Greinar
varla sést til húss í gegnum snjófjúk og byl
Litla-Ávík á Ströndum 18. janúar 2008.

Tíðni hríðarveðra

á árunum 1949 til 2007

Trausti Jónsson 28.1.2008

Mikil áraskipti eru í tíðni hríðarveðra á landinu og mikill breytileiki er eftir landshlutum, eins og þeir sem ferðast á vegum landsins að vetrarlagi vita. Miklu meira er um slík veður á Kjalarnesi eða í Svínahrauni heldur en í Reykjavík. Og í flestum landshlutum má finna fáeina staði á þjóðvegum sem eru miklu verri hvað hríðarveður varðar en annars gerist í nágrenninu.

Veðurstofan hefur aldrei tekið upp ákveðna skilgreiningu á hríðarveðri, ólíkt því sem gert hefur verið víða annars staðar, t.d. í Vesturheimi og á Bretlandseyjum. Skilgreiningar af þessu tagi geta verið mjög gagnlegar, bæði vegna aðvarana og tryggingaskilmála, auk almenns eftirlits með veðurfari og veðurfarsbreytingum.

Erlendar skilgreiningar

Í Kanada skilgreina menn hríðarbyl (e. blizzard) þannig að vindhraði sé meiri en 40 km/klst (11 m/s), skyggni innan við 1 km og vindkælihiti undir -25°C. Af lágmarksvindhraðanum má ráða að hitaviðmið á mæli sé um -12°C. Þetta ástand verður að standa í að minnsta kosti 4 klukkustundir. Veður af þessu tagi eru mjög sjaldgæf í byggð hér á landi.

Bandaríska skilgreiningin er sú að í hríðarveðri sé vindhraði meiri en 15,5 m/s, skyggni sé fjórðungur úr mílu eða minna (400 m) og að það sé skafrenningur eða mikil snjókoma sem takmarkar skyggnið. Í eldri skilgreiningu er að auki miðað við að hiti sé lægri en -7°C. Amerískir hríðarbyljir eru því algengari hér á landi heldur en kanadískir.

Í Bretlandi er miðað við 13,3 m/s, að skyggni sé innan við 200 m og að það sé meðalmikil eða mikil snjókoma sem takmarki skyggnið. Hita er ekki getið.

Hætta af hríðarveðrum

Snjókoma og hríð valda vandræðum í miklu fleiri tilvikum en þeim sem falla innan skilgreininganna hér að ofan, bæði hér á landi og annars staðar. Í þéttri umferð þarf tiltölulega litla snjókomu eða skafrenning til að erfiðleikar láti á sér kræla. Hér að neðan er mest fjallað um hríðarveður í víðri skilgreiningu en þó hafa þau veður sem talin eru fyrir Reykjavík, öll eða nær öll, valdið verulegum eða jafnvel miklum vandræðum í borginni.

Skilgreining

Ef skyggni er minna en 800 metrar í veðurathugun, vindhraði meiri en 5 m/s og hiti lægri en 1,5 stig kemst athugunin inn í þær talningar sem hér er vitnað til.

Veðurathuganir hafa verið gerðar eftir nánast sama vindhraða-, skyggnis- og veðurflokkunarlykli frá og með 1949, eða í nærri 60 ár. Athuganir frá Reykjavík eru til á 3 klukkustunda fresti allt þetta tímabil og einnig frá Akureyri og fáeinum stöðvum öðrum.

Aftur upp

Hríðarveður í Reykjavík

Í Reykjavík reyndust hríðarathuganir á tímabilinu (1949 til 2007) vera 256, eða um 4 á ári að meðaltali. Sé samfelldur bylur talinn eitt tilvik, þó hann nái yfir meira en 1 athugunartíma, teljast byljir í Reykjavík á tímabilinu 204. Sjá einnig Hríðarveður í Reykjavík frá 1949 - (uppfært 7. mars 2013).

Einn bylur stóð samfellt í 4 athugunartíma (9 stundir eða meira). Það var í 30. janúar 1952, enda snjóaði allt á kaf í bænum og snjódýpt var um 42 cm að morgni 31. janúar, en 48 cm daginn eftir, það næstmesta frá upphafi mælinga í Reykjavík árið 1921. Níu hríðarveður að auki stóðu í að minnsta kosti 6 klukkustundir (3 athugunartíma), hið síðasta í 11. febrúar árið 2000, þá var meðalvindhraði mikill, eða 17 m/s. Mjög fáir langir byljir eru sambærilegir hvað þetta varðar. Þó má telja vestanbyl sem gerði aðfaranótt 17. janúar 1949, austanbyl aðfaranótt 19. janúar 1952 og suðaustanbyl 16. febrúar 1970 sambærilega.

Skyggni í Reykjavíkurhríðunum er mjög sjaldan innan við 100 metrar (alveg samfellt kóf) og hefur ekki orðið á athugunartíma síðan hinn eftirminnilega morgun 4. janúar 1983. Sá bylur stóð hins vegar ekki lengi þótt harður væri.


Hríðarathuganir
Reykjavík, Keflavíkurflugvöllur, Stórhöfði
Mynd 2: Árlegur fjöldi hríðarathugana í Reykjavík (blár ferill), á Keflavíkurflugvelli (rauður ferill) og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (grænn ferill). Fækkun hríðarbylja er greinileg, bæði í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, en er ekki sérlega áberandi á Stórhöfða. Hér eru sýnd 7-ára keðjumeðaltöl.

Aftur upp

Tíðni eftir landshlutum

Tíðni hríðarveðra er misjöfn eftir landshlutum. Einfaldur samanburður stöðva sem athuga 8 sinnum á sólarhring gefur til kynna að hlutfall hríðarathugana, miðað við Reykjavík, sé sem hér segir: Kirkjubæjarklaustur: 1,1 (10% fleiri en í Reykjavík), Akureyri: 1,5 (50% fleiri en í Reykjavík), Stórhöfði: 3,7, Dalatangi: 3,8, Raufarhöfn: 11, Hveravellir: 33 og Sandbúðir á Sprengisandsleið: 50. Á Vestfjörðum var stöð sem athugaði 8 sinnum á sólarhring í Bolungarvík fram til 1953 og frá 1994, en á Galtarvita árin á milli. Á fyrrnefnda staðnum virðist hlutfallið vera 5 til 6 sinnum Reykjavík, en á Galtarvita um 9.

Þegar farið er í saumana á hríðarveðrum á Akureyri kemur í ljós að munur á tíðni þar og í Reykjavík felst fremur í lengd veðranna heldur en fjölda atvika. Eins og að ofan greindi voru athuganir í Reykjavík 256 en hríðir 204. Á sama tímabili er athuganafjöldinn á Akureyri 386 en hríðir 208, eða aðeins 4 fleiri en í Reykjavík. Í Reykjavík stóðu, eins og áður sagði, aðeins 10 hríðir í 3 athuganartíma eða meira en á Akureyri eru þær 97. Lengsta, samfellda hríðin á Akureyri stóð í 9 athugunartíma (24 stundir eða meira). Það var 12. til 13. febrúar 1973.

Áraskipti

Mikil ára- og tímabilaskipti eru á tíðni hríðarveðra í Reykjavík. Reikna má með því að hluti breytileikans skýrist af flutningum veðurstöðvarinnar og auknu þéttbýli. Núverandi staður er hægviðrasamari en flugvöllurinn, en þar var athugað á árunum 1950 til 1973, auk þess sem ástæða er til að ætla að aukið þéttbýli og skógrækt í nágrenni mælireits Veðurstofunnar hafi valdið umtalsverðri fækkun hvassviðra síðustu 30 árin. Því er athyglisvert að bera tíðni hríðarveðra í Reykjavík saman við tíðnina á Keflavíkurflugvelli og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Mynd 2 sýnir samanburð hríðatíðni staðanna þriggja í 7-ára keðjumeðaltölum. Athuga ber að ekki var farið að gera hefðbundnar veðurathuganir á Keflavíkurflugvelli fyrr en í apríl 1952.

Hér má fyrst sjá að tíðni hríðarveðra er langmest á Stórhöfða sem stafar af mikilli hvassviðratíðni. Hríðarveður eru einnig talvert algengari á Keflavíkurflugvelli en í Reykjavík. Á tímabilinu 1953 til 2007 voru hríðarathuganir 366 í Keflavík en 214 í Reykjavík. Á Stórhöfða voru á sama tímabili 856 hríðarathuganir.

Greinileg er mikil fækkun hríðarveðra, bæði í Reykjavík og Keflavík, en á Stórhöfða er fækkunin ekki eins áberandi, þó er síðasta 7-ára tímabilið (2001-2007) það lægsta á öllu skeiðinu. Í öðrum landshlutum má víðast hvar sjá fækkun hríðarveðra.

Aftur upp

Hríðarathuganir á landinu - 7 ára keðjumeðaltöl
Tíðni hríðarveðra, hiti í Stykkishólmi
Mynd 3: Tíðni hríðarveðra á landinu, 7-ára keðjumeðaltöl (blár ferill, eining í þúsundustuhlutum (‰)), ársmeðalhiti í Stykkishólmi (rauður ferill í °C, athugið að hitakvarðinn er öfugur, hæsti hitinn er neðst, en lækkar eftir því sem ofar dregur). Greinilega sést að hríðarveður eru mun fleiri þegar kalt er en þegar það er hlýtt.

Nær fækkunin til landsins alls?

Tilraun var gerð til þess að meta tíðni hríðarveðra á landinu öllu á árunum 1949 til 2007. Það var gert þannig að hríðartilvik hvers árs voru talin saman og hlutfall þeirra af öllum athugunum ársins reiknað. Tíðnin mælist í prómillum (þúsundustuhlutum) og var hún hæst 1981, 27,4‰, en lægst árið 2007, 2,6‰. Munurinn er tífaldur. Á mynd 3 má sjá breytileikann sem 7-ára keðjumeðaltöl. Á myndinni er einnig ársmeðalhiti í Stykkishólmi (öfugur kvarði) og má sjá mikla (neikvæða) fylgni meðalhitans og hríðatíðninnar. Tíðnin var greinilega meiri á kalda skeiðinu 1965 til 1995 heldur en bæði á undan því og síðar.
Aftur upp

Hríðarathuganir og ársmeðalhiti í Stykkishólmi
Tíðni hríðarveðra á móti ársmeðalhita í Stykkishólmi
Mynd 4. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi (°C, láréttur kvarði) og hríðarhlutfall í byggðum landsins 1949 til 2007 í ‰. Tölurnar á myndinni vísa til einstakra ára. Mikil fylgni er milli ársmeðalhitans og hríðatíðninnar, þannig að fáar hríðir gerir þegar hlýtt er en margar þegar kalt er í veðri.  


Þetta sést einnig vel á mynd 4, en hún sýnir hríðatíðni hvers árs á móti meðalhita í Stykkishólmi.

Verstu byljir á landinu

En fyrst fundist hafa „verstu“ byljirnir í Reykjavík og á Akureyri er þá ekki hægt að finna verstu byljina á landinu í heild? Þá hrúgast upp álitamál um skilgreiningar. Hér skal þó gerð tilraun með miklu þrengra viðmiði en því sem notað var að ofan. Vindur skal nú vera yfir 20 m/s, skyggni innan við 500 m og frost meira en 10 stig. Manndrápsveður, ekki satt? Sé hálendisstöðvunum Hveravöllum, Sandbúðum og Nýjabæ sleppt fundust alls 142 athuganir í gagnaskrá Veðurstofunnar sem falla undir þessa skilgreiningu frá og með 1949.

Meir en þriðjungur (69) eru frá stöðvum á Vestfjörðum en síðan koma Raufarhöfn og Grímsstaðir á Fjöllum með háa tíðni. Sé litið á áradreifinguna kemur í ljós að fyrir 1963 eru aðeins 3 athuganir sem ná kröfunum og var það 2. dag gagnaraðarinnar (2. janúar 1949) á Raufarhöfn og Grímsstöðum á Fjöllum. Eftir 1981 koma athuganir af þessu tagi mjög sjaldan fyrir í byggð. Langflestar athuganir falla á örfá ár, árin 1966, 1968, 1969 og 1970 eru með samtals 94. Margir munu átta sig á að þetta er einmitt á hafísárunum svokölluðu og má vafalaust túlka sem enn eina vísbendingu um þær miklu breytingar sem verða á veðurlagi þegar hafís liggur við land.

Það er líka eftirtektarvert að slæðingur af athugunum af þessu tagi er í byggðum allt fram til 1981, en lítið (6) eftir það. En reyndar eru það örfá veður sem skila flestum athugunum. Fárviðrið í lok janúar 1966 er með 16 athuganir, 4. febrúar 1968 með 7, dagarnir 18. til 22. mars 1968 með 6, 1. apríl 1968 með 6, 15. janúar 1969 með 12,5, mars 1969 með 12 og 25. til 26. mars 1970 með 8. Hér er alls staðar miðað við athuganir í byggð. Hlutur Vestfjarða er langmestur en ein og ein athugun er í öðrum landshlutum. Meira að segja bæði í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Margt bendir til þess að á 19. öld hafi nístingshríðar af þessu tagi verið mun tíðari en á þeirri 20. Aldrei var getið um skyggni í veðurathugunum þess tíma og samanburður af því tagi sem hér er notaður því dálítið erfiður gagnvart eldri athugunum.

Versta veðrið í athugunum í þeim mælikvarða sem hér er síðast notaður má teljast á Hornbjargsvita kl. 15 þann 5. mars 1969. Vindhraði var 26,7 m/s, skyggni 100 metrar og frost 19,3 stig.

Aftur upp


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica