Fréttir

Þjóðin mjög jákvæð í garð Veðurstofunnar

29.6.2006

Dagana 9-17. maí sl. gerði ParX - Viðskiptaráðgjöf IBM könnun meðal landsmanna á notkun þjónustu Veðurstofu Íslands og viðhorfi þjóðarinnar til stofnunarinnar. Úrtakið var 1200 manns af landinu öllu og svarhlutfall var um 65%. Greint var eftir kyni, aldri, búsetu, tekjum, menntun og starfi. Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

  • Um 89% landsmanna eru jákvæðir í garð Veðurstofu Íslands. Meðaltal var 4,37 (á kvarðanum 1-5) en meðaltal allra stofnana í könnunum hjá ParX er 3.82. Liðlega 1% landsmanna eru neikvæðir í garð stofnunarinnar. Minnst er ánægjan meðal þeirra sem eru yngri en 30 ára.
  • Um 83% landsmanna eru ánægðir með þjónustu Veðurstofunnar. Aðeins 0.7% sagðist óánægður með þjónustu stofnunarinnar.
  • Um 86% allra aðspurðra treysta vel veðurspám Veðurstofunnar en 1.6% treysir þeim illa.
  • Um 87% landsmanna fylgist með veðurfréttum eða veðurspám vikulega eða oftar. Um 67% þeirra afla sér daglega upplýsinga um veður. Notendur afla sér veðurupplýsinga að meðaltali 5,45 sinnum í viku.
  • Meginástæðan fyrir öflun á veðurupplýsingum, segja 58% notenda, að sé almennur áhugi á veðri. Um 39% nefna ferðalög sem helstu ástæðuna, 28% atvinnu og 27% tómstundir.
  • Um 51% notenda aflar sér upplýsinga um veður í útvarpi. Af þeim sem það gera, hlusta flestir eða 63% á Rás 1 og um 23% á Rás 2.
  • Næstum allir notendur (98%) afla sér upplýsinga um veður í sjónvarpi. Tæp 68% þeirra horfa að jafnaði á veðurfréttir Ríkissjónvarpsins og um 23% horfa á veðurfréttir NFS/Stöðvar 2. Verulegur munur er á áhorfi eftir aldri. Í hópnum yngri en 30 ára horfa 50% á NFS/Stöð 2 á móti 46% á Ríkissjónvarpið. Hjá hópnum 50 ára og eldri horfir hins vegar um 79% á Ríkissjónvarið en um13% á NFS/Stöð 2.
  • Um 66% landsmanna aflar sér upplýsinga um veður á Netinu. Um 43% þeirra afla sér veðurupplýsinga á mbl.is og 39% á vedur.is. Þessir vefmiðlar hafa algera yfirburði umfram aðra vefmiðla.
  • Tæplega 44% allra telja að Ríkissjónvarpið veiti áreiðanlegustu veðurupplýsing-arnar. Tæp 15% segja að Rás 1 sé áreiðanlegust og þar næst Stöð 2/NFS (13%).
  • Um 95% notenda segjast eiga auðvelt með að skilja veðurupplýsingar í fjölmiðlum. Meðaltal í þeirri spurningu mældist 4,47 og var það hæsta gildi í könnuninni.
  • Um 15% allra aðspurðra hafa leitað eftir upplýsingum um jarðskjálfta eða eldgos á jarðskjálftasíðu Veður-stofunnar síðustu 6 mánuði. Rúm 10% hafa gert það 1-5 sinnum. Þeir sem leituðu að upplýsingum á jarðskjálftasíðunni, gerðu það að meðaltali 11,5 sinnum á síðustu 6 mánuðum.
  • Um helmingur notenda telur að stofnunin þurfi ekki að gera betur en um 1/4 notenda telur Veðurstofuna þufa að bæta þjónustuna við almenning. Helstu atriði sem nefnd voru af notendum eru: - Koma fyrr með upplýsingar um hættuástand - viðvaranir. - Auka nákvæmni og áreiðanleika veðurspáa. - Bæta frammistöðu í fjölmiðlum. - Vera sýnilegri- auglýsa sig og kynna sig betur - einkum vefsíðuna. - Bæta vefsíðuna - gera hana aðgengilegri, nútímalegri, myndrænni.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica