Greinar
Versalir á Sprengisandi
Versalir á Sprengisandi.

Munur á veðri eftir landshlutum

Nokkur almenn atriði

Trausti Jónsson 28.4.2009

Munur á veðri eftir landshlutum ræðst af miklu leyti af fjöllum og hálendi Íslands, en afstaða lands og sjávar, hnattstöðumunur og fleira hefur einnig áhrif. Vindátt og stöðugleiki loftsins ráða mestu um úrkomu- og skýjamyndun. Úrkoman er að jafnaði mest í þeim landshluta sem er áveðurs hverju sinni, þ.e.a.s. þar sem vindur stendur af hafi, hún er þá oftast minni hlémegin, þar sem vindur stendur af landi.

Áveðurs?

Úrkoma og ský myndast í uppstreymi, þar sem rakt loft lyftist, t.d. þegar vindur blæs upp fjallshlíð, hlémegin hálendis er yfirleitt þurrt og oft bjart veður. Í sunnanátt er Suðurland áveðurs, þar er þá oft rigning, veður þungbúið og að sumarlagi er svalt. Norðurland er hlémegin í sunnanáttinni. Þar er þá þurrt og oft hlýtt veður.

Niðurstreymi hlémegin fjalla leysir oft upp ský þannig að sólar nýtur. Í norðanátt er þungbúið og oft úrkomusamt norðanlands, en bjart og þurrt syðra. Austanáttin færir vestlendingum oft þurrt, hlýtt og bjart veður, en austanlands er það vestanáttin sem er björt og hlý. Á vetrum er snjókoma og éljagangur áveðurs á landinu, en þurrt og bjart veður hlémegin. Í suðlægum áttum fellur úrkoma nær eingöngu sem regn allt árið um kring.

Ef snörp veðrakerfi, t.d. lægðir, úrkomusvæði eða vindrastir þeim tengdar, eru á ferð við landið eða yfir því er veður oft mjög ólíkt í mismunandi landshlutum. Við brött fjöll er oft mikill munur á veðri, jafnvel milli nálægra staða.

Landið býr til hringrás í hægum vindi

Allmikill veðurmunur verður stundum í hægum vindi þegar engin sérstök vindátt er ríkjandi. Þá getur uppstreymi yfir landinu að sumarlagi valdið skýjuðu veðri og jafnvel skúrum, en á sama tíma er þá oft þurrt og bjart við sjávarsíðuna. Á sumrin er einnig algengt að svalt þokuloft sé við sjóinn, en bjart, hlýtt og þurrt á sama tíma inn til landsins.

Á vetrum er sjórinn oftast hlýrri en landið, þar er því tilhneiging til uppstreymis á þeim tíma árs. Þá getur verið mikill hitamunur milli innsveita og útnesja, sérstaklega ef vindur er hægur.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica