Veðurkort með hendi Jóns Eyþórssonar
Um þessar mundir eru 100 ár síðan fyrst var minnst opinberlega á fyrirbrigðin kulda- og hitaskil í veðurfræði og veðurspám. Sagt er að það hafi verið í nóvember 1918, á veðurstofunni í Bergen í Noregi.
Nýlega rákust menn á tvö gömul veðurkort úr fórum Jóns Eyþórssonar veðurfræðings (1895-1968). Gætu hafa verið ætluð til kennslu eða kynningar og hafa ef til vill birst einhvers staðar þó ekki sé um það kunnugt sem stendur. Jón var fyrstur íslendinga sérmenntaður í veðurfræði. Nam fyrst náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla, en frá 1919 veðurfræði við Oslóarháskóla og lauk prófi þaðan 1923. Á árunum 1921 til 1925 starfaði hann við veðurstofuna í Bergen. Björgvinjarháskóli hafði ekki verið stofnaður formlega en í bænum var öflugt náttúrufræðisafn og jarðeðlisfræðistofnun. Öflug rannsóknastarfsemi fór fram á þessum stofnunum og á veðurstofunni.
Jón kom heim frá námi og starfi í Bergen 1926 og hóf störf á Veðurstofu Íslands. Hann starfaði þar til ársins 1965 er hann varð sjötugur.
Jón var fyrstur til að kynna aðferðir Björgvinjarskólans svonefnda hér á landi og nota við veðurspár. Kortin sýna sjávarmálsþrýsting, hita, vind og veður dagana 8. og 9. desember 1926.
Veðráttan segir:
Þ. 1. til 14. ganga loftvægislægðir norðaustur eftir Grænlandshafi (milli Íslands og Grænlands). Aðallega suðvestlæg og vestlæg átt. Þó verður lægð fyrir suðaustan land ráðandi þ.2.—3. og 11.—12., áttin norðlæg. Þ. 1., 4.—11. og 14. er úrkomusamt á Suður- og Suðvesturlandi, skúra og jeljaveður, og flesta sömu dagana einnig á Norðvesturlandi. En á Norðaustur- og Austurlandi er lítil úrkoma þenna tíma. Hitinn er fyrir ofan meðallag nema þ. 3. og 4.
Um skaða í þessum veðrabálki segir Veðráttan:
Miklir sjóskaðar urðu í suðvestan- og vestanveðrinu þ. 5.—10. Þ. 5. slitnaði togarinn Kári upp í Viðey og rak á land, en skemmdist ekki verulega. Sama dag fórst árabátur með tveim mönnum a leið yfir Ísafjörð. Aðfaranótt þ. 6. sleit upp vjelbát í Hrísey, rak austur að Austurlandinu og brotnaði. Þ. 7. strandaði norska skipið Ameta í Hvallátrum á Breiðafirði eftir hrakninga í Grænlandshafi síðan 29. nóv., menn björguðust. Sjógangur var mikill þenna dag og stórflóð á Suðvestur- og Vesturlandi. Sjógarður og árabátur brotnaði á Eyrarbakka. Í Höfnum gekk flóðbylgja á land, braut garða og flæddi í bæinn Garða. Maður sá er þar bjó bjargaðist með naumindum og fje var bjargað á báti. Eitthvað af fje fór í sjóinn í Kalmannstjarnarhverfi. Símaslit urðu víða. Þak fauk af húsi í Eyrarsveit. Í þessu veðri fórst norska gufuskipið Balholm með 23 mönnum úti fyrir Mýrum, fór frá Akureyri þ.2., ætlaði til Hafnarfjarðar. Þ. 9. fjekk togarinn Skallagrímur stór áföll í Faxaflóa og missti báta. Togarinn Arinbjörn Hersir var þá fyrir sunnan Vestmannaeyja að koma úr Englandsferð og missti báða bátana.
Höfundur: Trausti Jónsson, nóvember 2018.