Greinar
Frá Húsavík
Frá Húsavík árið 1956.

Óvenjulegt veðurfar 1924

Af gömlum blöðum

Trausti Jónsson 11.2.2009

Mikil breyting varð á veðurfari á Íslandi um og upp úr 1920. Vetur urðu þá mildir, en vor og sumur bötnuðu lítið fyrstu árin og haustin voru mjög misjöfn. Menn fundu þessar breytingar á eigin skinni og 1924 má lesa eftirfarandi í bréfi frá Benedikt Jónssyni (frá Auðnum) en hann var þá veðurathugunarmaður á Húsavík. Upphafi bréfsins er sleppt en byrjað þar sem Benedikt lýsir breytingum á veðurfari.

Húsavík 2. september 1924

Annars er vert að geta þess, að hér nyrðra, að minnsta kosti í Þingeyjarsýslu, hefur nú í tvö ár verið alveg óvanalegt veðráttufar svo að engin man slíkt. Eiginlega hvorki vetrar né sumur á norðlenskan hátt, þ.e. mildir, votir og áfrerasamir vetrar og köld og vot og sólarlaus sumur, enda Austanátt ríkjandi lengst um.

Hér nyrðra eru ýms náttúrufyrirbrigði alveg óvanaleg hin síðustu missiri. Sjór er óvanalega hlýr, og golfstraumskvíslin meiri og dýpri en menn vita dæmi til og pólísinn lengra frá en nútímamenn muna áður. Fiskagöngur hafa líka gerbreytzt. Þorskur er allan vetur norðan við land, og er farinn að hrygna hér sem engin hér man áður.

Benedikt Jónsson
Benedikt Jónsson frá Auðnum
Benedikt Jónsson frá Auðnum (1846-1939) var veðurathugunarmaður á Húsavík árin 1924-1939. Hér er hann 87 ára gamall. Úr myndasafni Veðurstofunnar.

Þorskveiði byrjaði hér í sumar mánuði fyr en venja var, en síldin liggur svo djúpt í hinni djúpu golfstraumskvísl að hún næst ekki í reknet og enn síður herpinætur, enda lítil freisting fyrir hana að leita yfirborðsins sem sólskin aldrei hefir vermt, svo að líklega er hlýrra niður [í] golfstraumskvíslinni en á yfirborði.

Þrátt fyrir mildi tveggja síðastl. vetra hafa afleiðingar þeirra verið afar illar í landbúnaðarsveitum Þ.sýslu. Allan síðastl. vetur voru rigningar við sjóinn, og jörð ýmist auð eða mjög snjólétt og sauðfé að kalla ekkert gefið, því fjörubeit var ágæt og notaðist vel. En 500 til 1000 fetum yfir sjó varð öll úrkoman að krapsnjó og glerharðri áfreðaskorpu sem olli algerðu hagleysi, svo að í hærri sveitum Þ.s. [Þingeyjarsýslu] var algerð hagleysa frá því í 1. viku nóv. og fram í maílok og jafnvel fram í júní. Og í júní rak niður fönn svo, að fé fennti í bygð og vorlömb hríðdrápust. Svo var vorið svo kalt og fúlt og óhagstætt að heyskapur varð ekki byrjaður fyrri en almennt en um 20. júlí og ekki teljandi hirt af heyum fyrri en eftir höfuðdag.


Hér skiftir því algerlega í tvö horn: Við sjávarsíðuna má heita góðæri og uppgripaafli en uppi í dölum gengur hallæri næst. Þetta er svo einkennilegt ástand að vert er að gefa því gaum, en eðlileg afleiðing af veðráttufarinu er það. Allan þennan tveggja ára tíma hefir Austanátt ríkt hér svo að örsjaldan hefir blásið af öðrum áttum en fr. N.N.A. til S.S.A. og örsjaldan mikil hvassviðri. ...

Með virðingu, Benedikt Jónsson.
[Bréfasafn Veðurstofunnar: 1008]

Benedikt Jónsson frá Auðnum athugaði á Húsavík frá 1924 til 1939. Benedikt var landsþekktur maður á sinni tíð og var háaldraður þegar hann hóf veðurathuganir fyrir Veðurstofuna.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica