Hæðarbreytingar í öskjunni

Hæðarbreyting í Bárðarbunguöskjunni

Jarðhræringar 2014 og 2015

Hér má skoða dæmi um hæðarbreytingu í Bárðarbunguöskjunni. Áður uppfærðist línuritið jafnóðum. Mælingarnar voru samvinnuverkefni Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar, sjá fyrirvara (neðst á síðu).

Lóðrétt færsla er (m) fengin með rauntímaúrvinnslu úr GPS tæki staðsettu í miðri öskjunni. Hæðargildið efst til vinstri, ofan við línuritið, er hæð yfir sjávarmáli. Núllgildið á línuritinu vísar til þessarar hæðar. Hæðargildið efst til hægri lýsir núverandi stöðu tækisins (m y.s.).

Efra línuritið sýndi þrjá síðustu sólarhringa og uppfærðist á tíu mínútna fresti en sýnir nú fyrstu tvær vikurnar sem dæmi. Grá lína sýndi mismunagildi, rauð lína sýndi 30 mínútna miðgildi en bláa línan sýnir 180 mínútna miðgildi.

Að auki eru jarðskjálftar á svæðinu sýndir á punktariti undir línuritinu. Dagsetningar og tímasetningar fyrir hvorttveggja er að finna á láréttum ás undir punktaritinu. Stækkanlegt.

Fyrstu tvær vikurnar sem dæmi


Hæðarbreyting frá 12. sept. 2014 til 1. mars 2015

Skoða má heildarhæðarbreytingu í Bárðarbunguöskjunni. Þetta línurit sýnir sig öskjunnar frá því tækið var sett upp 12. sept. 2014 og fram yfir endalok viðburðanna á stækkanlegu línuriti:


Hlé varð á mælingum 12.-14. okt. 2014 vegna bilunar. Einnig stutt hlé 8. nóvember, ólag á tengingu. Leiðrétt hefur verið fyrir sýndarhækkun 11. nóv. en þá var loftnetið hækkað svo það fennti ekki í kaf. Engin merki bárust 23. nóv. - 30. des. því stöðin var í hvarfi frá endurvarpsstöðinni í Kverkfjöllum. Endurvarpsstöðin var flutt á Vaðöldu til reynslu, svo aftur í Kverkfjöll og samband komst á. Eftir tæpar tvær vikur í lagi datt sambandið aftur út 11. jan. Enn var farið á staðinn og samband komst á 6. feb. Tímabundin hlé í febrúar urðu v/ rafmagnsleysis í Kverkfjöllum þar sem endurvarpinn er staðsettur.

Mælistöðvar við erfiðar aðstæður

Á ársfundi Veðurstofu Íslands 19. mars 2015 var þemað náttúruatburðir síðasta árs, vöktun og eftirlit, og meðal annars fjallað um uppsetningu tækja við erfiðar aðstæður. Njóta má upptöku af fundinum (fyrirlestrar, myndir, glærur) og er umrætt erindi á 01:35:05 en í blálokin er einstakt myndskeið úr vinnuferðum (01:46:21), t.d. út af tækinu sem gefur ofangreind gögn.


Fyrirvari:
Öll gögnin eru sýnd hér í almannavarnaskyni og til upplýsingar fyrir almenning og vísindamenn. Ekki er heimilt að nota gögnin til vísindalegrar útgáfu án leyfis.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica