Laus störf

Sérfræðingur á sviði ofanflóðahættumats

á Úrvinnslu- og rannsóknasviði

Veðurstofa Íslands auglýsir eftir sérfræðingi á sviði ofanflóðahættumats í fullt starf á Úrvinnslu-og rannsóknasviði.

Á sviðinu starfa rúmlega 50 manns við ýmis spennandi þróunar- og rannsóknaverkefni er tengjast veður- og loftslagsrannsóknum, ofanflóðum, jökla-, vatna- og haffræði, jarðskorpuhreyfingum og eldgosum. Veðurstofa Íslands er sömuleiðis leiðandi stofnun í vinnu við áhættumat í tengslum við náttúruvá og er vinna við áhættumat tengdum flóðum, ofanflóðum og eldgosum sífellt stærri hluti af verkefnum sviðsins.

Viðkomandi yrði hluti af öflugu teymi 10 sérfræðinga á fagsviði ofanflóða. Teymið vinnur meðal annars að hættumati, vöktun og rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðum. Veðurstofan annast gerð hættumats vegna ofanflóða fyrir þéttbýli og skíðasvæði. Sömuleiðis vinnur stofnunin að úttekt á ofanflóðahættu í dreifbýli og hættumati í tengslum við framkvæmdir og skipulag. Flestir sérfræðingar á fagsviði ofanflóða eru staðsettir á Snjóflóðasetri Veðurstofunnar á Ísafirði sem er æskileg staðsetning starfsins. Snjóflóðasetrið er miðstöð ofanflóðavöktunar með starfsstöð í Vestrahúsinu á Ísafirði þar sem ýmsar aðrar rannsóknarstofnanir eru til húsa.

Helstu verkefni og ábyrgð

Sérfræðivinna við gerð ofanflóðahættumats. Miðlun upplýsinga til sveitarfélaga, skipulagsyfirvalda og annarra hagsmunaaðila. Mótun og þátttaka í rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum ofanflóðahættu. Verkefnisstjórn tilgreindra verkefna eftir atvikum.

Hæfnikröfur

  • Háskólapróf og framhaldsmenntun á sviði raunvísinda, verkfræði eða sambærileg menntun sem nýtist í starfi
  • Góð kunnátta í landupplýsingakerfum (LUK) er nauðsynleg 
  • Þekking á hættumati tengdu náttúruvá er kostur
  • Þekking og reynsla á notkun líkinda- og tölfræði í starfi er kostur
  • Þekking á íslenskri náttúru og áhugi á viðfangsefninu 
  • Góð tölvukunnátta nauðsynleg
  • Hæfni í mannlegum samskiptum 
  • Færni og geta til að miðla niðurstöðum innan teymis og út á við bæði í ræðu og í riti 
  • Góð færni í íslensku nauðsynleg 
  • Farsæl reynsla í verkefnastjórnun er kostur

Frekari upplýsingar um starfið

Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.

Gildi Veðurstofunnar eru þekking, áreiðanleiki, framsækni og samvinna. Ráðningar hjá stofnuninni munu taka mið af þessum gildum

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 02.06.2020

Umsækjendur eru vinsamlega beðnir um að sækja um starfið á www.starfatorg.is

Nánari upplýsingar veitir

Magni Hreinn Jónsson - 522-6000
Jórunn Harðardóttir - 522-6000

Um Veðurstofu Íslands

Hjá Veðurstofu Íslands starfar öflugur hópur fólks sem hefur það hlutverk að stuðla að bættu öryggi almennings, eigna og innviða gagnvart öflum náttúrunnar. Því hlutverki sinnir starfsfólk Veðurstofunnar með vöktun lofts, láðs og lagar, byggðri á öflun og greiningu gagna, rannsóknum, þróun og miðlun upplýsinga. Jafnframt er það hlutverk Veðurstofunnar að styðja sjálfbæra nýtingu náttúrunnar og samfélagslega hagkvæmni.

Veðurstofa Íslands er opinber stofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Á Veðurstofunni starfa um 140 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræðasvið. Auk þess starfa um 70 manns við athugana-og eftirlitsstörf víðsvegar um landið.Nýjar fréttir

Tíðarfar í maí 2020

Maí var óvenju þurr og sólríkur norðaustanlands. Hiti var alls staðar yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en um og yfir meðalltali síðustu tíu ára. Að tiltölu var hlýjast við strendur en kaldara inn til landsins. Þó nokkur snjór var á hálendinu.

Lesa meira

Metfjöldi sumarstarfa í boði á Veðurstofunni

Veðurstofa Íslands tekur þátt í átaki félagsmálaráðuneytisins og Vinnumálastofnunar um að bjóða sumarstörf fyrir námsmenn. Alls er 31 starf í boði á Veðurstofunni í sumar fyrir námsmenn sem eru á milli anna í háskólanámi sínu og eru 18 ára á árinu eða eldri. Störfin eru fjölbreytt og tilheyra öllum sviðum Veðurstofunnar.

Lesa meira

Vísindamenn þróa nýja aðferð við mat aðdraganda og þróun eldsumbrota

Alþjóðlegur hópur vísindamanna undir forystu Freysteins Sigmundssonar, vísindamanns við Jarðvísindastofnun Háskólans, með þátttöku vísindamanna á Veðurstofu Íslands, hefur sett fram nýja aðferð til þess að meta hvenær bergkvika í jarðskorpunni verður óstöðug og brýst upp á yfirborðið. Í grein sem birtist í dag í hinu virta og víðlesna vísindatímariti Nature Communications er aðferðinni beitt til að varpa skýrara ljósi á aðdraganda og upphaf umbrotanna í eldstöðvakerfi Bárðarbungu og eldgossins í Holuhrauni 2014-2015.

Lesa meira

Tíðarfar í apríl 2020

Apríl var mjög kaldur framan af en síðustu tíu dagarnir voru fremur hlýir og sólríkir. Sólskinsstundirnar voru óvenju margar á Akureyri. Mikið norðaustan illviðri gekk yfir landið dagana 4. til 5. apríl og er það í flokki hinna verstu í apríl.

Lesa meira

Verulega dregið úr skjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur

Í byrjun apríl dró úr landrisi við Þorbjörn og um miðjan mánuðinn lauk þessari seinni landrishrinu. Þetta var meðal þess sem kom frá á fundi Vísindaráðs almannavarna sem hittist á fjarfundi fimmtudaginn 30. apríl vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Í kjölfar landrissins mældist sig sem má útskýra með því að jarðskorpan jafnar sig þar sem kvikan í innskotunum kólnar og dregst saman.  Á sama tíma hefur dregið verulega úr skjálftavirkni.  Þetta bendir til þess að kvikuinnflæði undir Þorbjörn sé lokið í bili.  Þrátt fyrir að ekki mælist lengur landris við Þorbjörn, gætir enn dálítilla landbreytinga á stærra svæði.  Eins og þróun atburða hefur verið síðustu mánuði verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að kvikuinnskot við vestanverðan Reykjanesskaga haldi áfram á næstu misserum.

Lesa meira


Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica