Greinar
sprunginn leir
Þurr tjarnarbotn 26. júlí 2009.

Þurrkar 1

Þurrkkaflar í Reykjavík

Trausti Jónsson 6.8.2009

Samfelldar úrkomumælingar hafa verið gerðar í Reykjavík frá því í maíbyrjun 1920. Stöðin hefur á þessu tímabili verið flutt nokkrum sinnum og auk þess hefur umbúnaður mælitækja breyst lítillega. Því er ekki alveg víst að öll tímabil séu samanburðarhæf, höfum það í huga. Nokkuð áreiðanlegar mælingar voru einnig gerðar í Reykjavík á árunum 1884 til 1907. Að vísu gætti þess kæruleysis hjá sumum athugunarmönnum að mæla ekki á hverjum degi. Þó slíkir hættir spilli ekki ársúrkomu að mun (1-5 prósent) spilla þeir athugunum á lengd þurrktímabila. Í því sem hér fer á eftir er ekkert tillit tekið til skorts á samviskusemi af þessu tagi og reiknað er með að athugunarmenn hafi allir verið heiðarlegir og sómakærir hvað mælingar varðar.

Mælt var á Vífilsstöðum á árunum 1911 til 1919. Athuganir þar eru ekki ónothæfar, en áhugi manna þar á athugunum á úrkomu þá daga þegar lítið féll var svo lítill að ekki gengur að telja þurrklengdir, en staðurinn kemur þó lítillega við sögu hér að neðan.

Hvað er þurrkur?

Hér á landi hafa þurrkar sjaldan talist vandamál. Þó hafa þeir öðru hvoru spillt grassprettu í gegnum aldirnar og fyrir kemur að vatnsból þorni eða spillist. Gróður, og ekki síst hávaxinn gróður, hefur aukist með vaxandi skógrækt, aukinni sumarbústaðabyggð og minna beitarálagi. Þetta veldur því að búast má við vaxandi tjóni á næstu árum og áratugum vegna gróðurelda, en þurrkur er einn helsti áhættuþáttur þeirra. Þótt vatnsból séu nú flest frekar vannýtt hér á landi er trúlegt að aukin vatnsnotkun á komandi árum muni enn frekar ganga nærri afkastagetu vatnsveitna en nú er og þar með vex sú áhætta sem af þurrkum stafar. Svipað á við um virkjanir, ef farið er að virkja á mörkum hins nýtanlega má búast við að hlutur þurrka í áhættu aukist.

Þurrkar munu líklega fá meira rúm í hversdagsleikanum hér á landi en verið hefur. Á einhverju stigi mun verða nauðsynlegt að skilgreina þá betur en hingað til hefur verið gert. Hér er ekki gerð tillaga um þurrkvísitölu hvað þá skilgreiningu sem er skotheld.

Þurrklengd

Úrkoma er þrálát hér á landi og algengast er að þurrir dagar fari annaðhvort stakir eða þá aðeins tveir eða þrír saman. Í úrkomutalningum Veðurstofunnar er dagur kallaður þurr ef engin úrkoma hefur mælst næstliðinn sólarhring. Skipt er á milli sólarhringa kl. 9 að morgni. Minniháttar úrkoma, sú sem er svo lítil að hún nægir ekki til að skila það mikilli úrkomu í mælinn að einn dropi sé í mælinum á athugunartíma, er ekki talin með. Ef einn dropi er í mælinum er úrkoman talin 0,1 mm jafnvel þótt hún nægi ekki til að fylla að 0,1 mm-strikinu á mæliglasinu. Talan 0,1 mm samsvarar því að 100 grömm af vatni eða minna hafi fallið á hvern fermetra næstliðinn sólarhring. Eðlilegt er því að fyrsta skilgreining á þurrklengd sé fjöldi samliggjandi sólarhringa þegar úrkoma mælist ekki.

Skilgreining þessi verður þó að teljast nokkuð hörð, hugsum okkur að þurrt sé í 10 daga, síðan komi einn dagur með úrkomu sem mælist 0,1 mm, en síðan fylgi aðrir tíu dagar á eftir. Það er ansi sárt að þessi eini dropi í mælinum skuli nægja til að stytta 21 dags þurrk niður í 10 daga, þótt tvisvar sé. Freistandi er því að leyfa að meiri úrkoma falli. Hér skulum við því líka telja til fjölda samliggjandi daga með úrkomu minni eða sama sem 0,9 mm. Í síðari pistli verður litið á þurrustu mánuði og lengri tímabil.

Raðir þurra daga

Það sem fyrst kemur á óvart er hversu sjaldan er þurrt þrjá daga eða meira í röð í Reykjavík. Það gerist aðeins á 17 daga fresti að meðaltali eða gróflega sagt tvisvar í mánuði. Að engin úrkoma mælist í samfellt viku gerist á 69 daga fresti að meðaltali, svona á tveggja mánaða fresti eða svo. Tíu dagar með samfelldum þurrki koma um það bil tvisvar á ári og þurrt er í samfellt í hálfan mánuð á um 20 mánaða fresti, aðeins oftar en annað hvert ár. Þurrkur í þrjár vikur er að jafnaði einu sinni á tíu árum og á því tímabili sem hér liggur til grundvallar komu aðeins tveir þurrkkaflar sem stóðu lengur en fjórar vikur. Ef til vill bendir það til tíðninnar tvisvar á öld, en mælitímabilið er reyndar allt of stutt til að hægt sé að slá því föstu.

Aftur upp
Hálfsmánaðarþurrkar í Reykjavík - árstíðasveifla - viðmið 0,1 mm
thurrkur14_rvk_01_arstida
Mynd 1. Langir þurrkkaflar eru greinilega mun tíðari fyrri hluta ársins heldur en þann síðari. Hér er miðað við að engin úrkoma hafi mælst í samfellt 14 daga.


Í júlí 2009 var alveg þurrt samfellt í 15 daga, tölurnar að ofan benda til þess að slíkt þurrktímabil ætti að koma á tveggja ára fresti um það bil. Við höfum ekki enn litið á dreifingu þurrka á árið, hana má sjá á mynd. Í ljós kemur að þurrkar eru líklegastir að sumrinu, sérstaklega í júní og júlí, þeir eru einnig algengir í janúar og febrúar, en langsjaldgæfastir í október og desember. Um þriðjungur þurrka endar í júní, júlí eða ágúst, en féllu þurrkar tilviljanakennt á árið væri um fjórðungur þurrkanna að sumri. Þetta þýðir að um 15 sumarmánuðir líða milli sumarþurrka, hálfs mánaðar sumarþurrks er því að vænta á um 5 ára fresti að meðaltali.

Sjaldgæft er hins vegar að veðuratburðir dreifist í tíma eins og meðaltöl kveða. Á síðustu árum hafa löngu þurrkarnir í Reykjavík af einhverjum ástæðum viljað lenda á sumrinu. Næstir á undan þurrkkaflanum í júlí 2009 voru 14 daga kafli sem endaði 2. júlí 2008 og 12 daga kafli sem endaði 19. júlí 2007 og skömmu áður hafði 10 daga kafli endað 2. júlí.

Sex lengstu þurrkkaflarnir í Reykjavík

Tvisvar hefur það gerst á mælitímabilinu að engin úrkoma hafi mælst í Reykjavík í 31 dag samfellt. Annar kaflinn endaði 4. september 1960, en hinn 10. febrúar 1977. Sumarþurrkurinn 1960 fór varla framhjá nokkrum manni og óvenjulegt snjóleysi á þorranum 1977 er einnig ógleymanlegt. Þessi tímabil fá mjög lofsamlega dóma í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar.

Þriðji lengsti þurrkurinn endaði 2. september 1907 eftir að 29 dagar voru liðnir frá síðustu úrkomu. Það sumar þótti hagstætt syðra, þótt kuldar og þurrkar fyrr um sumarið hafi tafið sprettu. Norðanlands var sérlega köld og óhagstæð tíð.

Þrír þurrkar stóðu í 27 daga, einn vorþurrkur, hann endaði 7. júní 1931 og taldist óhagstæður landbúnaði því gróðri fór ekkert fram. Hinir tveir voru síðvetrarþurrkar sem komu með nánast nákvæmlega tíu ára millibili, sá fyrri endaði 21. mars 1937 en hinn síðari 8. mars 1947. Mikil og erfið kulda- og hríðatíð gekk yfir Evrópu meðan á þurrknum hér stóð 1947.

Slakað á kröfum

En lítum einnig á tíðni kafla þar sem úrkoma mælist innan við 1 mm. Vikulangir slíkir koma að meðaltali á um 40 daga fresti, um 9 sinnum á ári. Tveggja vikna langir kaflar koma að jafnaði á 145 daga fresti, þeir eru rúmlega tveir á ári að jafnaði. Tvö ár og fjórir mánuðir líða á milli þriggja vikna langra þurrkkafla og fjögurra vikna kaflar koma á 6 ára fresti eða svo.


Hálfsmánaðarþurrkar í Reykjavík - árstíðasveifla - viðmið 1,0 mm
thurrkur14_rvk_10_arstida
Mynd 2. Í talningunni eru allir kaflar þar sem sólarhringsúrkoma hefur aldrei náð 1,0 mm eða meir samfellt í 14 daga. Slíkir kaflar eru algengari á sumrin en á öðrum árstímum.


Þurrkkaflinn í júlí 2009 var 20 daga langur, endaði 27. júlí, tæpar þrjár vikur. Við ættum að upplifa þetta á tveggja ára fresti eða svo. Um 40% þriggja vikna þurrkkafla endar í júní, júlí eða ágúst. Sumarþurkkur af þessari lengd ætti því að koma á um 6 ára fresti að meðaltali.

Átta lengstu þurrkkaflarnir

Þann 6. febrúar 1936 höfðu hvorki meira né minna en 53 dagar liðið frá því að úrkoma mældist 1 mm eða meiri. Mikið norðanáhlaup gekk yfir landið 14. til 15. desember, olli það mannsköðum og stórtjóni. Eftir það lagðist veðrið í samfellda norðaustanþræsinga með nánast úrkomulausu veðri sunnanlands, en talsverðum snjó norðaustanlands.

Kaflinn sem getið var hér að ofan vorið 1931 var ekki alveg búinn þann 7. því úrkoma mældist ekki 1 mm eða meira fyrr en þann 14. júní. Þá hafði þurrkurinn staðið í 48 daga. Svipað var með þurrkinn 1907, 1 mm mörkin lengja hann í báða enda og fluttu endirinn að 8. september og lengdin þá orðin 47 dagar.

Næstu kaflar voru heldur styttri, þess fyrsta var einnig getið hér að ofan. Febrúarþurrkurinn entist nefnilega til þess 18. eftir að hafa spillst af einum degi með 0,5 mm úrkomu. Lengdin varð 39 dagar.

Þrjátíu og átta daga þurrkur í Reykjavík endaði 9. september 1903, ágústmánuður þetta ár var einhver sá allra aumasti sem vitað er um á Norðurlandi og horfði til stórvandræða þar eftir eilífar þokur og sudda. Meðalhitinn á Akureyri var 6,1 stig, en 9,2 í Reykjavík. Reykjavíkurhitinn var líka mjög lágur í norðannæðingnum.

Þann 30. ágúst 1956 hafði úrkoma ekki mælst 1 mm eða meira í í 35 daga. Ágústþurrkar eru hagstæðari gróðri en þurrkar í maí og júní. Óvenjukaldir dagar komu undir lok þurrkatímans og þann 27. mældist hiti á Barkarstöðum í Miðfirði -6,1 stig og stendur það enn sem lægsti hiti sem mælst hefur í byggð í ágúst á landinu. Sömu nótt mældist -0,4 stiga frost í Reykjavík og er það met í ágúst.

Aftur upp

Tímabilaskipting

Þótt tímabilaskipti séu í tíðni þurrka er ekki að sjá að þeim hafi farið fjölgandi eða fækkandi svo marktækt sé í tímans rás. Á mynd 3, sem sýnir tíðni 14-daga þurrka (0,1 mm), sést þó að á tímabilinu fyrir 1908 virðast þeir hafa verið algengari en síðar. Ekki er ótrúlegt að þetta stafi af mögulegu og áðurnefndu áhugaleysi athugunarmanna á mjög lítilli úrkomu, nefnilega því að ekki hafi þótt taka því að telja einn dropa sem 0,1 mm enda sé hann það ekki.


Fimm ára keðjusummur fjölda hálfsmánaðar þurrkkafla í Reykjavík (0,1 mm)
þurrkaflar, langtímabreytileiki
Mynd 3. Fjöldi tímabila þar sem engin úrkoma hefur mælst í að minnsta kosti 14 daga, 5-ára keðjusummur. Súlur settar við miðju tímabilanna, t.d. tekur súlan við 1940 til áranna 1938 til 1942. Hér má sjá að þurrkatíðni virðist meiri á tímabilinu fyrir 1908 heldur en eftir 1920. Ekki er alveg víst að það sé raunverulegt (sjá meginmál). Sumurin 1903 og 1907 var norðaustanátt óvenjuþrálát og hvort árið um sig komu þrír hálfsmánaðar kaflar án úrkomu í Reykjavík.


Mynd 4, sem sýnir tíðni 14-daga þurrka (1,0 mm), sýnir að tímabilið fyrir 1908 sker sig ekki úr síðari tímum. Myndin sýnir þó að langir þurrkar hafa verið heldur sjaldgæfari eftir 1980 en fyrir, innan við 2 á ári að meðaltali. Algengastir voru þeir nærri upphafi hafísáranna svonefndu, á fimm ára bilinu 1963 til 1967 voru 18 hálfsmánaðarrþurkkar, eða milli þrír og fjórir á ári að meðaltali. Árin 1951, 1966 og 1979 voru fimm hálfsmánaðarþurrkar hvert ár um sig. Margir muna enn veðurlag þessara ára.


Tíðni 14-daga þurrkkafla í Reykjavík (viðmið 1,0 mm)
langtímatíðni hálfsmánaðarþurrka
Mynd 4. Fjöldi tímabila þar sem sólarhringsúrkoma hefur aldrei mælst 1,0 mm eða meiri í að minnsta kosti 14 daga, 5-ára keðjusummur. Súlur settar við miðju tímabilanna, t.d. tekur súlan við 1940 til áranna 1938 til 1942. Síðustu 30 árin virðast þurrkar vera ívið fátíðari en áður, en langtímaleitni er samt ekki marktæk.

Þrír lengstu úrkomukaflarnir

Í beinu framhaldi af þessu má geta þriggja lengstu úrkomukaflanna. Þann 26. nóvember 1978 stytti loks upp í Reykjavík eftir að úrkoma hafði mælst samfellt í 48 daga eða frá 9. október. Úrkoman var rigning framan af, en síðan kom óvenjumikill snjór.

Þann 3. desember 1993 stytti upp eftir 44 daga úrkomu og 38 daga úrkomukafli endaði þann 29. mars 1953, reyndar í miklu norðankasti sem stóð um þær mundir.

 

Aðrar heimildir um þurrkana 2009

Þess má geta að Einar Sveinbjörnsson hefur skrifað um sumarþurrkana á blogg-síðu sinni, Veðurvaktin, og fjallað um þá í skýrslunni Varmalosun frá jarðstrengjum - Áhrif þurrka á Nesjavallastreng (pdf 1,6 Mb) sem hann skrifar ásamt Berglindi Orradóttur hjá LBHÍ. 

Aftur upp


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica