Fréttir

Grein í Nature um kvikuganginn

Samstarf íslenskra og erlendra vísindamanna

15.12.2014

Jarðhræringarnar, sem hafa staðið yfir við norðvestanverðan Vatnajökul frá því um miðjan ágúst síðastliðinn, eru afar vel vaktaðar og á marga vegu. Mun þetta jafnvel einstakt á heimsvísu, því tækninni fleygir fram milli stórra viðburða.

Í dag birtist grein í tímaritinu Nature eftir hóp íslenskra og erlendra vísindamanna sem útskýrir myndun kvikugangsins (innskotsins).

Samtúlkun mælinga og líkanreikningar hafa gert það kleift að kortleggja feril innskotsgangsins í smáatriðum þar sem hann braut sér leið til norðausturs frá Bárðarbungu, yfir 45 km leið til eldstöðvanna í Holuhrauni. Þessar niðurstöður eru meðal annars forsenda þess að hægt var að leggja mat á magn kvikunnar í ganginum. Útskýrt er hvers vegna framrás gangsins var í þrepum og hvernig landslag og spenna í jarðskorpunni höfðu áhrif á stefnuna.

Notast var við háupplausnarstaðsetningu á jarðskjálftum¹, mælingar á aflögun jarðskorpunnar² og úrvinnslu bylgjuvíxlmælinga (InSAR)³ ásamt líkanreikningum. Rannsóknin er hluti af FutureVolc verkefninu sem stutt er af Evrópusambandinu. Alls koma 37 vísindamenn Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og átta erlendra háskóla og vísindastofnana víðs vegar í heiminum að rannsókninni en það er einn stærsti hópur sem tengst hefur vísindagrein um íslensk jarðvísindi í alþjóðlegu tímariti. Freysteinn Sigmundsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands leiddi samstarfið.

Jarðskjálftar á fyrstu 30 dögum hrinunnar
""
Þetta kort af vestanverðum Vatnajökli sýnir jarðskjálfta sem mældir voru á fyrstu 30 dögum Bárðarbunguhrinunnar, sem hófst 16. ágúst síðastliðinn. Skjálftarnir eru litaðir eftir því hvenær þeir urðu og er litakvarði daganna sýndur efst á kortinu. Staðsetning skjálftanna markar feril kvikugangsins frá Bárðarbungu og til gossgöðvanna í Holuhrauni. Lóðrétt þversnið í gegnum skorpuna frá suðri (fyrir neðan) og austri (til hægri) eru einnig sýnd. Þríhryningarnir marka staðsetningu jarðskjálftasöðva í og við jökulinn. Þessar stöðvar senda gögn með þráðlausum samskiptum í rauntíma til Veðurstofunnar og er haldið gangandi við erfiðar aðstæður af ötulu liði tæknimanna Veðurstofunnar.

Jarðskjálftahrinan hófst með virkni í norðausturjaðri Bárðarbunguöskjunnar en hljóp síðan nokkra kílómetra til suðausturs fyrsta daginn, tók þaðan snögga beygju til norðausturs þaðan sem vegferðin eftir kvikuganginum til gosstöðvanna í Holuhrauni hófst. Stutt gos varð í Holuhrauni í upphafi fjórtánda dags en gosið sem varir enn hófst undir morgun sextánda daginn, þann 31. ágúst. Um svipað leyti og gosið hófst jókst skjálftavirkni meðfram öskjurimanum á Bárðarbungu. Þar hafa mælst yfir 70 skjálftar yfir 5 að stærð.

¹ Veðurstofa Íslands
² GPS hópur Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, GNS Science
³ Háskóli Íslands, Leeds háskóli



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica