Fréttir
Ráðherra þiggur leiðsögn um eftirlitssal.

Ráðherra heimsækir Veðurstofu Íslands

Sigurður Ingi Jóhannsson kynnir sér viðbúnað við jarðhræringunum

25.8.2014

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti sér viðbúnað á Veðurstofu Íslands í dag vegna jarðhræringa í Bárðarbungu og við Dyngjujökul. Fékk hann ítarlegt yfirlit yfir jarðskjálftavirknina undanfarna daga ásamt því að kynna sér spár um hugsanleg flóð, eldsumbrot og öskufall, ef til eldgoss skyldi koma.

Í heimsókninni í dag kynntu Árni Snorrason veðurstofustjóri, Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár, Matthew Roberts, fagstjóri vatnavár, og Theodór Hervarsson, framkvæmdastjóri eftirlits- og spásviðs, ráðherra verkefni stofnunarinnar undanfarna daga, þróun jarðhræringanna, spálíkön, tækjakost og aðbúnað starfsfólks svo fátt eitt sé nefnt. Þá skoðaði ráðherra vaktsvæði stofnunarinnar þar sem eftirliti með jarðhræringum og veðurfari er sinnt.

Veðurstofa Íslands, sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, hefur víðtæku eftirlits- og spáhlutverki að gegna varðandi náttúru Íslands. Hér er starfandi öflugt teymi sérfræðinga á sviði jarðvísinda, vatnavár og veðurfræði sem hafa stöðugan aðgang að nýjustu upplýsingum er varða jarðhræringarnar í norðanverðum Vatnajökli. Má þar nefna vöktun náttúrunnar með jarðskjálftamælum, GPS-stöðvum, ratsjám og vatnamælum auk hefðbundinna veðurmælitækja. Að auki fær Veðurstofan veðurfarsgögn frá viðurkenndum stofnunum erlendis sem eru mikilvæg við gerð veður- og öskufallsspáa komi til eldgos. Mælingar og spár Veðurstofu eru grunnur ákvarðana sem teknar eru til að tryggja öryggi almennings, s.s. varðandi lokanir svæða og flugöryggi.

Hlustað af athygli
""
Málin reifuð í Hásal Veðurstofunnar. Frá vinstri: Árni Snorrason, Matthew J. Roberts, Theodór Freyr Hervarsson, Kristín Jónsdóttir, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra. Fagstjóri jarðvár útskýrir kort sem sýnir jarðskjálfta í Bárðarbungu frá upphafi hrinunnar, 16. ágúst 2014. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica