Fréttir
aurskriða
Gleiðarhjalli 3. júlí 2014. Ljósmynd: Jón Kristinn Helgason.

Vatnavextir og skriðuhætta á Vestfjörðum

3.7.2014

Mikil úrkoma hefur verið á norðanverðum Vestfjörðum undanfarna sólarhringa og var úrkoman mest aðfaranótt og fyrrihluta fimmtudags. Í þessu mikla vatnsveðri hafa nokkrar skriður fallið á Vestfjörðum og töluverðir vatnavextir orðið í ám.

Í Eyrarfjalli, skammt utan við Ísafjörð, féllu fjórar skriður fyrr í dag. Allar féllu þær úr sama farvegi á frekar skömmum tíma en við það lokaðist Hnífsdalsvegur í nokkrar klukkustundir meðan á hreinsun stóð.

Einnig féll skriða úr Gleiðarhjalla ofan við Hjallaveg á Ísafirði en stöðvaðist ofan við byggðina í skurði sem er til þess gerður að taka við skriðum af þessum toga. Víða má sjá hreyfingar í hjallanum þar sem aurtaumar hafa náð niður fyrir miðjar hlíðar. Grjóthruns úr hjallanum hefur einnig orðið vart. Í Súgandafirði féll lítil skriða sem nam staðar í vegrásinni ofan við veginn. Einnig féllu tvær litlar skriður utarlega í Eyrarfjalli, skammt innan við Hnífsdal.

Spáð er mikilli úrkomu næsta sólarhringinn á norðanverðum Vestfjörðum og verður úrkoman mest í nótt. Búast má við því að fleiri skriður geti fallið. Aurskriðuvakt Veðurstofunnar fylgist grannt með þróun mála. 

Vinsamlegast látið vita

Veðurstofan heldur utan um skráningar á skriðuföllum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Þeir sem verða varir við skriður eða grjóthrun eru beðnir um að koma þeim upplýsingum til Veðurstofunnar með því að hringja í síma 522 6000 eða nota skráningarform á vef Veðurstofunnar sem finna má undir „Tilkynna snjóflóð“ bæði á snjóflóðaforsíðu og eins undir Ofanflóð (listi t.v.) en þetta vefform dugir jafnt til skráninga á skriðuföllum og snjóflóðum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica