Netjuský
Á mynd 1 hér til hliðar má sjá Altocumulus perlucidus, netjuský með götum. Hitahvörf marka yfirleitt efra borð skýja af þessu tagi. Hitahvörfin geta átt sér myndunarsögu af ýmsu tagi og ekki gott að segja hver sagan er í þessu tilviki. Það sem við sjáum hér af skýinu samanstendur af vatnsdropum.
Algengt er að svona ský myndist sem mikið til samfallandi ógengnsæ breiða (altocumulus opacus) eða jafnvel sem stórt linsuský (altocumulus lenticularis).
Mikil útgeislun er á efra borði skýsins. Strax og dregur úr myndunarákafa verður kólnunin til þess að kalt loft ofan til í skýinu missir flot og sígur niður. Í stað þess streymir lítillega hlýrra loft upp á milli niðurstreymiseininganna. Götin eru þar sem niðurstreymið er, en ský í uppstreyminu.
Mynd 2 er tekin um sama leyti, en í aðra átt. Þar sést vel að í þessu tilviki hefur kólnunin náð það langt að ískristallar hafa myndast í uppstreymiseiningunum og stækka þeir götin undrahratt þegar þeir falla í slæðum (virga) niður úr hnoðrunum. Það stafar af því að ískristallarnir aféta dropana, verða stærri og falla því fljótt niður úr skýinu. Þar er þurrara loft þannig að ísinn gufar fljótlega upp. Þegar svona hagar til getur skýið horfið á nokkrum mínútum ef ekki er meira að myndast í uppstreymi í grenndinni. Talað er um að skýið ísist.
Við sjáum að undir skýinu er talsverður vindsniði því snögg beygja kemur á slæðurnar. Báðar myndirnar eru teknar í Stykkishólmi.