Greinar
Frá Reykjahlíð við Mývatn
Frá Reykjahlíð við Mývatn 29. ágúst 1978.

Þurrkar 3

Samanburður á þurrkárum og meðalárum

Trausti Jónsson 19.8.2009

Allgóðar heimildir eru til um úrkomu á landinu öllu í um 60 ár og nokkuð má ráða í hana í meir en 80 ár. Fyrir þann tíma er óvissan meiri. Erfitt er því að bera saman einstök þurrka- eða úrkomutímabil lengra aftur í tímann. Það flækir líka málið að líftími veðurstöðva er ekki mjög langur og fátítt er að úrkomumælingar séu gerðar á sömu stöð við sömu aðstæður í meir en 20 til 30 ár samfellt. Ekki er létt að tengja úrkomumælingar á einni stöð við aðra sem ekki mælir á sama tíma, því er mikilvægt að mælistöðvarnar séu sem flestar, að þær hætti ekki margar í einu og að ætíð komi ný stöð í stað þeirrar sem lögð er niður, jafnvel þótt nýja stöðin sé ekki á sama stað og hin gamla.

Sárafáar stöðvar mældu úrkomu á landinu fyrir 1920, áður en Veðurstofan tók til starfa. Þeim fjölgaði þó smám saman, reyndar fyrr um landið sunnanvert heldur en norðaustanlands. Nokkuð góðir möguleikar eru á því að bera sunnlensk þurrka- og úrkomuskeið saman síðastliðin 80 ár eða svo, en upplýsingar frá Norður- og Norðausturlandi eru vonandi sambærilegar 50 til 60 ár aftur í tímann.

Það flækir heldur málið að erfitt er að mæla úrkomumagn í snjókomu og sums staðar fyrir norðan á snjór stóran hluta í heildarúrkomu ársins. Vindhlífar þær sem settar voru á mælana á árunum 1948 til 1964 bættu aðeins úr þannig að greinilega sér þess merki að mæld úrkoma norðanlands jókst eftir að hlífarnar komu til sögunnar. Þurrkaskeið fyrir tíma hlífanna eru því ekki alveg sambærileg við síðari þurrka. Hafa verður það í huga í því sem hér fer á eftir. Lesa má stutt yfirlit sögu úrkomumælinga á Íslandi í greinargerðinni Úrkoma og úrkomutíðni (Langtímasveiflur II) (pdf 1,7 Mb).

Hver eru þurrustu árin?

Hér athugum við hvaða ár það eru sem eru þurrust á einstökum veðurstöðvum. Við höfum tölur frá um 250 stöðvum um land allt. Þær sem lengst hafa mælt eiga meir en 100 ára mælingar, en aðrar mældu aðeins í stuttan tíma og sumar núverandi stöðvar hafa aðeins mælt í fáein ár. En í ljós kemur að fáein ár skera sig úr þannig að þau eru hin þurrustu á allmörgum stöðvum.

Árið 1965

Flest eru þurrkametin árið 1965, það er hið þurrasta á 23 af veðurstöðvunum 250 og af 91 sem starfaði það árið. Flestar stöðvarnar eru á Suðurlandsundirlendinu og í nágrenni Reykjavíkur, en einnig koma fáeinar stöðvar á Norðausturlandi og inn til landsins á Austurlandi og á Suðausturlandi við sögu. Við nánari athugun kemur í ljós að flestar metastöðvarnar á sunnan- og suðvestanverðu landinu voru ekki byrjaðar að athuga á þurrkaárunum 1950 til 1952 og stöðvar sem athuguðu þau ár eru yfirleitt ekki með met 1965. Merkast er þurrkametið í Hólum í Hornafirði, en þar hefur nú verið mælt samfellt frá 1921, en úrkoma 1965 var aðeins 977 mm (64% af meðalúrkomu 1971-2000).

Árin 1980 og 1960

Árið 1980 er þurrast á 13 stöðvum, þær eru á stangli á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Merkast er metið í Æðey, en þar hefur verið mælt frá 1955, úrkoma 1980 var aðeins 396 mm (64% af meðalúrkomu).

Á árinu 1960 er þurrast á 12 stöðvum, flestar eru þær á vestanverðu Norðurlandi og þar í grennd. Nefna má Hamraenda í Miðdölum, en þar var mælt í meir en 60 ár, Forsæludal í Vatnsdal, þar var mælt í 46 ár og Nautabú í Skagafirði en þar var mælt í tæp 60 ár. Á Hamraendum mældust aðeins 227 mm (34% af meðalúrkomu) og er eitthvert lægsta árshlutfall sem um getur hér á landi, mætti kíkja nánar á það. Í Forsæludal var úrkoman enn minni, 221 mm, (en þó 54% af meðalúrkomu) og á Nautabúi mældist ársúrkoman 1960 270 mm (58% meðalúrkomu).

Árið 1941

Árið 1941 skartar 10 stöðvametum. Athuga ber að þá var fjöldi úrkomumælistöðva aðeins 40, en þær voru 76 árið 1960 og 91 árið 1965. Á meðal metstöðvanna er Akureyri, en þar hefur úrkoma verið mæld samfellt frá 1928. Árið 1941 mældist úrkoman á Akureyri 258 mm (50% meðalúrkomu). Í Reykjahlíð við Mývatn byrjuðu úrkomumælingar 1938. Þar mældist ársúrkoman 1941 aðeins 181 mm og er það minnsta ársúrkoma sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð - svona nokkurn veginn við staðalaðstæður. Þetta eru 40% meðalúrkomu í Reykjahlíð 1971 til 2000. Frekari vangaveltur um þetta met bíða síðari pistils. Á Sandi í Aðaldal mældist ársúrkoman 1941 222 mm (38% meðalúrkomu). Þetta var einnig þurrasta ár mæliraðarinnar á Reykjanesvita, þar mældist úrkoman 781 mm (69% meðalúrkomu).

Árið 1985

Árið 1985 er það þurrasta á 10 stöðvum, þar á meðal nokkrum mjög úrkomusömum. Þetta er þurrasta árið á Kvískerjum í Öræfum, þar mældust 2558 mm (74% af meðalúrkomu), einnig á nágrannastöðinni Fagurhólsmýri, þar mældist úrkoman 1261 mm (69% meðalúrkomu). Vagnsstaðir í Suðursveit eru næsta stöð austan við Kvísker, þar mældist ársúrkoman 1985 1441 mm (71% meðalúrkomu). Mjög úrkomusamt er einnig í Skógum undir Eyjafjöllum en 1985 er þurrasta árið þar, ársúrkoman var 1565 mm (75% meðalúrkomu) og á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi var úrkoman 1985 899 mm (67% meðalúrkomu).

Árið 1995

Níu stöðvar eiga þurrkamet á árinu 1995, flestar hafa verið starfræktar í um 20 ár eða minna. Þar má nefna t.d. Stafholtsey í Borgarfirði og Hjarðarland í Biskupstungum. Jaðar í Hrunamannahreppi í nágrenni Hjarðarlands á úrkomulágmark þetta ár, en þar var mælt á árunum 1956 til 2004. Árið 1995 var ársúrkoman þar 838 mm (71% af meðalúrkomu). Í Stafholtsey og í Hjarðarlandi eru meðaltölin 1971-2000 að sjálfsögðu nokkur ágiskun, en í Stafholtsey var metið 1995 79% meðaltalsins, en í Hjarðarlandi var það 76%. Þetta eru heldur hærri hlutföll en við höfum nefnt hér að ofan og bendir til þess að annaðhvort sé meðalúrkoma á þessum stöðvum vanáætluð eða þá að mæliraðir staðanna séu enn það stuttar að ólíklegt sé að þurrkur, sem búast má við á 50-80 ára fresti, hafi hitt á mælitímann. Síðari skýringin er trúlegri en hin.

Árin 1951 og 1977

Átta stöðvar eiga met hvort árið um sig, árið 1951 bæði Reykjavík og Stórhöfði í Vestmannaeyjum. Í Reykjavík liggja bæði mælitímabilin, 1885 til 1906 og 1921 til 2008, til grundvallar en á Stórhöfða er miðað við 1922 til 2008. Metið í Reykjavík er 560 mm (68% meðalúrkomu) en á Stórhöfða er það 1082 mm (einnig 68% meðalúrkomu).

Árið 1977 voru þurrkamet meðal annars á Stóra-Botni í Hvalfirði, Hvanneyri í Borgarfirði, Kalmanstungu í Hvítársíðu og á Leirubakka á Landi í Rangárvallasýslu.

Lengstu athugunarraðirnar

Áður var fjallað um þurrasta ár í Reykjavík (1951). Í Stykkishólmi hefur verið mælt linnulítið frá 1856 (nokkra mánuði vantar 1919). Þar er þurrasta árið 1881 og mældust þá aðeins 380 mm (54% meðalúrkomu). Á Teigarhorni við Berufjörð hafa mælingar staðið frá 1872 (fram til 1881 reyndar á Djúpavogi). Þurrasta árið þar er 1887, úrkoman mældist þá aðeins 572 mm (44% meðalúrkomu). Á Eyrarbakka var úrkoma mæld 1881 til 1910 og síðan 1923, nokkur ár á stangli vantar þó í síðara tímabilið. Úrkomuminnsta ár á Eyrarbakka er 1891, þá mældust á Bakkanum 777 mm (52% af meðalúrkomu). Úrkoma var mæld í Vestmannaeyjakaupstað 1880 til 1921. Þurrasta ár á þeim tíma var 1885 og mældust 946 mm. Samanburðarmælingar benda til þess að ársúrkoma í Kaupstaðnum og á Stórhöfða sé ámóta mikil, ef meðalúrkoma Stórhöfða er notuð hefur hlutfallið af meðalúrkomu verið 59%.

Lærdómur?

Sá lærdómur sem má draga af þessu yfirliti er að úrkoma þurrustu áranna sem koma á hverjum stað er á bilinu 65 til 75% af meðalársúrkomu á stöðvum á mestöllu vestan- og sunnanverðu landinu, en heldur minni inn til landsins fyrir norðan (innan við 50% meðalúrkomu). Mjög langar mæliraðir benda til þess að hlutfallið geti í aftakaþurrkárum orðið enn lægra en þetta.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica