Greinar
gervihnattamynd - strönd - tvær myndir víxlast
Breytingar í Breiðamerkurjökli í byrjun júní 2009. Jökulsárlón á Breiðamerkursandi fyllist af ís miðað við sams konar mynd frá í fyrra.

Breiðamerkurjökull

Framhlaupin og lónið

Oddur Sigurðsson 5.6.2009

Breiðamerkurjökull er sá jökull sem hefur verið nærgöngulastur við byggðir landsins. Á nokkrum öldum gekk jökullinn yfir blómlega sveit austan Öræfa. Síðasta bæjarstæðið sem hvarf undir jökulinn var Breiðamörk árið 1702. Skömmu fyrir aldamótin 1900 vantaði tæplega 300 m á að jökulsporðurinn næði út í sjó.

Síðan hafa jöklar rýrnað mikið og er jaðar jökulsins nú um 5 km undan strönd. Nú er þar Jökulsárlón sem hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn.

Frá jökulskerjunum Esjufjöllum, Mávabyggðum og fleirum liggja grjótdreifar niður eftir jöklinum og skipta honum í nokkra jökulstrauma. Að minnsta kosti tveir þessara strauma, þeir sem eru hvor sínu megin við Esjufjöll, eiga það til að hlaupa skyndilega fram á nokkurra áratuga fresti en í seinni tíð þó ekki nema um hundrað metra í senn. Síðast gerðist það upp úr 1980.

Mynd 1 er tekin í byrjun júní 2009 og sýnir að mikill jökulíshroði hefur safnast á yfirborð Jökulsárlóns þannig að bátar komast þar trauðlega á flot. Mögulegt er að framhlaup valdi þessu og jökulísinn brotni í smátt þegar út í lónið er komið. Mynd 2 sýnir ástand Jökulsárlóns tæpum sjö árum fyrr. Meðfylgjandi gerfihnattamyndir sýna einnig mismunandi ísmagn í lóninu milli ára. Veðurstofan vinnur slíkar MODIS myndir frá NASA með aðstoð HDFLook software team.

Jökulsárlón fullt af ís í júní 2009
jökulhröngl á lóni, jökull í baksýn
Mynd 1. Jökulsárlón á Breiðamerkursandi þann 3. júní 2009. Lónið er fullt af ís, ef til vill vegna framhlaups Breiðamerkurjökuls. Ljósmynd: Ragnar Th. Sigurðsson
Lítill ís á Jökulsárlóni árið 2002
loftmynd af skriðjökli og lóni með ísjökum
Mynd 2. Jökulsárlón á Breiðamerkursandi 28. september 2002. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica