Brandsstaðaannáll
Björn Bjarnason, bóndi á Brandsstöðum í Húnavatnssýslu, tók saman mjög merkan annál sem kenndur er við bæinn. Björn bjó á Brandsstöðum frá 1816 til 1821 og aftur eftir 1836, en þess á milli á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal.
Í annálnum tiltekur Björn sláttarbyrjun í flestum árum, ýmist ákveðinn dag eða í tiltekinni viku sumars. Svo virðist sem samband sé á milli sláttarbyrjunar og meðalhita ársins, þótt auðvitað geti margt annað komið til. Þetta samband virðist sérstaklega gott ef nokkur ár eru tekin saman, t.d. með keðjumeðaltölum.
Á línuriti má sjá sláttarbyrjun Björns kvarðaða á móti meðalhita Stykkishólmslínuritsins. Þá sést furðugott samband allt frá 1825, en verra áður. Ef vel tekst til með fleiri veðurvitni má e.t.v. ráðast í leiðréttingar á mælingunum.
Heimild: Brandsstaða annáll: Húnavatnsþing I, eftir Björn Bjarnason á Brandsstöðum; útgáfu annaðist Jón Jóhannesson. Reykjavík: Sögufélagið Húnvetningur, Húnvetningafélagið í Reykjavík, 1941, 237 s.
Sjá einnig Veðurfar á Íslandi eftir 1800 og ítarefni með þeirri grein.