Greinar
dimmar hlíðar, skrýtin ský
Júgurský við Reyðarfjörð.

Júgurský

Skýjasepar, keppir

Trausti Jónsson 9.11.2007

Skýjamyndun þessi er kölluð júgurský (mammatus) eða skýjasepar og myndast einkum þar sem rakamettað loft í ákaflegu uppstreymi nær að streyma til hliðar og lendir þar undir stöðugra loftlagi, en jafnframt ofan á þurrara lofti.

Í reynd er myndunin algeng á neðra borði fjölmargra skýjategunda, en er oftast það lítið áberandi að vart verður eftir tekið nema beinlínis sé leitað. Stórkostlegust verður myndunin til hliðar við ofuruppstreymi í miklum skúra- eða þrumuklökkum (cumulonimbus) en þau skilyrði eru ekki algeng hér á landi. Þau sjást þó stöku sinnum í skúra- eða éljaveðri eða jafnvel til hliðar við uppstreymi í fremur litlum bólstrum. Mikið skortir þá upp á að júgrin séu áberandi.

Áberandi júgurský geta einnig myndast sem hluti af neðra borði á samfelldum skýjabreiðum, oft þá netjuskýjum (altocumulus mammatus) í jaðri úrkomusvæða. Júgur eru sömuleiðis algeng í blikubólstrabreiðum (cirrocumulus) og fremur lágt liggjandi flákaskýjum (stratocumulus).

Erfitt er að meta hæð skýjanna á myndinni, en sennilega er um netjuský að ræða eins og algengast er. Líklegt er að hér sendi uppstreymi vestur undan rakt loft inn undir hlýtt og þurrt loft samfara háþrýstisvæði sem var austur- og suðaustur undan.

Hin sérkennilega lögun skýjanna verður til við allflókið myndunarferli þar sem öll þrjú loftlögin koma við sögu (þurrt og hlýtt lag ofan við, kaldara, rakt lag þar sem skýin eru og þurrt, kaldara lag neðst), auk blöndunar og útgeislunar. Separnir eyðast mjög hratt ef rakauppsprettan bregst.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica