Fréttir
Ský á himni, falleg birta
Ský á himni yfir Kollafirði í febrúar 2007.

Tíðarfar í febrúar 2007

- stutt yfirlit

2.3.2007

Tíðarfar í nýliðnum febrúar var víðast hvar hagstætt. Óvenju sólríkt var um sunnan- og vestanvert landið og úrkoma á landinu var undir meðallagi.

Mjög snjólétt var um mikinn hluta landsins og færð á vegum með besta móti miðað við árstíma.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 0,7 stig og er það 0,3 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn -2,1 stig og er það 0,6 stigum undir meðallagi. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði var 0,9 stig og -6,3 á Hveravöllum. Þetta var kaldasti febrúar á landinu frá 2002, en þá var talsvert kaldara en nú.

Úrkoma í Reykjavík mældist 44 mm og er það um 61% af meðalúrkomu. Um 40% mánaðarúrkomunnar féll á einum degi og úrkomudagar voru aðeins 10, en að jafnaði eru úrkomudagar 18 í febrúar. Úrkomudagar hafa ekki verið jafnfáir í febrúar síðan 1977, en þá voru þeir aðeins 5. Þurrt var einnig á Akureyri og mældist úrkoman þar 24 mm sem er 56% meðalúrkomu, en úrkomudagar voru þar 15. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 81 mm.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 126 og hafa ekki verið jafnmargar í febrúar síðan 1947, en þá voru þær 153. Í febrúar 1936 mældust sólskinsstundirnar 130, þannig að nýliðinn mánuður er í þriðja sæti hvað sólskinsstundafjölda varðar frá því að samfelldar mælingar hófust 1923. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 40 og er það nærri meðallagi.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica