Fréttir

Jarðskjálftahrinan á Reykjaneshrygg

Eldey fær gulan litakóða vegna flugs

1.7.2015

Eins og segir í fyrri frétt frá í dag, þá hófst snörp jarðskjálftahrina þann 30. júní 2015 um kl. 21:00 nærri Geirfuglaskeri, um 30 km suðvestur af Reykjanestá. Stærstu skjálftarnir í hrinunni mældust M5,0 kl. 02:25 og M4,9 kl. 04:59 nú 1. júlí. Nokkrir fleiri skjálftar hafa mælst stærri en M4,0 og í heildina hafa mælst um 400 skjálftar þegar þetta er skrifað (um þrjúleytið).

Hrinur á þessu svæði eru algengar og vara stundum í nokkra daga. Ekki eru nein mælanleg merki um eldsumbrot en nokkur gos hafa orðið á þessum slóðum undanfarinn 200 ár.

Vegna þessarar auknu skjálftavirkni á Reykjaneshrygg hefur Veðurstofa Íslands ákveðið, í samráði við vísindamenn og Almannavarnadeild RLS, að breyta litakóða fyrir flug úr grænum í gulan fyrir eldstöðina Eldey sem er um 15 km norðaustur af Geirfuglaskeri. Sem fyrr segir eru engin mælanleg merki um eldsumbrot; guli liturinn þýðir einungis að virknin sé vel yfir venjulegum bakgrunnsgildum svæðisins (mánaðarmeðaltali).

Veðurstofan vaktar atburðarásina náið og mun senda út tilkynningar ef þörf krefur. Sjófarendur og fólk við strönd er beðið að gera Veðurstofu viðvart ef breytingar sjást í hafi, svo sem á hitastigi sjávar eða litbrigðum, eða ef vart verður við fiskidauða. Allar upplýsingar geta reynst gagnlegar.


Fjöldi og styrkur jarðskjálfta á Reykjaneshrygg 29. júní - 1. júlí 2015 (sjá vef). Óyfirfarnar frumniðurstöður.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica