Greinar
kort með hæðalínum í hring - litaflekkir
Lækkun yfirborðs Hofsjökuls. Jaðar jökulsins árið 2000 er sýndur með rauðri línu.

Hofsjökull þynnist

Tómas Jóhannesson 28.7.2009

Hofsjökull er um 900 km² að flatarmáli og þriðji stærsti jökull landsins. Hann hefur þynnst og hopað á síðustu árum eins og aðrir jöklar á landinu. Meirihluti Hofsjökuls var kortlagður með leysitækjum úr flugvél í september 2008, ásamt Snæfellsjökli og Eiríksjökli sem mældir voru á sama tíma (sjá eldri grein).

Mælingarnar á Hofsjökli hafa verið bornar saman við eldri kort sem eru landlíkan Loftmynda ehf. frá árinu 1999 á leysingarsvæði jökulsins neðan 1200-1300 m y.s., mælingar Raunvísindastofnunar frá 1983 um miðbik jökulsins og GPS-mælingar Vatnamælinga Orkustofnunar frá 2001 á hábungu jökulsins.

Meðfylgjandi mynd sýnir lækkun jökulyfirborðsins eins og hún reiknast á því svæði sem nýju mælingarnar spanna þegar sleppt er svæðum þar sem eldri kort eru ekki trúverðug. Athyglisvert er að lækkun jökulyfirborðsins á 9 árum er vel yfir 30 m á stórum svæðum við jaðarinn. Efsti hluti jökulsins hefur hins vegar ekki lækkað.

Að meðaltali mælist lækkun jökulyfirborðsins frá 1999 um 12,5-13 m þegar leiðrétt hefur verið fyrir mismunandi aldri gagnanna í eldra landlíkaninu. Þetta er nokkru meira en búast mátti við út frá afkomumælingum á sama tímabili.

Til samanburðar við lækkun yfirborðsins mældist meðalþykkt Hofsjökuls um 225 m árið 1983. Hún hefur væntanlega minnkað niður undir 200 m síðan þá.

Flatarmál Hofsjökuls sem nefnt var að framan er námundun að næsta hundraði á flatarmálinu 890 km² sem jökullinn mældist á loftmynd frá árinu 1999. Sú tala hefur oft verið notuð sem mat á flatarmáli Hofsjökuls í bókum og tímaritsgreinum síðustu árin. Samkvæmt mynd frá árinu 2006 var flatarmálið þá komið niður í 867 km² og hefur væntanlega minnkað svolítið síðan. Tölur um flatarmál og rúmmál íslenskra jökla eru því á hverfanda hveli um þessar mundir.

Mælingarnar voru einnig bornar saman við nákvæmt kort af sunnanverðum Þjórsárjökli frá árinu 2003, unnið af Hnit hf. fyrir Landsvirkjun. Meðfylgjandi mynd sýnir að lækkun jökulyfirborðsins á þessu sex ára tímabili á svæðinu sem mælingarnar spanna er einnig yfir 30 m þar sem hún er mest. Að meðaltali er lækkunin á svæðinu um 13 m.

kort með hæðalínum - litaflekkir
Lækkun yfirborðs sunnanverðs Þjórsárjökuls í suðaustanverðum Hofsjökli frá 2003 til 2008. Jaðar jökulsins árið 2000 er sýndur með rauðri línu.

Á árinu 2008 hófust, í tilefni heimskautaáranna 2007-2009, viðmiðunarmælingar á jöklum landsins til þess að meta breytingar þeirra þegar fram líða stundir. Að verkefninu standa Veðurstofa Íslands, Vatnamælingar Orkustofnunar, sem nú hafa verið sameinaðar Veðurstofunni í nýrri stofnun, og Jarðvísindastofnun Háskólans. Mælingarnar eru gerðar með stuðningi Rannís, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Vegagerðarinnar og Landmælinga Íslands. Þýska mælingafyrirtækið TopScan mælir jöklana. (Vefir stofnananna opnast í nýjum vafraglugga).Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica