Fréttir
Dreif af ísmolum.

Upptök jökulhlaupsins á og við jaðar Skaftárjökuls

3.10.2015

Í könnunarferð að jaðri Skaftárjökuls fimmtudaginn 1. október mátti úr nokkurra km fjarlægð frá jöklinum sjá að hlaupið hafði í upphafi, snemma aðfaranótt fimmtudagsins, brotist upp úr jöklinum á nokkrum stöðum 1-2 km ofan jaðarsins. Breiðir svartir taumar lágu niður jökulinn þar sem aurblandið hlaupvatnið hafði runnið.

Dreif af ísjökum lá niður jökulinn. Neðst voru litlir ísmolar, nokkrir tugir cm að stærð, en upp í 3-5 m háa og allt að 10 m breiða jaka eftir því sem ofar dró, nær rásum sem hlaupvatnið hafði runnið upp úr, sjá meðfylgjandi myndir og enn fleiri ljósmyndir í annari grein.

Jakar
""
Stærstu jakana var að finna efst nærri staðnum þar sem hlaupvatnið braust upp í gegnum jökulinn. Ljósmynd: Tómas Jóhannesson.

Í upphafi sprengdi hlaupið sér leið og braut upp jöklinn á nokkur hundruð metra löngum sprungum en síðan virðist það hafa runnið nokkra stund upp í gegnum jökulinn og náð að bræða sér hringlaga rás eða rásir sem það rann um þegar frá leið.

Bræðslurásir
""
Opið þar sem hlaupið rann upp úr jöklinum í upphafi. Ljósmynd: Tómas Jóhannesson.

Rennsli upp í gegnum jökulinn stóð þó ekki lengi og þegar að jaðrinum var komið upp úr hádegi á fimmtudag rann hlaupið úr sex/sjö meginrásum út á sandsléttuna austan Langasjávar og einni rás vestan sléttunnar nokkru ofar en sandurinn. Fleiri ljósmyndir eru í annari grein.

Upphafi hlaupsins svipar til upphafs Skeiðarárhlaupsins 1996 nema hvað Skaftárhlaupið var miklu minna og ummerkin á jöklinum einnig.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica