Greinar
tunglbogi, skissa, skýringarmynd
Tilurð tunglboga.

Tunglbogi

Sjást regnbogar í tunglsljósi?

Trausti Jónsson 9.11.2007

Regnbogar sjást alloft í tunglskini og rigningu, þeirra er helst að vænta í hvössu veðri þar sem vindur ber regn inn undir glugga sem myndast í skýjaþykkni hlémegin fjalla, svipað og rissið á myndinni sýnir (nánari skýringar eru í myndartexta sem birtist ef slegið er á myndina).

Rigningin er mynduð yfir fjallshryggnum en vindur er það hvass að droparnir ná ekki að falla til jarðar fyrr en 1-3 km frá myndunarstað. Þetta gefur tunglsljósi tækifæri til að skína niður í dropasafnið sem brýtur ljósið og endurkastar því eins og í venjulegum regnboga sem hefur sama viðhorf og ef um sólarljós væri að ræða, í gagnstæða átt við ljósgjafann.

Tunglbogar af þessu tagi eru langoftast hvítir að sjá og fallegastir þannig (þó það sé auðvitað smekksatriði), en stundum má sjá daufa liti. Líkurnar eru mestar að næturlagi sé tungl fullt og það hátt á lofti að það birtist í skýjarofinu, en þó ekki ofar en 40° (þá sést boginn ekki).

Tunglbogar eru víðast hvar sjaldséðir, ekki síst vegna þess að menn búast ekki við þeim og eru því ekki að leita. Sá sem þetta skrifar hefur t.d. aðeins tvisvar séð tunglboga í öllu sínu veldi og í bæði skiptin við þau skilyrði sem hér var lýst, í Borgarnesi (skýjarof í suðaustanátt yfir Skarðsheiði, rigning frá Hafnarfjalli) og í Botni í Hvalfirði (skýjarof við Botnssúlur og rigning mynduð við þær). Í bæði skiptin barst tunglsljósið langsum eftir skýjarofinu.

Fleiri myndir

Veðurstofunni þætti fengur ef fleiri vildu senda ljósmyndir af fyrirbrigðinu, gjarna í gegnum vefformið Senda myndir undir efnisorðinu Ljósfyrirbæri (sjá fellilista). Athugið, að myndavélin hefur næmara auga en maðurinn og þess vegna mun myndin ef til vill sýna liti sem ljósmyndarinn greindi ekki með beru auga áður en smellt var af.

Regnbogi í myrkri
""
Tunglbogi í Stykkishólmi 22. nóv. 2015 kl. 20:55. Er hann tvöfaldur? Ljósmynd: Víðir Björnsson.

Njólubaugur

Frétt í Morgunblaðinu 9. nóvember 1995 (síðu 2):

LESENDUR hafa haft samband við Morgunblaðið til að segja frá samskonar regnbogum um nótt og sagt var frá að hefði birst skammt frá Ólafsvík í haustrigningum um miðja nótt fyrir stuttu. Ein kona hafði t.d. séð slíkan boga í Skerjafirði á mánudagskvöld og önnur í Hvalfirði fyrir nokkrum árum. Sú síðartalda sagðist hafa heyrt heitið „njólubaugur“ á næturregnboga, en njóla segir íslenzk orðabók að sé nótt og er merkt sem skáldamál.

Guðmundur Erlingsson hjá Orðabók Háskólans segir að orðið njólubaugur sé hvorki að finna í talmálssafni hennar né ritmálssafni, en hins vegar sé til kvæði eftir Einar Benediktsson með þessu nafni. Þar yrkir skáldið meðal annars um „mánafölvans friðar boga" og „næturborna bifröst anda míns" en eins og er alkunna eru bæði friðarbogi og bifröst önnur heiti yfir regnboga. Reynt verði að grennslast fyrir um heitið í kjölfar þessara ábendinga.

Þess má geta, að Björn Gunnlaugsson (1788-1876) stærðfræðingur og landmælingamaður og yfirkennari við Latínuskólann gaf út heimspekilegt trúarljóð með nafninu Njóla. Kristján Karlsson hefur bent á, að Einar Benediktsson hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá Birni Gunnlaugssyni.

Ekki mjög algengt

Trausti Jónsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands kveðst ekki hafa heyrt heitið njólubaugur á þessu fyrirbæri en hann útiloki þó ekki að það sé notað. Regnbogi að nóttu er ekki mjög algeng sjón að sögn Trausta en hann hafi þó sjálfur séð slíkt fyrirbæri. Það lúti sömu lögmálum og regnbogi að degi til, þ.e. þegar fer saman bjart tunglskin og súld eða skúraveður ásamt dreifðum skýjum, geti myndast ljósbrot í dropunum. Litirnir í næturboganum séu þó miklu daufari og geti jafnvel litið út fyrir að vera hvítir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica