Jöklahópur
Í þeim verkþætti LOKS er varðar jökla er unnið að gagnaúrvinnslu og samræmingu gagnasafna, líkanþróun og líkanreikningum á afkomu og ísflæði. Markmiðið er að leggja mat á breytingar á afkomu jökla og á afrennsli frá þeim, breytingar á stöðu jökulsporða og breytingar á vatnasviðum á jökli. Hopi og þynningu jökla vegna loftslagsbreytinga fylgja ýmis umhverfisáhrif, á sumum stöðum hverfa lón við jökuljaðar og ný myndast annars staðar og veldur þetta síbreytilegri hættu á jökulhlaupum. Vatnsföll skipta um farveg og getur það leitt til skyndilegra breytinga í álagi vatnsfalla á brýr og vegi. Ennfremur geta vatnsföll hætt að renna hjá tilteknum vatnamælingastöðvum. Mikilvægt er að fylgjast náið með breytingum af þessu tagi og grípa til viðeigandi ráðstafana svo ekki tapist upplýsingar um vatnafar og rennslishætti.
Á árinu 2009 var unnið að gerð dreifðs afkomulíkans fyrir jökla landsins, sem m.a. byggir á dreifðu úrkomulíkani (LT-líkaninu) sem gert hefur verið fyrir landið með daglegri greiningu á hita á veðurstöðvum og greiningu niðurstaðna úr afkomumælingum á Langjökli, Hofsjökli og Vatnajökli.
Árið 2010 var haldið áfram að bæta aðferðarfræði LT-líkansins. Bætt eðlisfræðileg meðhöndlun leyfir nú, byggt á ástandi lofthjúpsins hverju sinni, að reikna stika sem áður voru fastar. Umtalsverðar prófanir hafa verið gerðar á þessari aðferðafræði og verður gengið frá lausum endum árið 2011 og hún síðan notuð til að reikna úrkomu yfir tímabilið 1958-2006.
Árið 2009 var þróað einfalt líkan af viðbrögðum jökla við afkomubreytingum sem unnt er að tengja vatnafræðilegu líkani (HBV eða WaSiM) þannig að tekið sé tillit til breytinga á flatarmáli jökla og hæðar jökulyfirborðs í vatnafræðilegum líkanreikningum. Líkan þetta var þróað í samvinnu við norsku vatnafræði-stofnunina NVE.
Niðurstöður nýrra flugmælinga á yfirborði jökla landsins með Lidar-tækni (þ.e. endurkast leysigeisla frá jökulyfirborði) voru bornar saman við eldri kort á nokkrum stöðum og túlkaðar í samhengi við afkomumælingar á jöklum landsins. Niðurstöður þessarar greiningar voru kynntar á nokkrum innlendum og erlendum ráðstefnum og vinnufundum.
Á árinu 2009 var hafist handa við gerð yfirlits um áhrif hörfunar jökuljaðra á jaðarlón og jökulhlaup. Vettvangsferð var farin að Skeiðarárjökli haustið 2009 og kannaðar aðstæður í kjölfar þeirra breytinga, sem urðu er Skeiðará hvarf úr farvegi sínum og tók að renna til vesturs með jökuljaðrinum. Auk þess voru kannaðar aðstæður við vesturjaðar Hofsjökuls vegna vísbendinga um breytta rennslishætti. Þessari vinnu verður fram haldið á árinu 2010 og stefnt að útgáfu skýrslu fyrir árslok.