Greinar
snævi þakin tré, snjóað hefur í logni
Snævi þakin tré í Reykjavík, snjóað hefur í hægviðri.

Við hvaða hita snjóar?

Getur snjóað í miklu frosti?

Trausti Jónsson 14.5.2009

Úrkoma myndast í skýjum en fellur síðan til jarðar. Snjórinn sem við sjáum falla er langoftast orðinn til langt ofan við höfuð okkar þar sem hiti er annar en sá sem við upplifum og mælum. Ástæður mikillar snjókomu í miklu frosti geta verið fleiri en ein og til að greina þær að í hverju tilviki fyrir sig þurfum við helst að vita hvernig hiti breytist með vaxandi hæð fyrir ofan okkur. Ekki er alltaf létt að giska á það.

Snjókoma í miklu frosti

Ef mjög mikið snjóar í miklu frosti gerist það oftast í hægviðri, undir svokölluðum hitahvörfum. Snjórinn fellur þá í allstórum flyksum. Það að flyksurnar eru stórar bendir til þess að fyrir ofan okkur sé ekki mjög mikið frost (frost þó). Ískristallar krækjast best saman sé frost lítið. Í þessu tilviki er frostið sem við upplifum aðeins staðbundið, fyrir ofan okkur eru líklega hitahvörf og ofan þeirra er frostið minna. Sennilega er ekki langt upp í þau. Snjó getur dengt niður við þessi skilyrði, þótt frostið sé mikið.

Hundslappadrífa
Snjókoma í Reykjavík
Snjókoma í Fossvogi í Reykjavík 16. janúar 2008. Starrar efst til hægri. Þeir hópast saman í "Svartaskógi" við Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar í ljósaskiptunum. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Sé hvasst er ólíklegt að stutt sé í hitahvörfin. Flyksur eru mun minni en í hægviðrinu. Það getur bæði stafað af því að árekstar milli flyksnanna dragi úr stærð þeirra, en einnig getur verið að svæðið þar sem úrkoma myndast í skýinu sé ekki mjög langt fyrir ofan okkur. Sé frost mikið, t.d. meira en 10 stig, þarf uppstreymi sem myndað hefur úrkomuna að vera mjög mikið. Algengast er að það sé í námunda við fjöll.

Þetta gerist t.d. víða á Vestfjörðum. Úrkoman myndast þá í uppstreyminu áveðurs á fjallinu, en fýkur yfir það og dengist niður hlémegin, jafnvel niður á láglendi. Þetta getur gerst í miklu frosti, ef vindur er mikill og loftið í uppstreyminu er rakamettað. Fyrir kemur að það sem virðist vera snjókoma er þegar betur er að gáð að mestu leyti skafrenningur. Skafrenningur er hins vegar miklu meiri í snjókomu en í úrkomulausu veðri.

Skafrenningur
Vonarskarð
Vonarskarð á vetrardegi, 6. mars 2005. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.

Úrkomumyndun

Ský innihalda ótölulegan fjölda örsmárra vatnsdropa, jafnvel í miklu frosti. Rakaþétting og uppgufun á sér sífellt stað þar sem vatnsgufa (eimur - ósýnileg lofttegund) og vatn sem vökvi eða ís mætast. Uppgufun er tregari yfir ísfleti heldur en yfir vatnsfleti.

Þetta þýðir að komi ísnál inn í umhverfi þar sem jafnvægi ríkir milli uppgufunar og þéttingar á vatnsdropum fer hún umsvifalaust að taka til sín raka úr loftinu, þar með fellur rakastig loftsins og jafnvægið við yfirborð dropanna raskast. Þeir taka þá að gufa upp og missa raka til ísnálarinnar, ískristallarnir aféta dropana. Ísnálin verður á skammri stundu stór og utan á hana hlaðast nýjar nálar eða kristallar sem geta brotnað af. Þá verða til margar nálar sem aftur geta af sér fleiri sem allar keppa um þann raka sem fáanlegur er.

Nú gufa langflestir vatnsdroparnir örsmáu upp og hverfa. Stórar ísnálar eða stórir ískristallar klessast síðan saman og mynda snjóflyksur sem falla til jarðar. Lögun ískristalla fer eftir því við hvaða hita þeir myndast og hvert rakajafnvægi þeirra við umhverfið er.

Munurinn á þéttingarjafnvægi yfir ís annars vegar og vatnsfleti hins vegar ræðst af hita og er munurinn mestur við 8 til 15 stiga frost. Afát, eins og lýst var að ofan, gengur því greiðast á því hitabili.

Hríðarveður
Litla-Ávík á Ströndum 18. janúar 2008.
Litla-Ávík á Ströndum 18. janúar 2008. Upp úr kl. þrjú var norðan 13 m/s og snjókoma, frost 3,6° og lítið skyggni. Ljósmynd: Jón G. Guðjónsson.

Snjókoma í frostlausu veðri

Nær öll úrkoma hér á landi myndast þegar vatnsgufa þéttist utan á ískristöllum í skýjum. Úrkoma byrjar því öll sem snjór og rigningin er í öllum tilvikum snjór sem hefur bráðnað. Bráðnunin tekur hins vegar orku úr loftinu sem úrkoman fellur í, það kólnar því. Sé ákefð úrkomunnar mjög mikil kólnar loftið smám saman niður fyrir frostmark, þá eru snjóflyksur stórar og fallhraði þeirra mikill. Stundum snjóar því í stutta stund í 2 til 4 stiga hita. Það ástand stendur þó ekki lengi því annað hvort kólnar fljótt niður að frostmarki í snjókomunni eða hún breytist (aftur) í regn.

Textinn birtist áður á Vísindavef Háskóla Íslands og er hér lítið breyttur.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica