Greinar
Frá Vestmannaeyjum
Frá Vestmannaeyjum 4. júlí 1968.

Úrkomumælingar í Vestmannaeyjum

Söguágrip og samanburður

Trausti Jónsson 6.5.2009

Úrkomumælingar hófust í Vestmannaeyjakaupstað í nóvember 1880. Hinn 17. september 1921 var stöðin flutt að Stórhöfða þar sem hún er nú. Ekkert vantar í þessa röð.

Úrkomumælir og snjósívalningur voru sendir til Vestmannaeyja ásamt tveimur mæliglösum 10. mars 1880, en ekki var þó byrjað að skrá úrkomu fyrr en í nóvember sama ár. Ný mæliglös voru send 27. maí og 18. ágúst 1882. Nýjar mælikönnur og snjókantar voru sendir bæði 21. apríl og 9. október 1884. Mæliglas var sent 27. mars 1888. Regnmælir úr kopar og snjómælir voru sendir 2. apríl 1890 og 1916 virðist vera kominn Hellmannmælir, en hvenær það var kemur ekki fram.

Sendingar veðurskeyta hófust frá Vestmanneyjum 1911, en mjög óvíst er að Gísli Johnsen, sem þá var athugunarmaður, hafi gert veðurskeytin því aðrir eru skráðir fyrir þeim. Jafnvel er trúlegt að tveir hitamælar og jafnvel tvær loftvogir hafi verið í notkun á staðnum. Þetta þyrfti að athuga nánar en kemur úrkomumælingunum ekki við. Úrkomumælingar voru ekki gerðar samhliða skeytasendingum fyrr en farið var að athuga á Stórhöfða.

Samanburðarmælingar

Úrkomumælingar voru gerðar í Kaupstaðnum á árunum 1961 til 1973. Mælingarnar voru nokkuð stopular fyrstu árin en heillegar frá og með 1965. Þær lögðust af með gosinu í janúar 1973.

Á tímabilinu janúar 1965 til desember 1972 mældist úrkoma í Kaupstaðnum 97% af úrkomunni á Stórhöfða. Árstíðasveifla virðist gefa til kynna ívið meiri úrkomu á vetrum í Kaupstaðnum heldur en á Höfðanum, en hlutfallslega minni á sumrin. Líklegt er að úrkoma í stormasömum mánuðum skili sér betur í mælana í bænum.

jan feb mar apr maí jún júl ágú sep okt nóv des
0,97 1,09 1,09 0,99 0,84 0,95 0,92 0,88 0,93 0,96 1,11 1,07

Tafla 1. Hlutfall úrkomu í Kaupstaðnum af úrkomu á Stórhöfða 1965 til 1972 (%)

Frávik frá þessum meðaltölum eru talsverð í einstökum mánuðum, mest í mars 1968 þegar 302 mm mældust á Stórhöfða, en 168 í Kaupstaðnum. Mánuðurinn var hinn úrkomusamasti á Stórhöfða á samanburðartímabilinu. Lægst varð hlutfallið í mjög þurrum mánuði, febrúar 1966, þá mældist úrkoma 26 mm á Stórhöfða, en 35 í Kaupstaðnum.

Þar sem meðalmunur er ekki mikill hefur ekki verið gerð tilraun til að reikna („leiðrétta“) mælingarnar frá því fyrir 1921 til Stórhöfða, óvissa af öðrum völdum er mun meiri.

Skipt var um úrkomumæli á Stórhöfða 2. nóvember 1943 og aftur nýr með hlíf tekinn í notkun 31. október 1957. Úrkomumælir var enn endurnýjaður í september 1973.

Tafla 2. Athugunarmenn og staðir í Vestmannaeyjum

nafn byrjar hættir staður
Þorsteinn Jónsson 1877 1906 Kaupstaður
Gísli Johnsen 1906 1921 Kaupstaður
Jónathan Jónsson 1921 1922 Stórhöfði
Sigurður V. Jónathansson 1921 1924 Stórhöfði
Gunnar Þ. Jónathansson 1924 1931 Stórhöfði
Jónathan Jónsson 1931 1935 Stórhöfði
Sigurður V. Jónathansson 1935 1965 Stórhöfði
Óskar J. Sigurðsson 1965 2008 Stórhöfði
Pálmi Óskarsson 2008 # Stórhöfði
Aage L. Petersen 1911 1919 Skeytastöð
Magnea Þórðardóttir 1919 1921 Skeytastöð
R.L. Petersen 1920 1921 Skeytastöð
Starfsmenn Landssímans 1921 1921 Skeytastöð
Garðar Sigurjónsson 1961 1972 Kaupstaður - úrkomumælistöð
Starfsmenn Rafveitu Vestmannaeyja 1961 1973 Kaupstaður - úrkomumælistöð



Úrkoma í Vestmannaeyjum - lestrarhættir lítillar úrkomu
Hlutur <1mm í ársúrkomu í Vestmannaeyjum
Hlutur daga þegar úrkoma mældist minni en 1 mm í heildarúrkomu ársins í Vestmannaeyjum. Sjá má að Gísli Johnsen (1906 til 1921) er einn þeirra athugunarmanna sem litlar áhyggjur hefur af úrkomu sem er minni en 1 mm. Að öðru leyti helst hlutur lítillar úrkomu svipaður allt tímabilið. Eins og sjá má eru ýmis ráð tiltæk þegar greina á hætti athugunarmanna. Þó segja megi með nokkurri vissu að úrkoma sé vanmetin um 1% (eða svo) á tíma Gísla er sá munur svo lítill að hann skiptir engu miðað við aðra óvissuþætti. - En lesháttur Gísla truflar þó úrkomudagatalningar. Á hans tíma voru úrkomudagar á ári um 20 færri en áður og síðar. Rétt er þó að geta þess að annar áratugur aldarinnar var yfirleitt frekar þurr um sunnanvert landið.

Efni þessa texta er að meginhluta fengið úr greinargerðinni Langtímasveiflur II - Úrkoma og úrkomutíðni eftir Trausta Jónsson, 2003 (pdf 1,71 Mb).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica