Afleiðingar loftslagsbreytinga

Kátur lækur, ryðrautt lyng á bakkanum
Lækur í haustrigningum.

Halldór Björnsson 11.8.2006

Hnattrænar breytingar

Engum vafa virðist undirorpið að það er að hlýna á jörðinni. Á 100 ára tímabilinu frá 1906 til 2005 hækkað meðalhiti jarðar um rúmlega 0.7°C.

Líklegast er orsakanna að leita í aukningu gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðar. Styrkur koltvíoxíðs (CO2) hefur aukist um þriðjung frá því við upphaf iðnbyltingar, en koltvíoxíð er sú gróðurhúsalofttegund sem mest er af. Aukning koltvíoxíðs stafar af bruna jarðefnaeldsneytis (þ.m.t. kola, jarðgass og olíu) sem er mest notaði orkugjafi mannkyns. Meðan losun gróðurhúsalofttegunda er ekki takmörkuð með einhverjum hætti mun magn þeirra í lofthjúpnum halda áfram að aukast.

Vegna þessa er líklegt að hlýnun jarðar haldi áfram næstu áratugi. Helstu heimildir um stig vísindalegrar þekkingar hverju sinni á þessum málum eru skýrslur alþjóðlegrar vísindanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC, sjá heimild [9]). Þessar yfirlitsskýrslur eru gefnar út á 5-6 ára fresti. Þær fjalla um þær loftslagsbreytingar sem hafa þegar orðið á Jörðinni og líklegar breytingar á næstu öld. Hver yfirlitsskýrsla er í raun ritröð af nokkrum tengdum skýrslum. Hér á eftir fer endursögn hluta ágrips þeirrar skýrslu þar sem fjallað eru um afleiðingar loftslagsbreytinga og tjónnæmi samfélags- og náttúrulegra kerfa (þ.e. hversu viðkvæm þessi kerfi eru fyrir loftslagsbreytingum). Áhrif sem þegar eru komin fram Í ágripinu kemur fram að áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum á ýmis náttúruleg og samfélagsleg kerfi eru þegar komin fram. Dæmi um slík áhrif eru:

  • Stækkun og fjölgun lóna við jökuljaðra. Aukinn óstöðugleiki yfirborðsjarðlaga á svæðum þar sem sífreri ríkir og aukin tíðni grjóthruns í fjalllendi.
  • Breytingar í vistkerfum á heimskautasvæðum, þ.m.t. lífríki á hafíssvæðum og dýr ofarlega í fæðukeðjunni.
  • Aukið afrennsli í jökulám og dragám þar sem snjóbráðar gætir. Vorflóð eru fyrr á ferðinni.
  • Það vorar fyrr. Það hefur m.a. áhrif á laufgun trjáa, ferðir farfugla og varptíma.
  • Gervihnattagögn sýna að víða hefur hlýnun síðustu áratuga valdið því að nú grænkar fyrr á vorin og gróðurtími hefur lengst.
  • Breytingar hafa orðið á útbreiðslu ýmissa dýra og plöntutegunda, þannig að þær má nú finna nær heimskautasvæðum eða hærra í fjalllendi.
  • Víða hafa stöðu- og straumvötn hitnað, sem hefur áhrif á vatnsgæði. Sterkar vísbendingar eru um breytingar á vistkerfum í hafi og ferskvatni vegna hækkandi hita, en þar koma einnig við sögu breytingar á ísþekju, seltu, súrefnismagni og straumhringrás. Meðal annars hafa orðið breytingar á útbreiðslu þörunga, svifs og fisktegunda, bæði í ferskvatni og í sjó, nærri heimskautasvæðum. Einnig má sjá sambærilegar breytingar í fjallavötnum, auk breytinga á fiskgengd í ám.
  • Upptaka sjávar á koltvísýringi eykst með styrk hans í lofti. Síðan 1750 hafa heimshöfin því súrnað um 0,1 sýrustig. Áhrif þessa á lífríki hafsins eru enn ókunn.


Ofangreindar breytingar eru ýmist taldar mjög eða ákaflega líklegar (high or very high confidence) sem samkvæmt aðferðafræði IPCC þýðir að líkurnar á að matið sé rétt séu 80% (mjög líklegt) eða 90% (ákaflega líklegt). Aðferðafræði við mat á trúverðugleika er útskýrð í fyrsta kafla skýrslu vinnuhóps tvö, en hún byggist á hefðbundinni tölfræði (s.s. aðhvarfsgreiningu, fylgnireikningi, tímaraðagreiningu o.fl.).

Þegar jörðin er skoðuð í heild sinni er líklegt að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafi þegar haft merkjanleg áhrif á mörg náttúruleg kerfi. Gögn sem styðja þessa tengingu hafa styrkst á undanförnum fimm árum. Nefna má fjóra þætti þessu til stuðnings.

  • Mjög líklegt er að hlýnun jarðar á síðari helmingi 20. aldar megi rekja til aukningar gróðurhúsalofttegunda.
  • Fjölmargar mæliraðir, sem birtar hafa verið í mörgum mismunandi rannsóknum, sýna breytingar á náttúrulegum kerfum eins og við má búast vegna hlýnandi loftslags.
  • Landfræðileg dreifing breytinga sem rekja má til hlýnunar er með þeim hætti að afar ólíklegt er að hún stafi eingöngu af náttúrulegum breytileika.
  • Í síðasta lagi hafa líkanreikningar tengt breytingar í náttúrulegum kerfum við þær breytingar sem búast má við vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Í slíkum líkönum er hægt að skilja að náttúruleg áhrif (eldgos og breytileika sólar) og áhrif af mannavöldum (gróðurhúsalofttegundir og ryk og aðrar agnir af völdum mengunar). Mun betra samræmi milli reiknaðra og raunverulegra breytinga fæst ef áhrif af mannavöldum eru tekin með í reikninginn.


Samfélagsleg áhrif loftslagsbreytinga eru ekki jafn greinileg. Fleiri þættir en loftslagsbreytingar hafa áhrif á samfélagsbreytingar, auk þess sem aðlögunarhæfni samfélagslegra kerfa er meiri en náttúrulegra kerfa. Eftir sem áður er talið að rekja megi ýmsar breytingar innan skógariðnaðar og landbúnaðar til loftslagsbreytinga. Í þessu tilviki eru það breytingar á ræktunartíma (sáð er fyrr á vorin), á tíðni skógarelda og á útbreiðslu ýmissa skaðvalda sem tengja má loftslagsbreytingum. Einnig má merkja áhrif loftslagsbreytinga á þætti tengda heilsufari, svo sem á dauðsföll vegna sumarhita í Evrópu, frjókornaofnæmi utan hitabeltisins á norðurhveli jarðar og smitleiðir farsótta á sumum svæðum. Loks má merkja áhrif loftslagsbreytinga á ýmsa félagslega þætti á heimskautasvæðum (veiðar og ferðalög yfir snjó eða ís), sem og á iðkun vetraríþrótta víða annars staðar.

Eins og áður sagði eru þessar breytingar ekki jafn greinilegar og í náttúrulegum kerfum, og erfiðara er að tengja þær loftslagsbreytingum. IPCC telur þær því miðlungs líklegar, sem þýðir að einungis eru um helmingslíkur á að breytingarnar stafi af hlýnun loftslags. Að lokum má nefna breytingar sem nýlega hefur orðið vart, en ekki er hægt að leggja tölulegt mat á áreiðanleika þeirra, þó lögun að þessum breytingum eigi sér stað. Dæmi um þetta eru aukin hætta á tjóni vegna flóða í fjalllendi þar sem jökulhlaup geta átt sér stað. Einnig hefur hlýnun og auknir þurrkar á Sahel-svæðinu í Afríku stytt ræktunartíma og dregið úr uppskeru. Í suðurhluta Afríku hefur þurrkatími lengst og úrkoma orðið óáreiðanlegri. Hækkun sjávarborðs og breytt landnotkun hafa leitt til þess að votlendi hefur tapast, sem og fenjasvæði þar sem saltvatn leikur um gróður (mangroves). Þetta hefur leitt til aukins tjóns vegna flóða á mörgum svæðum.

Afleiðingar loftslagsbreytinga á komandi öld

Hér á eftir fylgir lýsing á helstu áhrifum loftslagsbreytinga sem talið er að geti orðið á komandi öld. Eins og fyrr er lagt mat á áreiðanleika og spár sagðar miðlungs líklegar (líkur yfir 50%, merkt með "*"), mjög líklegar (líkur yfir 80%, merkt með "**") eða ákaflega líklegar (líkur yfir 90%, merkt með "***").  Aðferðafræðinni við mat á áreiðanleika er lýst nánar í öðrum kafla skýrslu vinnuhóps 2. Mikilvægt er að hafa í huga að þetta er mat á áreiðanleika spánna, og áreiðanleikamatið kann að breytast í framtíðinni, t.d. ef betri skilningur fæst á þáttum sem valda óvissu. Þetta er ekki mat á alvarleika áhrifanna. Þannig eru áhrif súrnunar sjávar hugsanlega mjög alvarleg, en ekki vel skilin og því merkt með einni stjörnu.



Búast má við að um miðja öldina hafi úrkoma aukist um 10 - 40% í kaldtempruðu beltunum og á heimskautasvæðunum á jörðinni og á vissum stöðum í hitabeltinu. Úrkoma mun minnka um 10 - 30% á þurrum svæðum í hita- og heittempruðu beltunum, en á þessum svæðum er sums staðar nú þegar vatnsskortur. Þótt þurrkasvæði muni líklega stækka mun tíðni aftakaúrkomu líklega aukast sem eykur flóðahættu. Aukin tíðni þurrka og flóða mun sums staðar hafa neikvæð áhrif á ræktun og fæðuframleiðslu. Vatnsbirgðir í jöklum og snjóalögum munu minnka á öldinni, sem mun hafa áhrif á vatnsframboð hjá um sjötta hluta mannkyns. (**)

Líklegt er að á öldinni verði álag á mörg vistkerfi meira en þau ráða við. Þetta stafar bæði af afleiðingum loftslagsbreytinga og breytingum í landnotkun, mengun og ofnýtingu umfram það sem dæmi eru um að áður hafi orðið. (**)

Um 20 - 30% af þeim plöntu- og dýrategundum sem hafa verið rannsakaðar verða  í aukinni útrýmingarhættu ef hlýnun fer yfir 1,5 - 2,5 gráður. (*)

Ef hlýnun fer yfir þessi mörk samfara aukningu koltvíoxíðs í andrúmslofti má ætla að miklar breytingar verði á vistkerfum, að mestu leyti með neikvæðum afleiðingum fyrir tegundafjölda, fæðuframboð, vatnsgæði o.þ.h. (**)

Aukið magn koltvísýrings í andrúmslofti veldur því að sjórinn verður súrari sem hefur væntanlega neikvæð áhrif á skeldýr (þ.m.t. kóralrif) og tegundir sem eru háðar þeim. (*)

Náttúruleg upptaka kolefnis í vistkerfum mun líklega ná hámarki um miðja öldina en dragast saman eftir það. Þetta magnar loftslagsbreytingar. (**)

Svæðisbundnar breytingar verða væntanlega á dreifingu og viðkomu eða ræktun sumra fiskistofna vegna hlýnunar loftslags, og gert er ráð fyrir neikvæðum áhrifum á veiðar og fiskeldi. (**)

Afrakstur ræktarlands utan hitabeltissvæða kann að aukast lítillega ef hlýnun verður á bilinu 1- 3°C, en frekari hlýnun getur sums staðar haft neikvæð áhrif. Í heildina er því spáð að möguleikar til fæðuframleiðslu muni aukast ef hlýnun verður á bilinu 1 - 3°C, en minnki ef meira hlýnar. Utan hitabeltis geta breyttir ræktunarhættir viðhaldið afrakstri kornræktar ef hlýnun verður hófleg. Á þeim svæðum í hitabeltinu þar sem árstíðabundnir þurrkar verða algengari mun draga úr afrakstri ræktarlands, jafnvel þó hlýnun verði einungis 1 - 2°C. Þetta getur leitt til aukinnar hættu á hungursneyðum. (*)

Talið að ýmis áhætta á strandsvæðum muni aukast, m.a. vegna aukins rofs sem stafar af loftslagsbreytingum og hækkun sjávarborðs. Aukið álag af mannavöldum mun bætast þar á ofan. Spáð er að um 2080 muni svæði þar sem milljónir manna búa verða fyrir flóðum árlega vegna hækkunar sjávarborðs. Áhættan er sérstaklega mikil á þéttbýlum svæðum og á láglendi þar sem möguleikar til aðlögunar eru tiltölulega takmarkaðir. Sum þessara svæða eiga nú þegar í erfiðleikum vegna hitabeltisstorma eða staðbundins landsigs við ströndina. Flestir sem lenda í erfiðleikum af þessum sökum búa á stórum árósasvæðum í Afríku og Asíu, en einnig eru smáeyjar í sérstakri hættu. Aðlögun að loftslagsbreytingum verður erfiðari á strandsvæðum í þróunarlöndum en í þróuðum löndum. (***)

Kostnaður og ábati loftslagsbreytinga fyrir iðnað, byggð og þjóðfélög verður mjög breytilegur og mun fara eftir staðsetningu og umfangi breytinganna. Samanlagt verða áhrifin samt óhagstæðari eftir því sem loftslagsbreytingar verða meiri. Almennt gildir að viðkvæmust fyrir eru iðnaður, byggð og þjóðfélög á standsvæðum, áreyrum, flæðilöndum, á svæðum þar sem efnahagslífið er nátengt loftslagi og á svæðum þar sem aftakaveður eru tíð, sérstaklega ef byggð hefur þanist út á liðnum árum. Á svæðum þar sem aftakaveður versna og verða algengari mun félags- og efnahagslegur kostnaður vegna þeirra aukast. Gert er ráð fyrir að kostnaðaraukningin verði veruleg á þeim svæðum sem verst verða úti. Þessi áhrif geta svo dreifst til efnahagsgeira og svæða sem ekki verða fyrir beinu veðurtengdu tjóni. (**)

Fátæk samfélög eru sérstaklega viðkvæm gagnvart loftslagsbreytingum. Möguleikar þeirra til aðlögunar eru gjarnan takmarkaðari, og þau eru oft háð loftslagstengdum auðlindum, svo sem staðbundum vatns- og matarforða. (**)

Telja verður líklegt að loftlagsbreytingar hafi áhrif á heilsu milljóna manna (**), einkum hópa sem hafa litla möguleika á því að aðlagast breytingunum, þar eð:

  • Vannæring mun vaxa og henni fylgja sjúkdómar.  Vannæring hefur slæm áhrif á vöxt og þroska barna.
  • Hitabylgjur, fárviðri, flóð, þurrkar og eldar munu fjölga slysum og dauðsföllum og auka á sjúkdóma.
  • Niðurgangssóttir munu taka aukinn toll. Einnig: Öndunarfærasjúkdómar, er tengjast vaxandi ósonmagni við yfirborð jarðar.
  • Smitberar kunna að nema ný lönd.


Reiknað er með að loftslagsbreytingar hafi margvísleg áhrif á heilsu. Til að mynda minnki smithæfni mýraköldusýkils sums staðar og aukist annars staðar í Afríku. Rannsóknir á tempruðum svæðum benda til að loftlagsbreytingar verði til einhverra bóta. Má þar nefna færri dauðsföll vegna kulda. Í heild er þó líklegt að neikvæð áhrif hlýnunar yfirgnæfi þau jákvæðu, einkum í þróunarlöndum. (**)

Jafnvægið milli góðra og slæmra áhrifa á heilsufar verður mismunandi eftir stöðum og breytist þegar hiti hækkar. Afgerandi verða þeir þættir sem hafa áhrif á heilsufar heilla þjóða, svo sem menntun, heilsugæsla, forvarnir, innviðir samfélags og efnahagsþróun. (***)

Breytingar á mismunandi svæðum

Áhrif loftslagsbreytinga munu koma fram með mismunandi hætti í hverri heimsálfu, á heimskautasvæðum og á smáum eyjum, og hafa helstu áhrifaþættirnir verið ræddir hér að ofan.

Í stuttu máli þá er verstra áhrifa að vænta í Afríku og hlutum Asíu. Áhrif hlýnunar og úrkomubreytinga ráða þar mestu. Aðlögunargeta þjóðfélaga í Afríku er takmörkuð en í Asíu er útlitið mismunandi eftir svæðum. Í hluta Asíu mun vaxandi hagsæld ásamt loftlagsbreytingum auka álag á vatnsforðabúr um sjötta hluta mannkyns.

  • Í Eyjaálfu munu tíðari þurrkar hafa neikvæð áhrif á vatnsbúskap og hætta er á fækkun tegunda í sumum vistkerfum, s.s. kóralrifum. Aðlögunarhæfni þjóðfélaga er þó góð, en náttúruleg kerfi á svæðinu hafa takmarkaða getu til aðlögunar. Í Suður-Ameríku er hætta á verulegri tegundafækkun, m.a. á frumskógasvæðum.
  • Breytingar á úrkomu og sjávarborðshækkun munu auka álag á þjóðfélög en aðlögunargeta þeirra er mismunandi.
  • Í Norður-Ameríku er aðlögunargeta meiri en tjónnæmi strandbyggðar mun aukast vegna vaxandi verðmæta þar. Einnig stafar hætta af aukinni tíðni á hitabylgjum og breytingum í úrkomu, uppgufun og leysingu. Aðlögun er mislangt komin og lítill viðbúnaður er gagnvart aukinni hættu.
  • Í Evrópu eru ýmsar afleiðingar hlýnunar nú vel þekktar og falla þær að framtíðarspám. Víðast í Evrópu verða heildarárhrif neikvæð, bæði fyrir náttúruleg kerfi og samfélög. Neikvæðar afleiðingarnar verða þó minni norðar í álfunni.
  • Á heimskautasvæðum mun hörfun jökla og hafíss hafa umtalsverðar neikvæðar afleiðingar á ýmis vistkerfi.
  • Aðlögun að þeim breytingum sem þegar hafa átt sér stað hefur reynt á þjóðfélög frumbyggja á heimskautasvæðum norðursins, og verulegra fjármuna er þörf til að bregðast við frekari breytingum.
  • Á smáum eyjum er tjónnæmi vegna aftakaveðra og sjávarborðshækkunar sérstaklega mikið.

Viðbrögð við loftlagsbreytingum

Í lok ágripsins er yfirlit um þekkingu á viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Nokkur aðlögun hefur þegar átt sér stað en þó einungis í takmörkuðum mæli. Ljóst er að frekari aðlögunar er þörf til að draga úr áhrifum hlýnunar sem er óumflýjanleg vegna þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem þegar hefur átt sér stað. Ýmsir aðlögunarmöguleikar koma til greina, en víðtækrar aðlögunar er þörf til að draga úr tjónnæmi vegna loftslagsbreytinga sem vænta má í framtíðinni. Ekki er fullur skilningur á hindrunum og kostnaði vegna þessa. Aðlögun ein saman mun þó ekki ráða við öll áhrif loftslagsbreytinga.

Tjónnæmi getur aukist vegna annarra álagsþátta, s.s. mengunar, sjúkdóma, efnahagsörðugleika o.s.frv. Aðlögun er yfirleitt viðbrögð við fleiri þáttum en loftslagsbreytingum einum sér, og getur t.d. tengst bættri stjórnun vatnsforða og bættum almannavörnum. Tjónnæmi í framtíðinni er einnig háð efnahagsþróun. Þetta birtist m.a. í því tjónnæmi sem leiðir af mismunandi sviðsmyndum IPCC. Sjálfbær þróun getur dregið úr tjónnæmi, en einnig geta loftslagsbreytingar dregið úr möguleikum þjóða til sjálfbærrar þróunar.

Koma má í veg fyrir eða draga úr áhrifum loftslagsbreytinga eða seinka þeim með aðlögun og öðrum aðgerðum, einkum með því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þó ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll áhrif, þá er líklegt að án aðgerða muni áhrif loftslagsbreytinga að lokum verða meiri en aðlögunargeta náttúrulegra og samfélagslegra kerfa fær við ráðið. Þetta bendir til þess að besta leiðin sé sambland aðlögunar og annarra aðgerða. Hægt er að auka aðlögunargetu með því að taka í auknum mæli tillit til áhrifa loftslagsbreytinga við hagstjórn og skipulag.

 


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica