Greinar
Viku af sumri. Frá Akureyri 26. apríl 2012.

Af gamla íslenska sumrinu

Sumarið 2012

Trausti Jónsson 29.10.2012

Samkvæmt gamla íslenska misseristímatalinu skiptist árið í tvö tímabil, vetur og sumar, hvort um sig að jafnaði 6 mánuðir að lengd. Í öllum mánuðum eru 30 dagar, samtals 360, jafnað er út í 365 daga ár með „veturnóttum“ fyrir 1. vetrardag og „aukanóttum“ á miðsumri (milli 30. dags sólmánaðar og 1. dags heyanna).

Vikurnar eru samtals 52, sumarvikur byrja á fimmtudegi en vetrarvikur á laugardegi. Síðasta vika vetrar er aðeins 5 dagar (sumarmál) en síðasta sumarvikan hefur veturnæturnar tvær í kaupbæti. Í vikuárinu eru 364 dagar – til að forðast misgengi við sólina er skotið inn aukaviku, „sumarauka“ á u.þ.b. 5 til 7 ára fresti í lok mánaðarins skerplu. Árið 2012 hafði sumarauka.

Í kringum fyrsta vetrardag koma oft fyrirspurnir til Veðurstofunnar um það hvernig sumarið hafi komið út varðandi hita, úrkomu, sólskinsstundafjölda og fleira. Hingað til hefur þetta ekki verið reiknað nema í undantekningartilvikum.

Sumarið 2012 [19. apríl til 26. október]

Í Reykjavík var meðalhiti sumarsins 8,8 stig og er það 0,5 stigum ofan við meðallag áranna 1961 til 1990, en 0,5 stigum undir meðallagi áranna 2002 til 2011. Þrátt fyrir hlýindin er þetta kaldasta sumar síðan 2005. Á Akureyri var meðalhitinn 7,6 stig, um 0,1 stigi neðan við meðallagið 1961 til 1990, en 0,9 stigum undir meðallagi 2002 til 2011. Þetta var líka kaldasta sumar á Akureyri síðan 2005. Sumarið 2005 heldur því sæti sínu sem það kaldasta það sem af er öldinni.

Úrkoma í Reykjavík mældist 313 mm og er það um 12 prósentum minna en að meðallagi 1961 til 1990 og 15 prósent minna en að meðaltali 2002 til 2011. Úrkoman á Akureyri mældist 214 mm og er það nærri nákvæmlega í meðallagi miðað við 1961 til 1990, en 9 prósent undir meðallagi áranna 2002 til 2011.

Sumarið 2012 var sérlega sólríkt. Í Reykjavík hafa sólskinsstundir aldrei mælst fleiri heldur en nú á einu sumri, eða 1319,5. Það er 323 stundum umfram meðallag. Uppgjör fyrir Akureyri liggur ekki fyrir þegar þetta er skrifað, en ljóst er þó að einnig er um met þar að ræða. Hinn 30. september var sólskinsstundafjöldi sumarsins kominn upp í 1107 og er það um 50 stundum fleiri en mest hefur mælst áður á einu sumri (2000) og tæplega 300 stundum fleiri en í meðalári. Höfum í huga sumarauka ársins 2012, meiri möguleikar eru á sólskinsstunda- og úrkomumetum í slíkum árum heldur en annars.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica