Þorraþrællinn 1866
Nú er frost á fróni
„Nú er frost á fróni, frýs í æðum blóð“ orti Kristján Jónsson fjallaskáld undir heitinu „Þorraþrællinn 1866“ og birti í Þjóðólfi 28. febrúar sama ár. Hér eru ekki aðstæður til að fullyrða hvort titillinn er hans eða ritstjórans en Kristján hefur varla ætlast til þess að kvæðið væri eins konar veðurlýsing á þorraþrælsdaginn sjálfan (síðasta dag þorra), heldur fremur almenn lýsing á því harða tíðarfari sem ríkti á landinu þennan vetur. Þorraþrælinn 1866 bar upp á 17. febrúar, en þorraþræll er síðasti dagur þorra, samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, og er ætíð laugardagur.
En hvernig var veðrið á þorraþælinn 1866?
Árið 1859 hófst mikið harðindaskeið sem stóð með litlum hléum fram til 1892 og var árið 1866 eitt hið versta. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var þá um 0,9°C, svipað og hafði verið 1859. Þetta eru einu almanaksárin frá því mælingar hófust með meðalhita undir einu stigi í Stykkishólmi.
Hitamælingar voru gerðar víðar á landinu, en lítið hefur verið unnið úr þeim. Meðalhiti á Hvanneyri í Siglufirði var -1,1 stig og bendir það til þess að þetta sé einnig eitt kaldasta ár sem vitað er um norðanlands og að meðalhiti á Akureyri hafi verið undir frostmarki. Ámóta kalt var þar 1812. Sé tekið mark á fremur óvissum mælingum í Reykjavík er 1866 einnig hið kaldasta sem vitað er um þar.
Veturinn 1865 til 1866 byrjaði ekki illa, meðalhiti í desember var nærri 2°C yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en mikil umskipti urðu þann 30. þegar gerði norðanátt með miklu frosti. Harðindin stóðu síðan linnulítið rétt fram yfir páska (sem voru 1. apríl). Veruleg kuldaköst gerði um vorið og framan af sumri en eftir fyrstu viku júlímánaðar þótti tíðarfar skárra.
Veðurfar var hart um Norðurlönd á árunum 1865 til 1867, 1866 var stofnár norsku Veðurstofunnar og eitt hið kaldasta sem vitað er um þar í landi. Árið 1867 er kaldasta ár frá upphafi mælinga í Helsinki (1829) og varð þá mikil hungursneyð í Finnlandi og mikil dauðsföll af hennar völdum. Ameríkuferðir frá Norðurlöndum tóku mikinn kipp. Einnig var mjög kalt á Grænlandi þessi árin og er 1862 kaldasta ár þar frá upphafi mælinga. Sama ár er kaldast í norðurhvelshitaröð Hadley-veðurfarsmiðstöðvarinnar, en hún nær aftur til 1850. Mikill ís var í norðurhöfum, bæði við Austur-Grænland og í Barentshafi.
Kuldarnir á 7. áratug 19. aldar skera sig úr flestum síðari kuldum að því leyti að loftþrýstingur á Íslandi var tiltölulega lágur.
Febrúar 1866
Þegar rýnt er í hitamælingar frá Stykkishólmi, Hvammi í Dölum og Siglufirði kemur í ljós að laugardagurinn 17. febrúar, þorraþrællinn, er hlýjasti eða næsthlýjasti dagur mánaðarins. En annars var febrúar einn hinn kaldasti hér á landi. Meðalhiti í Stykkishólmi var -7,7 stig eða 7 stig undir meðallagi. Sé miðað við mælitímabilið frá 1845 er mánuðurinn sá 3. kaldasti (lítillega kaldara var 1848 og talsvert kaldara 1881), en ómarktækur munur er á honum og febrúar 1855. Á tímabili ágiskaðra mánaðameðaltala í Stykkishólmi, frá og með 1798 til 1845, gæti hafa verið kaldara nokkrum sinnum á árunum 1807 til 1812, en þá voru mjög kaldir febrúarmánuðir algengir.
Í Reykjavík er febrúar 1866 sá langkaldasti sem vitað er um (meðalhiti -6,5°C, en munum mikla óvissu í mælingum). Í Siglufirði var meðalhitinn -8,9°C og líklegur meðalhiti á Akureyri um -9°C, trúlega var nokkuð kaldara í febrúar 1881, eins og í Stykkishólmi. Mælingar voru þá (1881) ekki á Akureyri, en mælt var í Saurbæ í Eyjafirði í mánuðinum og var meðalhiti þar -11,4°C.
Veður á þorraþrælinn
Veðurathuganir í Stykkishólmi og ljósrit af fáeinum veðurbókum eru til á Veðurstofunni sem sýna veður þennan dag. Fleiri veðurbækur má finna á Handritadeild Landsbókasafns og í Þjóðskjalasafni.
- Árni Gíslason, Kornbrekkum, Rangárvöllum, lýsir veðrinu svo:
Norðan kuldi, bráðhvessir á sunnan með sliddu bil og svo stórgerða rigningu. - Séra Þorleifur Jónsson í Hvammi í Dölum:
SV stormur, krapi, blikufullt loft, hvass vindi S með fjúki og S.A. krapa að kvöldi. - Séra Jón Sveinsson á Hvanneyri í Siglufirði:
Kaldi, blika - þyknaði og dimdi að - hvessti af S og þiðnaði m.kv. - Björn Halldórsson, Laufási í Eyjafirði:
Sunnan ofsa stormur, frosthægur.
Athuganir í Stykkishólmi sýna ört fallandi loftvog, hvassviðri eða storm, fyrst af austri, síðan suðaustri og suðri, með snjókomu fram yfir hádegi, en síðan rigningu. Veður hlýnaði mjög, kl. 7 um morguninn var hitinn -6,6°C, kominn upp í +1,0°C kl. 14 og í 2,9°C um kvöldið. Hámark dagsins var +3,3°C. Morguninn eftir var komið vægt frost í suðvestan hvassviðri og éljagangi.
Þessi hláka sést vel á hitariti mánaðarins og ber athugunum í Stykkishólmi og í Siglufirði vel saman. Á loftþrýsti- og hitaritinu í Stykkishólmi má sjá að loftvog féll ört þennan dag og að næstu dagana á eftir hafa að minnsta kosti þrjár lægðir farið hjá eða yfir áður en mikið háþrýstisvæði fór yfir 26. og 27.
Á þorraþrælinn 1866 gerði dæmigert íslenskt vetrarillviðri og spilliblota og hefur varla aukið mönnum bjartsýni. En harðindunum lauk ekki með þessu veðri og von skáldsins um betri tíð og sigraða þraut brást eins og frægt er um fleiri vonir þess.
Umsögn Þorvaldar Thoroddsen
Í bókinni „Árferði á Íslandi í þúsund ár“ segir m.a. um árið 1866 (bls. 275 til 278):
„Eitt af mestu harðindaárum á 19. öld og mikið ísaár. Þá lágu hafþök af ísi fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum og kom ísinn þegar í janúar að Sljettu og Langanesi, í febrúar rak hann inn að landi og í marzmánuði var hver vík og fjörður orðinn fullur af hafís og hvergi sást út yfir ísbreiðurnar af háfjöllum; fylgdu ísunum hörkufrost um alt land, svo víðast mátti fara þvert og endilangt yfir firði og víkur á lagnaðarísum, sem oft voru samfrosta við hafísinn, sem víðast lá fram undir maílok, en sumstaðar fram í ágúst. Á Suðurlandi var eftir nýár köld veðrátta með snjóhríðum og blotum, svo jarðlaust var víða í sveitum. Aðfaranótt mánudagsins 5. marz lauzt á einhverju hinu mesta norðanveðri með grimmdarfrosti og blindbyl, sem stóð allan daginn til kvölds, nóttina eftir og 6. marz var veðrið að vísu mikið, en þó nokkuð vægara, en miðvikudaginn 7. mars var komið gott veður og bjart um að litast, mátti þá sjá óvanalega sjón frá Reykjavík, að alt var ísum hulið, svo menn ekki vissu dæmi til síðan 1807; ísinn lá langt út fyrir allar eyjar og upp á Kjalarnes, yfir Skerjafjörð, Hafnarfjörð og langt á sjó út, suður og vestur fyrir Keilisnes, og svo var stór ísaspöng með allri hafsbrún, líklega rekinn út úr Borgarfirði; Hvalfjörður var allur lagður, og var gengið frá Hrafnabjörgum í Hvammsvík og frá Reykjavík til Engeyjar og Viðeyjar, en bátar voru settir á ísum frá Þyrli út í Hvammsvík. ..... Vetrarharðindin frá Þorrakomu til páska voru jafnstöðug og einstakleg yfir alt land.“
Þessi texti Þorvaldar er að miklu leyti fenginn úr Þjóðólfi hvað orðalag og efnisval snertir.
Heimildir:
Veðurbækur frá Hvammi, Hvanneyri og Stykkishólmi. Dagbókarhandrit Árna Gíslasonar.
Tímaritið Þjóðólfur, 28. febrúar 1866.
Þorvaldur Thoroddsen (1916-17), Árferði á Íslandi í þúsund ár. Hið íslenska fræðafélag. Kaupmannahöfn, 432 s.
Þakkir til Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings fyrir staðfestingu á dagsetningu.
Aftur upp