Greinar
Í Borgarfirði í janúar 1975
Kólguský yfir Borgarfirði í janúar 1975.

Illviðrin í vetur

Samanburður við fyrri ár

Trausti Jónsson 11.2.2008

Illviðrasamt hefur verið í vetur og margir spyrja hversu óvenjulegt þetta sé. Svarið er því miður ekki einfalt, það er ekki létt að bera saman illviðratíðni einstakra ára eða áratuga. Óhætt er þó að fullyrða að illviðri hafa verið óvenjutíð og stríð síðustu 3 mánuði sé miðað við síðustu 12 árin að minnsta kosti.

Ef vindhraðamælingar væru gerðar alls staðar og það um áratugaskeið væri hægt að finna verstu veður á hverjum einstökum stað og búa til lista sem á við þann stað. Síðan mætti búa til ámóta lista fyrir alla mælistaði og kæmi þá í ljós að í mörgum tilvikum eru það sömu veðrin sem raða sér í eftstu sætin. En því miður er raunveruleikinn hins vegar sá að langtímaraðir sambærilegra vindmælinga eru varla til. Breytingar á mælitækjum og mæliastæðum eru tíðar og veðurstöðvar leggjast af og aðrar koma í staðinn. Samanburður sem nær yfir lengri tíma en 5 til 15 ár verður því erfiður.

Í greinargerðinni Illviðrabálkar (pdf 2,6 Mb) sem Veðurstofan gaf út fyrir nokkrum árum er fjallað um vandamál sem tengjast mati á illviðrum. Þar kemur m.a. í ljós að röð mestu illviðra fer mjög eftir því hvaða skilgreining er notuð til að finna þau í gagnaröðum. Hafa verður þetta í huga í því sem hér fer á eftir.

Mikill breytileiki er í tíðni illviðra frá ári til árs og einnig frá einum áratug til annars. Þessi breytileiki verður enn meira áberandi sé reynt að flokka veðrin niður eftir eðli þeirra.

Stöðvakerfið

Íslenska veðurstöðvakerfið var nokkuð stöðugt á tímabilinu 1960 til 1995. Fjöldi veðurskeytastöðva hélst svipaður, dreifing þeirra um landið var svipuð og athugunartíðni svipuð, einnig hvað varðar hlut athugana að nóttu og degi. Vindmælum fór hægt fjölgandi en engar byltingar urðu í þeim efnum. Áratugurinn 1951 til 1960 hafði einnig verið svipaður nema hvað vindmælar voru mjög fáir. Þessi staða auðveldaði mjög samanburð illviðra.

Síðan hefur orðið mikil breyting. Mönnuðum veðurstöðvum hefur fækkað mjög, dreifing þeirra er ekki lengur hin sama og var, því strandarstöðvum hefur fækkað tiltölulega meira en öðrum og sömuleiðis hefur athugunum á nóttum fækkað. Líkur eru á því að þessar breytingar fækki illviðrum í talningum sem eingöngu ná til mannaðra veðurstöðva. Þetta gæti valdið sýndarfækkun á illviðrum sem ekki væri raunveruleg.

En sjálfvirkar stöðvar hafa komið í staðinn og hafa þær bylt þekkingu okkar á vindafari landsins til hins betra og má segja að frá og með árunum 1997 til 1998 eða svo gefi þær mjög góðar upplýsingar um illviðri á landinu. Vandinn hvað illviðratíðnina varðar felst fyrst og fremst í því að tengja sjálfvirku athuganirnar við þær mönnuðu þannig að hægt sé að fá mynd af illviðrafari nokkra áratugi aftur í tímann.

Í upphafi var áhersla lögð á að koma sjálfvirkum stöðvum á staði þar sem ekki hafði verið athugað áður, síðan á staði þar sem veðurathuganir voru að leggjast af en á síðari árum hefur sjálfvirkum athugunum á mönnuðum stöðvum fjölgað.

Sé litið á mönnuðu stöðvarnar eingöngu kemur í ljós að mikil fækkun varð skyndilega á illviðrum á milli áranna 1995 og 1996, en illviðratíðni hafði náð miklu hámarki á árunum 1989 til 1995. Þótt sjálfvirku stöðvarnar hafi verið tiltölulega fáar 1994 og 1995 virðist sem þær vitni einnig um fækkun og hún hafi því verið raunveruleg.

Aftur upp

Skilgreining á illviðradögum

Í því sem hér fer á eftir telst dagur illviðradagur ef 10-mínútna meðalvindur á athugunartíma hefur farið yfir 20 m/s á meir en 15% veðurstöðva. Þessi skilgreining skilar ívið fleiri dögum á ári að meðaltali heldur en skilgreiningar þær sem notaðar voru í áðurnefndri greinargerð. Sama skilgreining er notuð fyrir þá stöðvaflokka sem koma við sögu hér á eftir.

Stöðvaflokkarnir eru:

  1. Mannaðar veðurstöðvar. Athugað er misoft á sólarhring en hvergi oftar en 8 sinnum.
  2. Sjálfvirkar veðurstöðvar í byggð og á öðrum stöðum á láglendi. Hér eru notaðar athuganir á klukkustundarfresti.
  3. Sama og 2, nema hvað athuganir eru aðeins notaðar á 3 klst fresti.
  4. Stöðvar á hálendi á klukkustundarfresti (Skálafelli, Gagnheiði, Þverfjalli og Vaðlaheiði er þó sleppt).
  5. Stöðvar Vegagerðarinnar á klukkustundarfresti.
Illviðratíðni á Íslandi 1991 til 2007 illviðratíðni 1991 til 2007 yfirlit
Mynd 2. Fjöldi daga á ári sem falla undir skilgreininguna í megintexta. Nokkuð áberandi fækkun er á illviðrum á mönnuðum stöðvum (blár ferill). Það kann að stafa af fækkun stöðvanna, stöðvum þar sem illviðri eru algeng hefur e.t.v. fækkað að tiltölu miðað við það sem áður var. Á sjálfvirku stöðvunum er ekki áberandi fækkun frá 1996, en illviðrum fækkar á sjálfvirkum stöðvum ef aðeins er notast við athuganir frá þeim á þriggja klukkustunda fresti.

Mynd 2 sýnir fjölda illviðradaga á ári á mönnuðum stöðvum frá og með 1991 til 2007, en á sjálfvirkum frá og með 1995. Fækkunin mikla frá 1995 til 1996 sést greinilega í öllum þremur tilvikunum. Greinilegt er að klukkustundarathuganir skila mun fleiri dögum í talningu en 3 stunda athuganir. Sveiflur frá ári til árs eru svipaðar og eykur það bjartsýni á að heimtur á verstu veðrunum séu svipaðar fyrir öll þrjú gagnasöfnin.

Fækkun á illviðrum virðist eiga sér stað á mönnuðu stöðvunum, en hún er tæplega tengd því að athugunum á illviðrastöðum hafi fækkað sérstaklega því 3 klukkustunda sjálfvirka safnið sýnir enn meiri fækkun. Eftir 1995 er varla hægt að tala um neina marktæka breytingu á illviðrum í láglendissafninu.

Aftur upp

Illviðratíðni á Íslandi 1996 til 2007. Samanburður stöðvaflokka
illviðratíðni samanburður láglendis og hálendis
Mynd 3. Fjöldi daga á ári sem falla undir skilgreininguna í megintexta. Blái ferillinn er sá sami og sá rauði á mynd 2. Illviðri eru mun algengari á hálendinu (rauður ferill) en á láglendi og sömuleiðis á Vegagerðarstöðvunum (grænn ferill), en margar þeirra eru á heiðavegum og illviðrasömum stöðum á láglendi.

Mynd 3 sýnir samanburð á láglendisstöðvum, Vegagerðarstöðvum og hálendisstöðvum frá og með 1996. Þar sést engin marktæk leitni í gögnunum, illviðratíðni hefur lítið breyst á þessu tímabili. Við sjáum að illviðratíðni til fjalla er fjórföld á við tíðnina á láglendi og á Vegagerðarstöðvunum er illviðratíðnin tvöföld tíðninnar á láglendi. Margar Vegagerðarstöðvar eru á heiða- og fjallvegum og auk þess setur Vegagerðin upp stöðvar á láglendi þar sem illviðri eru algengari en gengur og gerist.

Aftur upp

Núlíðandi vetur í lengra samhengi

Talningarnar hér að ofan ná ekki lengra en til áramóta 2007 - 2008 og illviðrin í nóvember og desember voru ekki nægilega mörg til þess að árið 2007 gæti skorið sig úr.

Stormdagar 1995 til 2008
Stormdagahlutfall á sjálfvirkum stöðvum
Mynd 4. Stormhlutfall hvers dags á sjálfvirkum stöðvum frá 1995 (lengst til vinstri) til og með 8. febrúar 2008. Hér fá allir dagar (með eða án stormathugana) rými, en því hærri sem gráu súlurnar eru því útbreiddara er illviðrið. Við sjáum að súlurnar lengst til hægri eru nálægt því mesta sem er á tímabilinu að öðru leyti. Ártölin (og lóðréttu punktalínurnar) eru sett við áramót. Sumrin eru illviðralaus, en við sjáum að veturnir eru mjög misslæmir, 2005 til 2006 sennilega blíðastur.

Mynd 4 sýnir illviðrahlutfall hvers dags á sjálfvirkum veðurstöðvum frá 1995 (alveg lengst til vinstri á myndinni) til og með 8. febrúar 2008. Tölurnar sýna þúsundustuhluta, þannig að í verstu (útbreiddustu) veðrunum hefur meðalvindhraði náð 20 m/s á meir en 60% veðurstöðva. Ártölin við lárétta ásinn eru sett við áramót.

Í fyrsta lagi sést mjög vel á myndinni að illviðri eru í hámarki að vetrarlagi (sitt hvoru megin við áramótin), í öðru lagi sést hve mismunandi árin eru og að þykkildið í kringum ártalið 2008 sýnir að illviðri hafa nú verið algeng. Endanlegar tölur verða að bíða betri tíma, en samkeppnin er hörð. Ef ekki gerir fleiri illviðri verður veturinn 2007 til 2008 undir meðallagi áranna 1996 til 2007.

Aftur upp
Illviðratíðni á Íslandi 1949 til 2007
Illviðratalning á mönnuðum stöðvum 1949 til 2007
Mynd 5. Fjöldi daga á ári sem falla undir skilgreininguna í megintexta. Sjá má að illviðradagar hafa verið fremur fáir á undanförnum árum, en jafnframt að miklar sveiflur eru í illviðratíðni. Rauðu ferlarnir sýna 7-ára keðjumeðaltöl.

Mynd 5 sýnir langtímasamanburð mannaðra stöðva. Þar sést að lágmark síðustu ára er varla einstakt, en er orðið nokkuð langt. Mjög fá illviðri gerði á árunum frá 1960 til 1965 og 1985 til 1988.

Aftur upp

Veðrin í vetur

 Þó núlíðandi vetur sé enn ekki mjög hár í talningum breytist málið aðeins þegar litið er á hörku einstakra veðra. Hann á nefnilega 3 af 8 verstu veðrum frá og með 1995 á sjálfvirku stöðvunum og veðrin 27. janúar síðastliðinn og 8. febrúar eru þau verstu síðan 2001 og eru í fjórða og fimmta sæti á listanum (af 264). Í fyrstu þremur sætunum eru tvö norðanveður (1995 og 1999) og eitt vestanveður (2001). Sé tekinn upp annar mælikvarði sem gæti mælt hversu margir hafa orðið varir við veðrin er líklegt að nýliðin illviðri færu upp fyrir hin á listanum vegna þess hversu slæm þau urðu í þéttbýlinu suðvestanlands.

Sé eingöngu litið á mönnuðu stöðvarnar lendir veðrið 8. febrúar í 10. til 11. sæti af 172 frá og með 1995, ásamt veðrinu 30. desember, en frá 1949 í 104. til 105. sæti af 971. Þetta þýðir að á tímabilinu 1949 til 2007 hafa að jafnaði komið 1 til 3 veður á ári jafnslæm eða verri en mestu illviðrin í vetur. Hins vegar hafi þau verið óvenjufá frá og með 1996 þar til nú. Mjög trúlegt er að breytingar á dreifingu mannaðra stöðva yfir landið eftir 1995 valdi einhverju um þessa slöku stöðu, en mun nánari athugun þarf til að greina hvort gamla stöðvakerfið hefði skilað veðrunum í vetur hærra á langtímalistann.

Fyrstu árin eftir 1995 voru hálendisstöðvar fáar og dagasamanburður því vafasamur, en frá aldamótum er aðeins 1 veður á hálendinu verra eða ámóta og veðrin í vetur. Á Vegagerðarstöðvunum er samanburður mögulegur frá og með 1996 og er veðrið 8. febrúar í 2. sæti og veðrið 30. desember 2007 í 5. sæti.

 

Illviðrin í vetur. Samanburður
meðalvindhraði nóv. 2007 til 8. feb. 2008
Mynd 6. Meðalvindhraði frá klukkustund til klukkustundar frá 1. nóvember 2007 til og með 8. febrúar 2008. Verstu veðrin eru merkt með örvum og dagsetningum. Níu veður náðu yfir 15 m/s meðalvindi einhvern tíma á þeim tíma sem þau gengu yfir. Veðrið 8. febrúar var með mestan meðalvindhraða en veðrið 30. desember litlu minni.

Aftur upp

Veðrin í vetur - innbyrðis samanburður

 Meðalvindhraði á landinu og útbreiðsla ofviðra fylgist nokkuð að. Hér er reiknaður meðalvindhraði allra stöðva (ekki þó Vegagerðarstöðvanna) frá klukkustund til klukkustundar. Sjá má niðurstöður á mynd 6. Þar kemur í ljós að veðrið að kvöldi 8. febrúar er það harðasta, síðan koma veðrin 30. desember, 27. janúar, 13. desember og 30. nóvember. Fleiri veður eru þó litlu minni.

Tíu-mínútna meðalvindhraði í Reykjavík varð í þessari syrpu mestur aðfaranótt 13. desember, 24,0 m/s, og er það næstmesti vindhraði sem mælst hefur frá því að sjálfvirkar mælingar voru teknar upp á Veðurstofutúninu 1996, vindhraði varð lítillega meiri (25,2 m/s) 6. október 1996. Mesta hviðan mældist í veðrinu 13. desember, 37,2 m/s, og er mesta hviða sem mælst hefur á sjálfvirka mælinn í Reykjavík.

Í illviðrum eru rafmagnstruflanir af ýmsu tagi algengar og geta þær komið fram í athugunum sem villur. Talsverðan tíma tekur að fara yfir gögnin og hreinsa þessar villur burt. Er það oft vandasamt. Rétt er að geta þess að villum er þó ekki hent þannig að menn geta síðar séð sig um hönd ef fleiri upplýsingar koma í ljós.

Aftur upp


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica