Greinar
Kort: strönd undan Mýrdalsjökli, Vestmannaeyjar
Eyjafjallajökull og skaflasvæðið.

Fylgst með sköflum í Eyjafjöllum

Hjarnskaflar og tíðarfar

Trausti Jónsson 23.10.2007

Óskar Sigurðsson, veðurathugunarmaður og vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, hefur allt frá 1953 fylgst með nokkrum sköflum vestast í Eyjafjöllum og hversu lengi þeir hafa lifað fram eftir sumri. Á þessum 55 árum hefur aðeins eitt ár fallið úr (1980) og í fáeinum tilvikum telur Óskar að dagsetningin sé ónákvæm sökum þoku og skýja.

Veðurstofan hefur áhuga á athugunum af þessu tagi, ekki síst þeim sem einhver samfella er í um margra ára skeið. Gaman væri ef lesendur gætu útvegað fleiri ámóta gagnaraðir, jafnvel þó þær séu mun styttri en athuganaröð Óskars.

Hér að neðan má lesa um skafla sem Óskar merkir sem 2 og 3. Báðir skaflarnir eru í sunnanverðum hrygg þeim sem gengur vestur úr Eyjafjallajökli. Skafl 3 er fyrir miðju Dagmálafjalli að sunnan, en skafl 2 er í djúpu gili talsvert neðar og vestar, austan við ávalt fell sem við kunnum ekki nafn á, en gæti verið það sem kallað er Stórhöfði á korti Landmælinga. Stefna í gilskaflinn frá Stórhöfðavita séð er yfir suðurenda Elliðaeyjar. Dagsetning er sett þegar skafl sýnist eyddur frá Stórhöfða séð, hugsanlegt er að einhverjar illsýnilegar leifar endist lengur.

Líftími snjóskafls 2 í gili vestast í Eyjafjöllum, nærri þar sem heitir Stórhöfði
samsett graf, línur og súlur
Mynd 2 sýnir endingu skafls 2 fram á sumarið. Tímaásinn er lóðréttur, hækkandi ártöl upp á við. Neðri lárétti ásinn sýnir dag ársins og hvítu, útafliggjandi súlurnar sýna hversu lengi fram á sumarið skaflinn hefur lifað, fimm sinnum allt sumarið til næsta vetrar. Efri lárétti ásinn sýnir ársmeðalhita á Stórhöfða, þó þannig að ekki er miðað við almanaksárið heldur svonefnt snjóár, sem byrjar 1. október og endar 30. september árið eftir. Athugið að 1980 vantar (grá klessa). Ártalið er sett á 9 mánaða hluta snjóársins (síðara árið). Rauði punktaferillinn sýnir hita frá ári til árs, en rauða, samfellda línan er útjöfnun, en á henni má vel sjá kuldakaflana þrjá á árunum 1965 til 1995 og hlýrri ár, bæði á undan og eftir.

 
Á 55 ára tímabil hefur tíðarfar verið með mjög fjölbreyttum hætti og hitasveiflur miklar. Hlýindaskeið ríkti fram á miðjan sjöunda áratuginn, en þá kom um 30 ára langt tímabil með óhagstæðu tíðarfari og var lengst af bæði kalt og hráslagalegt. Framan af kuldaskeiðinu var fremur þurrviðrasamt en síðan varð úrkoma meiri og náði hámarki um og upp úr 1990. Eftir 1995 hlýnaði mjög mikið og hefur verið hlýtt síðan.

Í Vestmannaeyjum má skipta kuldaskeiðinu í þrjá hluta, sá fyrsti gekk yfir á hafísárunum svonefndu, 1965 til 1971, sá næsti náði hámarki á árunum 1979 til 1983 og sá síðasti á árunum 1993 til 1995. Um sunnanvert landið var miðhluti kuldaskeiðsins einna kaldastur, en norðanlands var það fyrsti hlutinn - hafísárin - en síðari hlutarnir voru mildari að árinu 1979 undanteknu, en það var kaldasta árið eftir 1920 um land allt.

 

Líftími snjóskkafls 3, fyrir miðju Dagmálafjalli (í Eyjafjöllum) að sunnan.
samsett graf, línur og súlur
Mynd 3 sýnir endingu skafls 3 fram á sumarið. Skýringar við mynd 2 eiga einnig við þessa mynd, nema hvað skafl 3 hefur á tímabilinu frá 1953 10 sinnum lifað sumarið af.


Greinilegt samhengi er á milli ársmeðalhita á Stórhöfða og endingar skaflanna, þó fleira ráði afkomu þeirra en hitinn einn. Skafl sem lifir af eitt sumar er ívið líklegri til að lifa annað, sé veðurfar að öðru leyti það sama. Líklega á það við skaflana sumarið 1987, haustið áður lifðu báðir skaflarnir og lifðu (hugsanlega) hlýindaárið 1987. Á hinn bóginn koma stundum á Suðurlandi vetur sem eru bæði kaldir og þurrir, þannig að skaflar geta verið rýrir að vori og aðeins lifað fram á mitt sumar þó hiti hafi verið lágur um veturinn. Sem dæmi má nefna veturinn 1965 til 1966.

Báðir skaflarnir hafa lifað sumar af, skafl 2 fimm sinnum, en skafl 3 tíu sinnum. Óvissa er þó með haustið 1987. Aska var á snjó árið 1973, þegar eldgosið varð í Heimaey, og hefur hún ef til vill flýtt fyrir bráðnun það sumar.

Skafl 2 fór fyrst þann 30. maí 1964, eftir hinn óvenjulega hlýja vetur og skafl 3 hvarf fyrst 6. júlí, það var árið 2004.

Birt með vinsamlegu leyfi Óskars Sigurðssonar, vitavarðar og veðurathugunarmanns á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica