Greinar
jólaljós
Jólaljós.

Hlý og köld jól í Stykkishólmi

Tiu hlýjustu og köldustu jólin 1846 til 2008

Trausti Jónsson 6.1.2009

Nýliðin jól og áramót þóttu hlý hér á landi og samanburður við fyrri ár bendir til þess að um vestan- og sunnanvert landið hafi þau verið meðal þeirra 10 hlýjustu frá upphafi mælinga. Þó mánaðameðaltöl hafi verið reiknuð fyrir allmargar stöðvar aftur á 19. öld hefur meðalhiti einstakra daga ekki verið reiknaður svo langt aftur.

Svo vill til að hiti kl. 9 að morgni er oft dæmigerður fyrir sólarhringinn í heild, stóran hluta ársins. Það er helst um tíma á undan vorjafndægrum og aftur eftir haustjafndægur sem hiti á þessum tíma sólarhrings er ívið lægri en sólarhringsmeðaltalið. Hiti kl. 9 í Stykkishólmi er aðgengilegur á tölvutæku formi allt aftur til 1874 en kl. 8 frá 1846 til 1873. Auðvelt er því að bera saman hita á ýmsum merkidögum allt þetta tímabil og búa til lista af ýmsu tagi. Athuganir féllu þó niður í Stykkishólmi frá því í ágúst 1919 til áramóta. Hitinn í Stykkishólmi er oftast dæmigerður fyrir landið í heild. Ef hægt væri að gera svipaðan lista fyrir Reykjavík er líklegt að hann yrði ámóta - þó alls ekki alveg eins. Listi fyrir stöðvar á Norður- og Austurlandi yrði hins vegar frábrugðnari.

Hlý jól og áramót

Á Íslandi eru jólin talin standa í 13 daga, frá jóladegi til þrettánda. Hér bætum við aðfangadegi við þannig að dagarnir verða 14.

röð ár 14 dagar ár jól 3 ár áramót
1 1937 3,86 1851 6,43 1971 7,35
2 1971 3,77 1926 6,40 1867 6,25
3 1867 3,47 1864 5,77 2001 5,35
4 2006 3,45 1933 5,33 1863 5,30
5 1903 3,36 1849 5,23 1989 5,00
6 1907 3,20 1970 5,10 1846 4,90
7 2008 3,19 2006 4,90 1890 4,90
8 1846 3,09 1934 4,73 1903 4,90
9 1934 2,76 1948 4,47 1928 4,85
10 2005 2,76 2002 4,40 1968 4,85


Dálkurinn sem merktur er 14 dagar sýnir 10 hlýjustu jólin (löng) frá 1846 til 2008, ártalið í dálknum næst fyrir framan á við hverju sinni. Dálkur sem merktur er jól 3 sýnir meðalhita á aðfangadag, jóladag og annan dag jóla og ártölin í næsta dálki á undan eiga við. Áramótadálkurinn á við um meðalhita gamlársdags og nýársdags og á ársmerkingin í dálknum á undan við ár gamlársdags.

Hlýjustu jólin í Stykkishólmi voru 1937 (og fram á 1938), en 1971 og 1867 eru ekki langt undan. Síðan koma jólin 2006 og nýliðin jól (2008) eru í sjöunda sæti. Dagana þrjá (aðfangadag til annars dags jóla) var hlýjast 1851 og 1926 ómarktækt þar á eftir. Jólin 2006 eru hér í 7. sæti, en nýliðin jól eru ekki á listanum (voru í 28. sæti). Hlýjust voru áramótin 1971/1972 og 1867/1868 lenda í öðru sæti. Nýliðin áramót (2008/2009) eru mun neðar á listanum, í 64. til 66. sæti (árin eru alls 163).

Köld jól og áramót

röð ár 14 dagar ár jól 3 ár áramót
1 1878 -9,49 1880 -16,60 1878 -14,20
2 1880 -7,54 1906 -10,20 1902 -11,20
3 1902 -6,20 1877 -10,13 1947 -9,20
4 1873 -5,41 1909 -9,13 1975 -9,10
5 1975 -5,20 1863 -7,77 1876 -8,45
6 1947 -5,16 1856 -7,63 1887 -8,20
7 1980 -5,10 1860 -7,50 1866 -7,55
8 1877 -5,03 1872 -7,43 1879 -6,80
9 1866 -5,02 1882 -6,80 1942 -6,65
10 1876 -5,02 1878 -6,67 1967 -6,60



Hér eru dálkafyrirsagnir þær sömu og í fyrri töflu og sömu skýringar eiga við.

Köldust urðu jólin (14 dagar) 1878. Þá var reyndar óvenju heiðskírt veður og fallegt hefur verið að fylgjast með stjörnum og norðurljósum án ljósmengunar nútímans. Næstköldustu jólin, 1880, var veður með ýmsum hætti. Sérlega kalt var þá helgidagana þrjá (dálkurinn jól 3), mikið illviðri með frosthörku gerði milli jóla og nýárs, en hláka var á gamlársdag og áramótin þau því ekki sjáanleg á listanum. Áramótin 1878/1879 voru langköldust. Jólin 1975 voru hvað köldust á síðari áratugum og sömuleiðis 1980/1981. Ekkert ár eftir 1909 er á listanum um köldustu þrjá helgidagana, en ármótin 1975/1976 og 1967/1968 muna margir. Illviðrið í upphafi árs 1968 var sérlega eftirminnilegt þegar hitaveitan í Reykjavík gafst nærri því upp. En færri muna sjálfsagt áramótakuldana 1947/1948 og 1942/1943.

 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica