Greinar
mælitæki á vegg innanhúss
Loftvog á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.

Mælingar á loftþrýstingi

Loftvogir og fleira

Trausti Jónsson 23.10.2007

Loftþrýsting er hægt að mæla á ýmsa vegu. Hlutfallslegar breytingar á loftþrýstingi koma fram með frumstæðustu tækjum, t.d. loftfylltum þvagblöðrum dýra. Sé loftþrýstingur hár eru slíkar blöðrur linar, en í lágþrýstingi spennast þær upp og verða stífar. Einfaldir vatnslásar eru notaðir í svipuðum tilgangi. Mun meira mál er að mæla hver þrýstingurinn nákvæmlega er í einhverri viðtekinni einingu, t.d. hPa (hektóPaskölum) eða mb (millibörum). Takist að búa til tæki sem gerir það er minna mál að kvarða einfaldari búnað eftir því.

Til skamms tíma var þrýstingur oftast mældur með kvikasilfursloftvogum. Kvikasilfri er hellt í meir en 80 cm langt glerrör sem lokað er í annan endann og rörinu síðan snúið við og stungið niður í lítið kvikasilfursker. Þá kemur í ljós að lofttæmi myndast efst í rörinu, loftþrýstingurinn getur ekki haldið uppi meiru en um það bil 76 cm langri kvikasilfurssúlu því kvikasilfrið er svo þungt, 13,6 sinnum eðlisþyngra en vatn. Loftþrýstingur (við sjávarmál) getur hins vegar að hámarki haldið uppi rúmlega 10 m hárri vatnssúlu (það væri óþægilega löng loftvog). Lengi vel var þrýstingur mældur í lengdareiningu kvikasilfurssúlu. Latneska heiti á frumefninu kvikasilfri er hydrargyrum og er táknað sem „Hg“ á alþjóðatáknmáli.

Framan af 20. öld var algengast að loftþrýstingur væri mældur í mmHg (lengd Hg-súlu í mm) og enn eru í notkun loftvogir með þeim kvarða. Fyrir stjórnarbyltinguna miklu í Frakklandi í lok 18. aldar var svokölluð frönsk tomma (= 27,07 mm) algengasta eining á loftvogum og reyndar var hún algeng sem loftþrýstieining langt fram eftir 19. öld, m.a. hér á landi. Metrakerfið - afturð frönsku byltingarinnar - var lengi að vinna sér sess, bæði þar í landi og annars staðar.

Enskar loftvogir með enskum tommum (= 25,40 mm) urðu algengar á 19. öld og sú tomma er enn opinber þrýstikvarði í Bandaríkjunum (kallast „inHg“), þó þarlendir vísindamenn hafi fyrir löngu skipt yfir í cgs- og síðan SI-kerfið. Ekki er svo mjög mikil hætta á ruglingi á milli inHg og hPa því tölurnar eru svo ólíkar, meðalþrýstingur við sjávarmál, 1013,25 hPa er jafn 29,92 inHg.

Veðurstofa Íslands tók cgs-eininguna mb (millibar) upp endanlega 1. janúar 1949, en hefur á síðustu árum notað SI-eininguna hektópaskal (hPa) jöfnum höndum. Þrýstingurinn 1 mmHg á sérstakt einingarnafn, torricelli (torr), og sést sú eining alloft í eldri veður- og haffræðilegum ritum

Kvikasilfursloftvogir eru enn algengar á mönnuðum veðurstöðvum en þróaðar gerðir svonefndra dósaloftvoga eru notaðar við sjálfvirkar mælingar og reyndar víðar. Í grunnatriðum samanstendur dósarloftvog af stafla loftlítilla og þéttra blikkdósa sem þjappast saman við aukinn loftþrýsting, en þenjast út þegar þrýstingur minnkar (sami grunnur og gamla þvagblöðruvogin). Rúmmálsbreytingar dósarinnar eru kvarðaðar með samanburði við kvikasilfursloftvogir.

Óyfirfarin rauntímagögn um loftþrýsting

Þess má geta, að fyrir sumar stöðvar er hægt að skoða línurit sem sýna loftþrýsting nýliðinnar viku en það eru óyfirfarin frumgögn. Gögn sjálfvirkra stöðva eru birt um leið og þau berast án þess að farið hafi verið yfir þau. Það gætu því leynst í þeim villur, t.d. vegna bilana í mælitækjum.

Hér er dæmi um línurit yfir loftþrýsting í Reykjavík (dagsetning á láréttum ás).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica