Fréttir

Tíðarfar ársins 2017

Yfirlit

19.1.2018

Árið 2017 var hlýtt og tíð hagstæð. Febrúar, maí, september og október voru sérlega hlýir. Úrkoma var þó óvenjumikil um landið austanvert. Tjón hlaust af flóðum og skriðuföllum á Suðaustur- og Austurlandi í lok september sem komu í kjölfar mikillar úrkomu og hlýinda til fjalla á svæðinu. Óvenjumikil snjódýpt mældist í Reykjavík í febrúar og mars eftir að 51 cm jafnfallinn snjór féll aðfaranótt sunnudagsins 26. febrúar. Alhvítir dagar á Akureyri voru óvenjufáir og hafa ekki verið eins fáir síðan mælingar hófust. Árið endaði í svalara lagi, nóvember var kaldur og síðustu dagar desembermánaðar voru þeir köldustu á árinu. Vindar voru með hægara móti um land allt.  

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 5,5 stig og er það 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var ársmeðalhitinn 4,9 stig, 1,4 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn 4,9 stig sem er 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og það 5. hlýjasta frá upphafi mælinga. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhiti ársins 5,7 stig, 0,8 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Á Egilsstöðum var meðalhitinn 4,8 stig og er þetta næsthlýjasta árið þar frá upphafi mælinga, hlýrra var 2014. Á landsvísu var hitinn 1,4 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en 0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalvik og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti og vik ársins 2017 á nokkrum stöðvum

stöð hiti °C vik 1961-1990 röð af vik 2007-2016
Reykjavík 5,5 1,2 16 147 0,0
Hvanneyri 4,6 # 8 20 0,0
Bláfeldur 5,3 # 7 20 0,2
Stykkishólmur 4,9 1,4 11 172 0,1
Bolungarvík 4,4 1,5 10 120 0,3
Litla-Ávík 4,3 # 4 til 5 22 0,3
Bergstaðir 4,2 # 5 39 0,4
Grímsey 4,4 2,0 4 144 0,5
Akureyri 4,9 1,7 5 136 0,6
Grímsstaðir 2,3 2,0 5 111 0,7
Miðfjarðarnes 3,9 # 4 18 0,6
Skjaldþingsstaðir 4,6 # 4 23 0,6
Egilsstaðir 4,8 1,9 2 63 0,8
Dalatangi 5,3 1,8 3 80 0,6
Teigarhorn 5,3 1,6 2 145 0,6
Höfn í Hornaf. 5,8 #

0,4
Fagurhólsmýri 5,7 1,1 10 til 12 105 0,2
Vatnsskarðshólar 6,1 1,1 8 40 0,2
Stórhöfði 5,7 0,8 23 141 -0,1
Árnes 4,6 1,1 21 til 22 138 0,0
Hjarðarland 4,4 # 11 28 0,0
Hveravellir 0,5 1,6 7 53 0,2
Eyrarbakki 5,2 1,2 20 125 0,0
Keflavíkurflugvöllur 5,4 1,1 13 til 14 65 -0,1

Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey, 6,6 stig, en næsthæstur á Garðskagavita, 6,5 stig. Lægsti ársmeðalhitinn var á Brúarjökli -1,5 stig, og lægstur í byggð í Möðrudal, 2,0 stig.

Árið var hlýtt á landinu öllu og á langflestum stöðum var hlýrra en að meðaltali síðustu tíu ár. Að tiltölu var hlýjast á Norðausturlandi. Jákvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár voru mest á Eyjabökkum, +1,0 stig og á Kárahnjúkum, +0,9 stig. Að tiltölu var kaldast á Suður- og Suðvesturlandi. Neikvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár voru mest á Laufbala, -0,3 stig og á Botnsheiði, -0,1 stig.


Í Reykjavík var hiti yfir meðallagi í öllum mánuðum nema þeim tveim síðustu. Á Akureyri var hiti undir meðallagi í júní, ágúst, nóvember og rétt undir meðallagi í desember. Mjög hlýtt var í febrúar, maí, september og október og þá sérstaklega á Akureyri.

Hæsti hiti ársins á landinu mældist 27,7 stig á Végeirsstöðum í Fnjóskadal þann 25. júlí, en mesta frostið mældist -29,0 stig í Svartárkoti þann 29. desember. Hæsti hitinn á mannaðri stöð mældist 24,3 stig á Ásgarði í Dölum þann 26. júlí, en mest frost, -24,3 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 29. desember.

Hæsti hiti í Reykjavík mældist 22,5 stig þann 27. júlí en mest 24,1 stig á Akureyri þann 22. júlí. Lægsti hiti í Reykjavík mældist -8,5 stig þann 11. desember, en á Akureyri mældist lægsti hitinn  -17,9 stig þann 29. desember.

Tvö ný mánaðarhámarksmet voru sett á árinu. Nýtt febrúarmet var sett þann 12. febrúar þegar hitinn mældist 19,1 stig á Eyjabökkum, sem er það hæsta sem mælst hefur í febrúar á landinu til þessa. Og nýtt septembermet var sett þegar hitinn mældist 26,4 stig á Egilsstaðaflugvelli þann 1. september, eldra met var 26,0 stig á Dalatanga þann 12. september 1949.

Úrkoma

Úrkoma var yfir meðaltali áranna 1971 til 2000 á flestum stöðum landsins og í kringum meðallag sé miðað við síðustu tíu ára. Mest var úrkoman á Austurlandi. Óvenjulega mikil úrkoma var á Austur- og Suðausturlandi í lok september sem olli miklum vatnavöxtum í ám, flóðum og skriðuföllum í þeim landshluta. 

stöð ársúr hlut f7100 % Hlutf 0716 % mest d. úrkd Úrkd>=1 alhv alautt
Reykjavík 900,4 109,5 100,3 28,6 241 157 59 285
Stykkishólmur 678,6 95,7 87,5 37,8 209 133 29 306
Brjánslækur 1087,2 92,8 99,0 48,9 171 142 50 250
Lambavatn 997,0 102,6 108,9 24,2 234 152 # #
Hólar í Dýrafirði 943,9 75,8 81,5 37,3 244 140 94 205
Litla-Ávík 959,4
107,5 36,7 262 170 75 223
Bergstaðir 499,4 107,4 110,2 20,9 195 102 86 236
Litla-Hlíð 474,5 124,7 124,4 29,2 179 100 94 223
Sauðanesviti 884,3 102,6 96,3 39,7 232 146 98 196
Akureyri 594,9 114,7 99,9 23,7 207 120 50 278
Lerkihlíð 885,3 113,2 107,2 47,5 223 143 121 178
Mýri 543,6 124,3 106,3 38,2 189 119 110 192
Grímsstaðir 374,4 106,6 89,1 11,2 203 98 118 192
Dalatangi 2169,5 144,7 129,1 92,0 287 172 66 268
Höfn í Hornafirði 1727,5 128,7 117,0 61,2 231 169 # #
Vatnsskarðshólar 1922,8 118,1 111,2 50,3 253 197 33 293
Hjarðarland 1162,0 86,7 87,1 40,2 210 160 45 262
Írafoss 2112,7 116,5 107,6 96,0 178 169 47 236
Keflavíkurflugvöllur 1083,0 97,1 101,9 37,3 250 176 24 295

Ársúrkoma (mm) í fyrsta dálki. (2) Hlutfall miðað við 1971-2000 (samanburður næst við fleiri stöðvar þetta tímabil heldur en 1961-1990). (3) Hlutfall miðað við árin 2007 til 2016 (nýliðinn áratug). (4) Mesta sólarhringsúrkoma (mm). (5) Fjöldi úrkomudaga. (6) Fjöldi daga með úrkomu 1,0 mm eða meira. (7) Fjöldi alhvítra daga. (8) Fjöldi alauðra daga. 

Úrkoma í Reykjavík mældist 900,4 mm, 10 prósent ofan meðallags áranna 1971 til 2000, en í meðallagi þegar miðað er við síðustu tíu ár. Á Akureyri mældist úrkoman 594,9 mm, 15 prósent ofan meðallags 1971 til 2000, og í meðallagi síðustu tíu ára. Á Dalatanga mældist úrkoman 2169,5 mm, 45 prósent umfram meðallag áranna 1971 til 2000 og 29 prósent ofan meðallag síðustu tíu ára. Þetta er næstmesta úrkoma sem mælst hefur á Dalatanga frá upphafi mælinga 1938. Árið 1950 mældist meira.

Úrkoma í Reykjavík var langt umfram meðallag í febrúar, apríl og maí. Úrkoma var undir meðallagi yfir sumarmánuðina jún til ágúst og október var óvenju þurr í Reykjavík. Á Akureyri var úrkoma mikil í febrúar, september og nóvember og sérlega mikil í maí miðað við meðaltal maímánaðar. Úrkomulítið var á Akureyri í mars og í júlí.

Dagar þegar úrkoma mældist 1 mm eða meiri í Reykjavík voru 157, 9 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990. Á Akureyri voru slíkir dagar 120, 17 fleiri en í meðalári. Mest mældist sólarhrings úrkoman í Reykjavík 28,6 mm, 11. júní, en mest 23,7 mm á Akureyri þann 12. október.

Mesta sólarhrings úrkoma ársins á mannaðri stöð mældist á Skjaldþingsstöðum þann 24. júní, 187,9 mm. Aldrei áður hefur mælst eins mikil sólarhringsúrkoma í júní og er þetta því nýtt mánaðarmet. Nýtt mánaðarmet var einnig sett í maí þegar sólarhringsúrkoman mældist 159,6 mm á Neskaupstað þann 13. maí sem er mesta sólarhringsúrkoman sem mælst hefur á landinu í maímánuði til þessa. 

Snjór

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 59, 1 fleiri en meðaltal áranna 1971 til 2000. Alhvítir dagar voru vel yfir meðallagi í nóvember. Þann 26. febrúar féll 51 cm jafnfallinn snjór í Reykjavík og er það mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykavík í febrúar. Og í raun næstmesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík, en mest mældist hún þann 18. janúar 1937, 55 cm. Þann 1. mars voru enn 36 cm af þeim mikla snjó á jörðu og hefur snjódýpt í Reykjavík aldrei mælst meiri í mars.

Veturinn 2016 til 2017 var mjög snjóléttur á Akureyri. Alhvítir dagar ársins 2017 á Akureyri voru óvenjufáir, aðeins 50 og hafa þeir ekki verið eins fáir síðan snjóhulumælingar hófust þar 1924. Meðaltalið 1971 til 2000 er 102 alhvítir dagar og er þetta því tæpur helmingur af því sem vanalegt er.

Mesta snjódýpt á árinu mældist 120 cm á Lambavatni þann 26. febrúar. 

snjór_2017

Myndin sýnir vik fjölda alhvítra daga frá meðallagi í Reykjavík og á Akureyri. Alhvítu dagarnir voru færri en að meðallagi á Akureyri alla vetrarmánuðina og voru þeir sérlega fáir fyrstu fjóra mánuði ársins. Í Reykjavík voru alhvítir dagar vel yfir meðallagi í nóvember en nálægt meðaltali aðra mánuði ársins. 

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1334,5, 66 fleiri en í meðalári 1961 til 1990, en 91 stund færri en að meðallagi síðustu tíu ár. Sólarminna var á Akureyri, þar mældust sólskinsstundirnar 932,8 eða 112 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 137 færri en að meðallagi síðustu tíu ára. 

sól_2017

Í Reykjavík var mjög sólríkt í ágúst, en sólskinsstundafjöldi var nálægt meðallagi aðra mánuði ársins. Mjög sólarlítið var í apríl og júní á Akureyri, sólríkt í ágúst en sólskinsstundafjöldi nálægt meðallagi aðra mánuði ársins. 

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,2 hPa og er það 0,7 hPa undir meðallagi áranna 1961 til 1990.

Þrýstingur vék ekki langt frá meðallagi í einstökum mánuðum ársins 2017. Jákvæð mánaðarvik voru mest í janúar, nóvember og desember. Neikvæð mánaðarvik voru mest í febrúar, júní, júlí og september.

Hæsti þrýstingur ársins mældist 1041,0 hPa á Reykjavíkurflugvelli þann 1. janúar en lægstur á Gufuskálum þann 24. febrúar 951,7 hPa. 

Vindhraði og vindáttir

Vindhraði á landsvísu var undir meðallagi á árinu. 

Árið í heild var hægviðrasamt. Vindhraði á árinu var undir meðallagi áranna 1960 til 1991 fyrstu þrjá mánuði ársins. Vindhraði var yfir meðallagi frá apríl til júlí, mest í maímánuði. Seinni partur ársins var hægviðrasamur, þá sérstaklega október.


Allar vindathuganir á skeytastöðvum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðarmeðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra áranna 1961 til 1990. Austlægar og norðlægar áttir fá jákvæð gildi, vestlægar og suðlægar neikvæð. Sunnanáttir (appelsínugular súlur) voru óvenju tíðar í janúar, febrúar og september, en norðlægar í maí, júní, ágúst og svo aftur í lok árs. Vestanáttir (bláar súlur) voru ríkjandi í janúar og svo síðustu þrjá mánuði ársins, en austlægar áttir voru algengari í febrúar, maí, júní og júlí.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Tíð var lengst af hagstæð og samgöngur greiðar. Fremur hlýtt var í veðri og með snjóléttara móti á láglendi. Úrkoma var ekki fjarri meðallagi. Minna var um illviðri en venjulegt er á þessum tíma árs.

Febrúar

Febrúarmánuður var hlýr og vætusamur. Einkum var hlýtt á norðan- og austanverðu landinu og vætusamt um sunnan- og vestanvert landið. Úrkoma var flesta daga á sunnan- og vestanverðu landinu og snjólétt um allt land þar til kyngdi niður snjó við Faxaflóa aðfaranótt þ. 26. og vöknuðu íbúar höfuðborgarinnar við 51 cm jafnfallinn snjó þann dag. Er það næstmesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík til þessa en mest mældist hún hinn 18. janúar 1937, 55 cm.

Mars

Tíð var lengst af hagstæð og samgöngur greiðar. Hiti var nærri meðallagi, en úrkoma heldur minni en venja er í flestum landshlutum nema sums staðar austanlands. Vindar voru talsvert hægari en oftast er í marsmánuði.

Apríl

Aprílmánuður var úrkomusamur á landinu, sérstaklega þó vestan- og norðvestanlands þar sem úrkoma var meiri en um áratugaskeið. Hiti var aftur á móti nærri meðallagi. Veður var lengst af meinlítið og tíð fremur hagstæð þó gróðri færi lítt fram.

Maí

Maí var óvenju hlýr og hiti vel yfir meðallagi. Sérlega hlýtt var fyrstu vikuna og aftur í kringum þ. 21. Víða var úrkoma í meira lagi. Í Reykjavík mældust 84,4 mm sem er um 92% umfram meðallag 1961-1990. Á Akureyri mældist úrkoman 62,2 mm sem er mesta úrkoma sem mælst hefur í maímánuði frá upphafi mælinga, eldra met var 59,2 mm árið 1929. Gróður tók vel við sér.

Júní

Tíðarfar var nokkuð hagstætt í júní. Hiti var þó í svalara lagi miðað við meðaltal síðustu 10 ára en yfir meðallagi á flestum stöðum sé miðað við tímabilið 1960-1990. Úrkoma var vel yfir meðallagi á Austurlandi. Sólskinsstundir voru mjög fáar norðanlands og hafa sólskinsstundir ekki verið færri í júní á Akureyri síðan 1972, þá voru þær jafnfáar og nú en enn færri 1968.

Júlí

Tíðarfar var almennt hagstætt í júlí. Hlýtt var um meginhluta landsins, helst að svalt þætti suðvestanlands fram eftir mánuði. Úrkoma var víðast hvar minni en í meðalári.

Ágúst

Hiti var í svalara lagi á landinu í ágúst. Veður var þó almennt gott. Hægviðrasamt var um land allt og úrkoma var minni en í meðallagi að Norðurlandi undanskildu. Sólskinsstundir voru vel yfir meðallagi suðvestanlands

September

September var hlýr og úrkomusamur mánuður, óvenju hlýtt og blautt var á austanverðu landinu. Mjög hlýir dagar voru í byrjun mánaðarins og svo aftur um hann miðjan, þá sérstaklega norðaustan- og austanlands þar sem hiti fór víða vel yfir 20 gráður og allmörg hitamet voru slegin. Sunnan- og austanáttir voru ríkjandi. Mikil úrkoma í lok mánaðar og hlýindi til fjalla ollu miklum vatnavöxtum á Suðaustur- og Austurlandi. Mikið tjón hlaust af flóðum og skriðuföllum á þessum svæðum.

Október

Tíðarfar var hagstætt í október. Óvenju hlýtt var og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Fremur þurrt var á vestanverðu landinu en úrkomumeira á Austfjörðum og Suðausturlandi. Vindur var hægur.

Nóvember

Nóvember var kaldur og sker sig nokkuð úr öðrum mánuðum ársins, sem flestir hafa verið hlýir. Norðanhvassviðri gekk yfir landið dagana 21. til 24. nóvember sem olli þó nokkru fannfergi norðan og austanlands. Færð spilltist víða.

Desember

Desember þótti svalur en veður voru hæg. Síðustu dagar ársins voru sérlega kaldir á landinu, þá sérstaklega norðaustanlands. Úrkoma og vindhraði voru undir meðallagi.


Skjöl fyrir árið

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2017 (textaskjal)










Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica