Greinar
himinsýn og ský, hús og tré neðst í forgrunni
Vindskafin ský í Reykjavík sumarið 2007.

Skýjafar og sunnanátt

Getur verið léttskýjað á Suðurlandi (Reykjavík) í sunnanátt?

Trausti Jónsson 28.4.2009

Já, en það er sjaldgæft. Til að svara spurningunni verðum við fyrst að ákveða hvaða sunnanáttir á að telja. Stundum hagar t.d. þannig til að Reykjavík er í skjóli Esjunnar þegar norðanátt er ríkjandi á Vesturlandi. Átt getur þá verið breytileg á höfuðborgarsvæðinu og andar jafnvel af suðri. Í slíkri ,,plat" sunnanátt er alloft léttskýjað í Reykjavík.

Við skulum telja að sunnanátt sé, ef vindstefnan er á bilinu 160° til 200° réttvísandi. Frá 1949 til 2008 að telja hefur sunnanátt verið í Reykjavík á 28063 athugunartímum, en athugað er á 3 klukkustunda fresti allan sólarhringinn. Léttskýjað er talið ef skýjahulan er minni en 3/8 hlutar. Léttskýjað var 2267 sinnum eða í nærri 8,1% sunnanáttartilvika.

Í rúmum helmingi sunnanáttartilvikanna var vindur hægur, þ.e. minni en 6 m/s. Sé aðeins litið á tilvik þegar vindur var meiri en 6 m/s fækkar sunnanáttarathugunum niður í 12488. Af þeim var aðeins léttskýjað í 217 skipti, eða í u.þ.b. 1,7% tilvika og ef þau tilvik eru eingöngu talin þegar vindur var 10 m/s eða meiri fækkar léttskýjuðum athugunum niður í 1,2%. Af þessu má sjá að lítil von er um léttskýjað veður í Reykjavík í sunnanátt.

Maríutása
himinsýn og fíngerð ský, hús neðst í forgrunni
Maríutása á himni yfir Grafarvogshverfi í Reykjavík. Ljósmynd: Magnús Jónsson 20.10.2007




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica