safnast í fallryksmælana, hvað sést utan úr geimnum og duga mótvægisaðgerðirnar?

Meðalvindhraði á landinu

Trausti Jónsson
Eru sjálfvirkar og mannaðar stöðvar sambærilegar? Samfelldni langtímaraða er sífellt ógnað. Miklar breytingar á athugunarháttum og stöðvakerfi eru áhyggjuvaldar. Mönnuðum athugunum hefur fækkað mjög á undanförnum árum. Í fyrirlestrinum er fjallað um það hvort breytingar hafi orðið á meðalvindhraða vegna þessarar þróunar. Einnig er fjallað um breytingar á meðalvindhraða síðustu 85 árin. Minnst er á fleiri líklega skekkjuvalda í meðaltalsreikningum.


Mælireitur Veðurstofu Íslands
reitur3
Mælireitur Veðurstofu Íslands við Bústaðaveg. Úrkomumælar eru merktir á myndinni. R1 og R2: íslenskir úrkomumælar; J1 og J2: úrkomumælar með mælisop í jarðhæð; Tr: Tretjakov-mælir; S1 og S2: vigtunar-og vippumælar (Þórður Arason).

Rok og rigning

Þórður Arason
Í þessari rannsókn eru samtímamælingar í mælireit Veðurstofunnar við Bústaðaveg frá sjö úrkomumælum sl. 13 ár bornar saman og lagt mat á áhrif vinds á mælingarnar. Tveir mælanna eru neðanjarðar, með mælisop í jarðhæð (J1, J2). Álitið er að vindtruflanir séu mun minni í þeim mælum og er nokkuð áberandi að þeir safna meiri úrkomu en aðrir mælar þegar rignir í hvassviðri.

Sjálfvirkar stöðvar skrá á 10 mín. fresti uppsafnaða úrkomu með vigtunar- og vippumælum (S1, S2) og 10 mín. meðalvindhraða í 10 m hæð. Til eru gögn frá sjálfvirku stöðinni í Reitnum með úrkomumæli frá sumrinu 1996. Fyrsta sumarið eru úrkomugögnin áberandi lélegri og voru því eingöngu notuð gögn frá og með 1997. Úrkomumagn er mælt tvisvar á dag í venjulegum íslenskum mæli, kl. 18 og 9, fyrir skeytastöðina (R1). Sérmælingarnar með jarðmælunum fara einungis fram á sumrin (maí-okt.) og á virkum dögum kl. 9, en þá er einnig mælt í Tretjakov-mæli (Tr) og öðrum venjulegum íslenskum mæli (R2).

Valdir voru þeir dagar þar sem mælitímabil var 24 klst, þ.e. mælidögum eftir helgar og frídaga var sleppt. Einungis nýtast dagar þegar úrkoma mældist á einhverjum mælanna. Einnig voru sett takmörk við að sjálfvirka stöðin væri með heilleg gögn og að úrkomutegund á skeytastöðinni væri metin sem hrein rigning en ekki slydda eða snjór. Á þessum 13 árum, 1997-2009, höfum við slíkar samtímamælingar fyrir 580 rigningardaga. Sjálfvirku stöðvarnar sýna hvenær dagsins úrkoman féll og vindhraða þegar úrkoman féll. Með því að gefa sér að jarðmælarnir mæli rétt og sjálfvirku stöðvarnar sýni hvenær úrkoman féll má finna vindháð deyfingarföll fyrir alla úrkomumælana.

Leitni í hitastigi á Íslandi á árunum 1961 til 2006

Birgir Hrafnkelsson
Leitni í hitastig á árunum 1961 til 2006 í árlegum og mánaðarlegum gildum er metin fyrir meðaltalsgildi, hágildi og lággildi frá veðurstöðvum á Íslandi. Leitni í árlegu meðaltali er 0,19 gráður á Celcius á 10 árum. Fyrir árleg hágildi og lággildi er leitnin 0,43 og 0,61 gráður á Celcius á 10 árum. Leitnin er breytileg á milli mánaða og í flestum tilfellum jákvæð. Í nokkrum mánuðum er leitnin neikvæð en það gerist í mánuðunum sem teljast til byrjun vetrar og loka vetrar.

Viðtal við veðurfræðing um MOSO
utandyra - viðtal við veðurfræðing sem heldur á lítilli fjarstýrðri flugvél
Fréttamaður RÚV ræðir við Hálfdán Ágústsson veðurfræðing í tilefni af óvenjulegum mælingum á veðri (Haraldur Ólafsson).

MOSO - Veðurmælingar með fjarstýrðri flugvél sumarið 2009

Haraldur Ólafsson, Dubravka Rasol, Hálfdán Ágústsson, Joachim Reuder, Marius O. Johannessen, Ólafur Rögnvaldsson og Sigurður Jónsson
Í Mosó-verkefninu er leitast við að lýsa staðbundum vindakerfum í tíma og rúmi. Í júlí 2009 var flogið með ómönnuðu loftfari víða um neðri hluta veðrahvolfsins í því skyni að afla gagna til að lýsa vindum á borð við hafgolu og vindrastir í grennd við Esju. Til viðbótar við flugin var veður mælt á jörðu niðri með sjálfvirkum færanlegum veðurstöðvum. Leitast verður við að veita yfirlit um verkefnið og sýnd verða nokkur dæmi um vel heppnuð flug sem sýna þversnið sólfarsvinda.

SUMO-glíma við Esjuna: Túlkun vindmælinga

Hálfdán Ágústsson
Þann 15. júli 2009 var veður mælt sunnan Esjunnar með fjarstýrðri flugvél (SUMO). Mælingarnar voru hluti af alþjólega MOSO-mæliverkefninu. Vindur var víðast hvar hægur af norðaustri en nokkuð byljóttur og norðanstæður sunnan Esjunnar. Mælingar með SUMO-vélinni gáfu til kynna mjög staðbundið hámark í vindhraða í um 100 m hæð sunnan Esjunnar en vindur var mun hægari þar fyrir ofan. Leitast verður við að túlka mælingarnar og lýsa tilraunum við að herma ástand lofthjúpsins með líkanreikningum í mjög hárri upplausn.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica