Greinar
Esja, sléttur sjór
Esjan 27. ágúst 2004. Gráð á sjó.

Sjólag og mat á því

Sjólagsathuganir

Trausti Jónsson 17.1.2008

Sjólag í veðurskeytum er mat veðurathugunarmanns á ölduhæð á sjó nærri athugunarstað. Góð sýn verður að vera til sjávar til að matið sé mögulegt. Stöðvarnar sem nú senda upplýsingar um sjólag eru: Bolungarvík, Litla-Ávík, Hraun á Skaga, Sauðanesviti, Mánárbakki, Raufarhöfn, Miðfjarðarnes, Dalatangi, Vatnsskarðshólar, Stórhöfði og Eyrarbakki.

Sjólagstafla

Sjólagið er metið í tölum, frá 0 og upp í 9 samkvæmt eftirfarandi töflu sem hefur verið í gildi frá 1955:

Lykiltala (s)                       Nafn                                                   Ölduhæð

0 Ládautt   0 m
1 Gráð   0 - 0,1 m
2 Sjólítið   0,1 - 0,5 m
3 Dálítill sjór   0,5 - 1,25 m
4 Talsverður sjór   1,25 - 2,5 m
5 Allmikill sjór   2,5 - 4 m
6 Mikill sjór   4 - 6 m
7 Stórsjór   6 - 9 m
8 Hafrót   9 - 14 m
9 Aftaka hafrót   > 14 m

Með töflunni fylgja eftirfarandi skýringar:
Ef ölduhæð fellur nákvæmlega saman við mörk ölduhæðarbila (tvær lykiltölur virðast koma til greina) skal velja lægri lykiltöluna. T.d. skal velja s = 5 en ekki 6 ef ölduhæð er 4 m.

Með ölduhæð er átt við meðalhæð hinna stærri aldna. Ekki skal taka tillit til þess hvort aldan er kröpp eða ávöl. Ölduhæðina er yfirleitt erfitt að meta, en sums staðar mætti styðjast við athugun á því hversu hátt öldurnar ná við bryggjustólpa.

Ekki er einföld samsvörun milli ölduhæðar og vindstyrks. Oft er sjólag miklu verra eða betra en ætla mætti af veðurhæð og því er einmitt nauðsynlegt að tilgreina hvort tveggja.

Aftur upp
Meðalsjólag á Raufarhöfn og Stórhöfða
árstíðasveifla sjólags Rfh og Vm
Mynd 2. Árstíðaveifla sjólags á Raufarhöfn (blátt) og á Stórhöfða (rautt) 1991 til 2005. Sjólag er mun verra við Vestmannaeyjar heldur en við Raufarhöfn. Mun verra sjólag (hærri sjólagslykiltölur) er á vetrum en á sumrin. Á Stórhöfða hefur febrúar hæsta meðalsjólagið, en það er í janúar á Raufarhöfn. Besta meðalsjólagið er í júlí á báðum stöðvum. Orðið meðalsjólag er sett í gæsalappir í heiti myndar vegna þess að meðaltal lykiltalnanna er ekki hið sama og meðaltal sem fengist með því að breyta lykilinum fyrst í ölduhæð í metrum. Hér er því ekki hægt að líta á línuritið, fara síðan í töfluna og lesa þar meðalölduhæð.

Aftur upp

Athugun á sjólagi

Fyrir nokkrum árum gerði Trausti Jónsson veðurfræðingur athugun á sjólagi í veðurathugunum á tímabilinu frá 1949 til 2002 (fyrirlestur á 3. Fræðaþingi Félags íslenskra veðurfræðinga 2003). Helstu niðurstöður voru þessar:

 

  • Allmikil árstíðasveifla er í sjólagi við Ísland og munar meira en einu og hálfu stigi hvað það er verra (hærri skeytatala) á vetrum en sumrum
  • Dægursveifla er óveruleg, en þó má sjá lítilsháttar mun á sjólagi síðdegis og á nóttu að sumarlagi þegar dægursveifla vindhraða er hvað mest
  • Sjólag er mjög háð mati athugunarmanna og greinileg hnik verða á mörgum stöðvum þegar skipt er um athugunarmenn
  • Hnik koma fram við flutning stöðva (t.d. við flutning frá Siglunesi að Sauðanesvita, milli stöðvanna á Ströndum (Kjörvogur, Gjögur og Litla-Ávík) og frá Loftsölum til Vatnsskarðshóla
  • Meðalsjólag virðist hafa aukist um suðvestanvert landið og hugsanlega einnig austanlands
  • Meðalsjólag fyrir norðan hefur verið svipað síðustu 50-55 árin

Eldri sjólagstafla

Fyrir 1955 var eldri sjólagstafla í notkun og sum flokkaheitin voru einnig önnur.
Eldri tafla var svona:

Lykiltala (s)                         Nafn                     Ölduhæð

0 Ládautt 0 m
1 Báruvottur 0 - 0,5 m
2 Dálítil bára 0,5 - 1,0 m
3 Talsverð bára 1 - 2 m
4 Dálítil alda 2 - 3 m
5 Talsv. alda 3 - 4 m
6 Krappur sjór 4 - 6 m
7 Mikill sjór 6 - 9 m
8 Stórsjór 9 - 14 m
9 Hafrót > 14 m

Aftur upp



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica