Hitamunur milli nærliggjandi staða
Helstu ástæður
Ástæður mikils samtíma hitamunar milli nærliggjandi staða geta verið margþættar. Oft koma þó afstaða lands og sjávar á stöðunum við sögu og sömuleiðis fjöll í námunda við annan hvorn staðinn eða báða. Sjórinn jafnar hitamun dags og nætur og hitabreytingar eru oftast litlar á eyjum og á strönd þar sem vindur blæs á land.
Innsveitir, strönd, útsveitir
Í innsveitum er dægursveifla hitans stór, sérstaklega í björtu veðri. Á sólardögum hitnar landið mjög mikið, en kólnar hratt á kvöldin og um nætur í léttskýjuðu veðri. Stöðvar við strendur eru beggja blands, blási vindur af sjó er hitafar stöðugt, en blási af landi gætir dægursveiflu á svipaðan hátt og lengra inni í landi. Hitamunur milli nærliggjandi staða stafar oft af þessari mismunandi hegðan lands og sjávar, önnur stöðin er þá í sjávarlofti en hin í landlofti. Það fer þá eftir árstíma og tíma sólarhrings hvor stöðin er hlýrri.
Nærvera fjalla
Nærvera fjalla getur haft mjög mikil staðbundin áhrif á hita. Annars vegar geta þau valdið lóðréttum hreyfingum lofts sem ella hefðu ekki átt sér stað en hins vegar geta þau líka stíflað framrás lofts. Þá halda þau köldu lofti í skefjum sem ella hefði breiðst yfir stærra svæði.
Mest munar um áhrif fjalla þegar loft er stöðugt sem kallað er, en það er þegar loft hlýnar að tiltölu með hæð. Stöðugleiki lofts ræðst m.a. af uppruna þess. Á leið sunnan úr höfum kólnar hlýtt loft mest neðst, niður undir köldum sjónum. Hlýrra loft er því ofar, en þar sem lóðréttar hreyfingar eru litlar fréttist ekki mikið af því, nema þar sem það þarf að streyma yfir fjöll.
Fjöllin þvinga fram lóðréttar hreyfingar í lofti sem á leið yfir þau. Það getur gerst á ýmsa vegu, en niðurstaðan er gjarnan sú að hlémegin fjallsins hefur hlýrra loft að ofan blandast niður í loftið sem þar var fyrir. Hitamunur milli staða sitt hvoru megin fjallsins getur þá orðið mikill. Hlýja loftið getur þá breiðst yfir heilan landshluta, en stundum gætir þess aðeins á mjög takmörkuðum svæðum. Í slíkum tilvikum verður hitamunur mikill, jafvel milli nærliggjandi staða.
Fjöll skilja að firði og dali, þau ráða því oft hvort sjávarloft eða landloft ríkir, auk þess að auka hita staðbundið með íblöndun að ofan. Á Vestfjörðum er sjávarloft oftast ríkandi. Séu aðstæður þannig að vindur nái að hreinsa sjávarloftið út úr sumum fjörðum en ekki öðrum getur hitamunur milli fjarða orðið mjög mikill. Dæmi eru um að veðurstöð sé ýmist inni í sjávar- eða landlofti við slíkar aðstæður og hiti hrökkvi endurtekið til fram og til baka um 10°C á 10 mínútum.
Á vetrum eru áhrif landsins önnur, þá er kaldast á sléttlendi fjarri sjó, en oft hlýjast þar sem vindur stendur af hafi. Þegar hlýir vindar blása sunnan úr höfum á vetrum er hlýjast hlémegin við brött fjöll, oftast nærri sjó.
Skýringar - greining
Þegar leitað er skýringa á miklum samtíma hitamun tveggja staða þarf að spyrja eftirfarandi spurninga:
- Ræður sjávarloft ríkjum á öðrum staðnum, en ekki hinum? Hitasveiflur eru mun minni í sjávarloftinu en í því landræna.
- Eru fjöll nærri annarri hvorri stöðinni eða báðum? Fjöll og vindur geta blandað hlýju lofti að ofan niður að þeirri stöð sem stendur hlémegin. Þau geta líka hindrað framrás kaldlofts.
- Hver er vindáttin? Hún getur beint sjávarlofti frá stað eða inn yfir hann.
- Hvað er klukkan? Sólin hitar á daginn, sérstaklega í landloftinu.
- Hver er árstíminn? Sólin hefur mun meiri áhrif á sumrin þegar hún er hátt á lofti heldur en á öðrum árstímum.
- Hvernig er skýjafari háttað? Hitabreytingar eru mun minni í skýjuðu en björtu veðri.
- Vitum við eitthvað um stöðugleikann? Sé loft stöðugt bendir það til þess að hlýtt loft sé yfir, vindur við fjöll getur blandað því niður. Sé loft óstöðugt skipta lóðréttar hreyfingar litlu máli fyrir hegðan hita.