Greinar
loftmynd af Reykjavík
Loftmynd af Reykjavík 23. janúar 2006.

Svifryk í Reykjavík

Einar Sveinbjörnsson

vedur.is 30.3.2009

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur heldur úti af miklum metnaði mælingum um mengun í höfuðborginni. Helsta mælistöðin er við Grensásveg og þar er búið að afla upplýsinga um ýmsa þætti í þó nokkur ár. Önnur stöð er nærri gróðurvininni Laugardal og sú þriðja er færanleg.

Miklar upplýsingar um þessar mælingar er að finna á loftgæðavef borgarinnar.

Flokkun svifryks og mælingar

Svifryk er flokkað eftir stærð agna og miðað er hér við agnir í svifryki sem eru minni en 10 µg (PM10). Þegar magn svifryks, PM10, nemur meira en 50 µg/m³ yfir heilan sólarhring telst það fara yfir heilsuverndarmörk og tilkynning er gefin út.

Línurit sem sýnir svifryk í Reykjavík um áramótin 2006-2007.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá mengunina eins og hún mældist um áramótin 2006-2007 á mælistöðinni á Grensásvegi. Logn var á gamlárskvöld og veðrið með besta móti um land allt.

Púðurreykurinn hékk því lengi í loftinu á höfuðborgarsvæðinu þar sem „náttúruleg loftræsting“ var seinvirk í hægum SA-andvaranum. Fór svifrykið (PM10) í 1.820 µg/m³ kl. 01:30 í mælistöðinni við Grensásveg. Þetta var mun hærra gildi en ári áður á sömu stöð en þá var toppurinn tæplega 1.000.

Til samanburðar þykir það hins vegar mikið þegar gildið fer yfir 500 µg/m³ á dögum þegar uppspænt malbik o.fl. safnast upp á stilltum og umferðarþungum dögum.

Svifryksmengun á árinu 2006 fór 24 sinnum yfir sólarhringsheilsuverndarmörk og er rétt að huga að því hvernig veður hefur þau áhrif að svifrik mælist í háum gildum:

  • Göturnar þurrar og að mestu auðar
  • Hægur vindur, helst allt að því logn
  • Hitahvarf við jörð, en þess er helst að vænta í heiðríkju, samfara hægri norðlægri eða austlægri átt yfir landinu.

Aðstæður sem ýta undir svifryksmengun

Dæmi um aðstæður þar sem svifryksmengun verður mikil má taka af föstudeginum 24. nóv. 2006. Þann dag, nánar tiltekið upp úr hádeginu, mældist svifrykið yfir 350 µg/m³. Þetta má sjá á grafinu hér fyrir neðan frá mælistöðinni á Grensásvegi. Þegar grafið er skoðað nánar sést að uppsöfnun á sér stað allan morguninn og síðan lækka gildin með síðdegisumferðinni. Línurit sem sýnir svifryk í Reykjavík 24.- 27. nóvember 2006Um kvöldmatarleytið er greinilegur botn. Gildin hækka aftur um kl. 20:30 og lækka síðan hratt, væntanlega með minnkandi umferð. Þetta munstur þarfnast skýringa.

Þennan nóvemberdag 2006 voru umferðarmiklar götur vissulega auðar, þrátt fyrir snjó meðfram götum og uppi á eyjum. Mælingar í Reykjavík gáfu til kynna að vindur var um og innan við 1 m/s og hitahvarf vissulega til staðar, en hvort tveggja dregur mjög svo úr lóðréttri blöndun lægstu loftlaga.

En hvernig stendur þá á því að gildin lækka samfara síðdegisumferðinni og hækka síðan aftur? Svo virðist vera að magn svifryks sé afar næmt fyrir vindstyrknum. Mælingarnar frá Grensáveginum (sjá töflu hér að neðan) sýna að vindstyrkurinn er lengst af um 1 m/s eða minni, en kl. 19.00 er hann 2,2 m/s. Einmitt í kjölfar þess lækka gildin, líklega vegna blöndunar við efri loftlög. Síðna „lygnir“ á nýjan leik og svifrykið eykst.

Þetta samspil veðurs og svifryks er ekki einfalt og fyrirséð því vindáttin skiptir einnig máli, sérstaklega ef hún er nokkuð breytileg sem oft er raunin þegar vindurinn er hvað hægastur.

Einnig segir það sig sjálft að mengunin sem mælist við Grensásveginn verður ekki öll til á staðnum, ef svo má að orði komast, heldur getur hún borist annars staðar að eða frá fjarlægari hverfum. Uppsöfnunaráhrifin eru síðan enn einn þátturinn sem áhrif hefur á magn svifryks á hverjum tíma.

Á árinu 2005 fór svifrykið í 21 skipti yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík og þá vakti athygli að dæmi voru um að í þó nokkrum vindi fór mengunin yfir viðmiðunarmörk.

Göturnar verða mjög rykugar, sérstaklega þegar líður á veturinn, og þegar gerir dálitla golu þyrlast þetta tiltölulega stórgerða ryk upp ofan á annað sem til verður vegna umferðarinnar þann daginn.

dagsetning og tími mæligildi

24.11.2006 13:00

0,9 m/s

24.11.2006 13:30

1,1 m/s

24.11.2006 14:00

0,6 m/s

24.11.2006 14:30

1,2 m/s

24.11.2006 15:00

1,0 m/s

24.11.2006 15:30

0,9 m/s

24.11.2006 16:00

1,2 m/s

24.11.2006 16:30

0,8 m/s

24.11.2006 17:00

1,2 m/s

24.11.2006 17:30

1,0 m/s

24.11.2006 18:00

1,1 m/s

24.11.2006 18:30

1,4 m/s

24.11.2006 19:00

2,2 m/s

24.11.2006 19:30

1,4 m/s

24.11.2006 20:00

0,5 m/s

24.11.2006 20:30

0,9 m/s





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica