Fréttir
Flákaskýjabylgjur yfir Skagafirði hinn 14. ágúst 2014.

Tíðarfar í ágúst 2014

Stutt yfirlit

1.9.2014

Tíðarfar í ágúst var hagstætt víðast hvar. Lengst af var hlýtt var á landinu nema fyrstu dagana og meðalhiti nærri meðaltali ágústmánaða síðustu tíu ára en þeir hafa í langtímasamhengi verið óvenjuhlýir. Úrkoma var lengst af talsvert minni en að meðallagi um mestallt land, en þó um eða yfir því austan til á landinu. Óvenjumikil úrkoma síðasta dag mánaðarins varð þó til þess að rétta stöðuna gagnvart meðallaginu verulega.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík var 11,4 stig og er það 1,2 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og í meðallagi síðustu 10 ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti júlímánaðar 1,3 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990 en í meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 10,9 stig sem er 0,9 stigum ofan meðallagsins 1961 til 1990, en í meðallagi síðustu 10 ára. Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu hér undir og í viðhengi er meðalhiti á öllum sjálfvirkum stöðvum (sjá tengil neðst).

Meðalhiti í ágúst 2014 á völdum veðurstöðvum, ásamt viki frá meðalhita 1961 til 1990 og 2004 til 2013.

stöð ágúst 2014 vik 1961-1990 röð af vik 2004 til 2013
Reykjavík 11,4 1,2 15 til 16 144 0,0
Stykkishólmur 10,9 1,3 24 169 0,0
Bolungarvík 10,2 1,5 20 117 0,1
Grímsey 9,7 2,0 10 140 0,6
Akureyri 10,9 0,9 31 133 0,0
Egilsstaðir 9,5 -0,1 35 60 -0,8
Dalatangi 9,6 1,3 15 76 0,3
Teigarhorn 10,1 1,4 12 142 0,4
Höfn í Hornafirði 11,0 0,8
Stórhöfði 10,8 1,2 21 til 22 138 0,0
Hveravellir  7,3 1,1 16 til 17 50 -0,2
Árnes 11,1 0,9 30 134 0,0

 

Meðalhiti mánaðarins var hæstur á Garðskagavita, 11,7 stig, en lægstur var hann á Brúarjökli, 2,9 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, 7,5 stig. Sé miðað við síðustu tíu ár var meðalhitinn að tiltölu hæstur á Bjargtöngum og á Kambanesi, 0,6 stig yfir meðallagi, en lægstur var hann að tiltölu á Gagnheiði, -1,3 stigum undir meðallagi.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 22,8 stig á Sámsstöðum þann 11. og Staðarhóli þann 26. Hæsti hiti mánaðarins á mannaðri stöð mældist þann 11. á Eyrarbakka, 21,2 stig. Lægstur mældist hitinn á Staðarhóli þann 22., -3,0 stig. Á mönnuðum stöðvum mældist hitinn lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 2., -1,9 stig.

Úrkoma

Mánuðurinn var fremur þurr lengst af nema sums staðar um landið austanvert. Óvenjumikil úrkoma féll víða síðasta dag mánaðarins.

Í Reykjavík mældist úrkoman  57,8 mm og er það 93 prósent meðalúrkomu áranna 1961 til 1990, þar af féllu um tveir þriðju hlutar síðasta daginn. Í Stykkishólmi mældist úrkoman nú 39,8 mm sem er 77 prósent meðalúrkomu, fjórðungur féll síðasta daginn. Á Akureyri mældist úrkoman  24,1 mm og er það 71 prósent meðalúrkomu ágústmánaðar.

Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 57,1 mm og 69,7 mm á Stórhöfða. Á Stórhöfða var heildarúrkoman aðeins helmingur meðalúrkomu og féll helmingur hennar síðasta dag mánaðarins. Úrkoma hefur ekki mælst jafnlítil í ágúst á Stórhöfða síðan 2006.

Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 6 daga í Reykjavík. Það er sex dögum færri en í meðalári. Úrkoma mældist 1 mm eða meiri 5 daga á Akureyri, það er tveimur dögum undir meðallagi.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 188,4 og er það 33,6 stundum umfram meðallag sé miðað við 1961 til 1990 en 1,5 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 162,5. Það er 26,8 stundum fleiri en að meðallagi 1961 til 1990.  

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði í ágústmánuði var í rétt rúmu meðallagi. Víða var hvasst af austri og suðaustri síðasta dag mánaðarins. Sömuleiðis var nokkuð hvasst þann 16. og þá af norðri. Norðlægar átti voru ríkjandi fyrstu þrjár vikur mánaðarins en suðlægar eftir það. Vestægar áttir voru ríkjandi í nokkra daga eftir þann 20. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1010,1 hPa og er það 1,5 hPa yfir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1028,9 hPa í Bolungarvík þann 16. Þrýstingur varð lægstur í mánuðinum á Stórhöfða þann 31., 969,9 hPa. Þrýstingur fer sjaldan niður fyrir 970 hP hér á landi í ágúst og er þetta lægsti þrýstingur sem mælst hefur á landinu í þeim mánuði frá 2008.

Í ljósaskiptunum
""
Reykjarfjörður í Arnarfirði. Sólin handan við Hrafnskaganúp hinn 20. ágúst 2014 kl. 20:33. Ljósmynd: Helgi Hjálmtýsson.

Sumarið (júní til ágúst) 2014

Sá hluti sumarsins sem liðinn er hefur verið óvenjuhlýr á landinu. Í Reykjavík er sumarið það níunda hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga 1871, á Akureyri það þriðja hlýjasta (mælingar frá 1882), það næsthlýjasta á Teigarhorni (mælingar frá 1873). Í Stykkishólmi eru hlýindin í fjórða til sjöunda sæti frá 1846 og í Grímsey er þetta langhlýjasta sumar frá upphafi mælinga 1874.

Sumarið hefur verið mjög úrkomusamt. Í Reykjavík er úrkoman 60 prósentum umfram meðallag og 27 prósent umfram meðallag á Akureyri.

Dagar þegar úrkoma hefur mælst 1 mm eða meira eru 39 í Reykjavík, sjö dögum umfram meðallag, og 24 á Akureyri og er það 3 dögum umfram meðallag.

Sólskinsstundir mældust aðeins 420 í Reykjavík, 67 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 180 færri heldur en að meðaltali síðustu 10 árin. Sólskinsstundafjöldi mánaðanna júní til ágúst var nánast sá sami í Reykjavík nú og í fyrra (2013). Sólskinsstundirnar í júlí í ár voru mun færri heldur en í fyrra – en sólskinsstundafjöldinn í ágúst nú talsvert meiri heldur en þá.

Fyrstu átta mánuðir ársins 2014

Fyrstu átta mánuðir ársins 2014 hafa verið óvenjuhlýir og hafa aðeins tvisvar verið hlýrri í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1871. Það var 1964 og 2003. Á Akureyri hafa fyrstu átta mánuðir ársins aðeins einu sinni mælst hlýrri en nú. Það var 2003, en samfelldar mælingar hófust 1881. Sama á við Vestmannaeyjar. Það er aðeins sama tímabil 2003 sem mældist hlýrra en nú, mæliröðin nær aftur til 1877. Fyrstu átta mánuðir ársins eru þeir langhlýjustu frá upphafi mælinga í Grímsey (mælt frá 1874), einnig á Teigarhorni (mælt frá 1873), þar munar þó minna á hlýjasta og næsthlýjasta tímabili heldur en í Grímsey, og eins á Egilsstöðum (mælt frá 1955).

Á Akureyri hefur úrkoma aðeins einu sinni áður mælst meiri fyrstu átta mánuði ársins heldur en nú. Það var 1989. Úrkoman hingað til er nú um 50 prósent umfram meðallag og hefur nú þegar náð 89 prósentum meðalársúrkomu.

Í Reykjavík var sérlega þurrt í janúar og febrúar og úrkoma var nærri meðallagi í apríl, maí og ágúst. Aftur á móti var úrkoma langt yfir meðallagi í mars, júní og júlí. Summa fyrstu átta mánaðanna er um 13 prósent umfram meðallag áranna 1961 til 1990.

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík fyrstu átta mánuði ársins er langt undir meðallagi og hefur aðeins níu sinnum verið lægri frá því að samfelldar mælingar hófust 1823. Í Reykjavík hafa sólskinsstundir mælst 65 færri heldur en að meðallagi 1961 til 1990. Sólskinsstundir fyrstu átta mánuði ársins eru nú 266 færri heldur en að meðaltali síðustu 10 árin (2004 til 2013) og þær fæstu í sömu mánuðum ársins frá 1992.

Skjöl fyrir ágústmánuð

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í ágúst 2014.
Þessa grein, Tíðarfar í ágúst 2014, er einnig hægt sækja eða lesa sem pdf-skjal.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica