Fréttir
Frá Hvaleyrarholti í Hafnarfirði.

Tíðarfar ársins 2013

Stutt yfirlit

15.1.2014

Tíðarfar var lengst af hagstætt en þó telst vorið hafa verið óhagstætt víða um landið norðan- og austanvert og sumarið var lakara sunnanlands heldur en verið hefur um alllangt skeið.

Óvenjuleg hlýindi voru fyrstu tvo mánuði ársins, methlýindi á mörgum veðurstöðvum, en í öðrum mánuðum var hiti nærri meðallaginu 1961 til 1990; einna kaldast að tiltölu í apríl en þá var mikill og þrálátur snjór til ama víða um landið norðanvert. Óvenjusnarpt kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí og þá mældist meira frost en áður hefur mælst hér á landi í maímánuði.

Júnímánuður var mjög hlýr um landið norðaustanvert en syðra var dauf tíð og úrkomusöm. Síðasti þriðjungur júlímánaðar var mjög hlýr og hagstæður og þá mældist mesti hiti sem vitað er um á hálendi landsins. Að öðru leyti var tíð óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert. Þungbúið veður og þrálát úrkoma hélt áfram syðra í ágúst en hagstæðari tíð var á landinu norðaustanverðu. Kalt var í september og tíð óhagstæð. Um miðjan mánuð gerði mikið norðanveður með snjóum nyrðra og nokkrum sköðum.

Október var óvenjuþurr um landið vestanvert, vindar voru lengst af hægir og snjólétt var á landinu meginhluta mánaðarins. Nóvember var umhleypingasamur með meira móti. Kalt var framan af en hlýtt síðustu dagana. Desember var óvenjuúrkomusamur um landið austanvert.

Hiti

Árið var hlýtt, hiti var á bilinu 0,4 til 1,0 stig yfir meðallaginu 1961 til 1990. Hlýjast að tiltölu var austanlands en kaldast suðvestanlands. Þótt hlýtt hafi verið var árið í flokki þeirra kaldari á nýrri öld. Suðvestanlands það kaldasta frá árinu 2000 en í öðrum landshlutum var lítillega lægri eða mjög svipaður hiti á árunum 2005 og 2011. Vik má sjá í töflu.

Í Reykjavík var árið það 18. í óslitinni röð ára þar sem árshitinn hefur verið yfir meðallagi og það 15. á Akureyri. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

Meðalhiti á nokkrum veðurstöðvum 2012

stöð hiti vik 30 röð af vik 10
Reykjavík 4,9 0,6 36 143 -0,6
Stykkishólmur 4,4 0,9 26 168 -0,4
Bolungarvík 3,7 0,8 31 115 -0,4
Bergstaðir 3,5 -0,4
Akureyri 4,1 0,8 35 132 -0,4
Grímsstaðir 1,0 0,5 -0,6
Egilsstaðir 3,8 0,9 19 59 -0,1
Dalatangi 4,5 1,0 17 til 18 75 -0,1
Teigarhorn 4,6 0,9 24 til 25 140 -0,1
Höfn í Hornafirði 5,1
Fagurhólsmýri 5,2 0,6 -0,4
Stórhöfði 5,2 0,4 44 til 45 137 -0,6
Hveravellir  -0,1 1,0 14 til 16 48 -0,5
Árnes 4,2 0,7 32 til 33 133 -0,5
Eyrarbakki 4,7 0,6 32 122 -0,6

Skýringar við töflu:
vik 30: Vik miðað við tímabilið 1961 til 1990
vik 10: Vik miðað við tímabilið 2003 til 2012

Hitavik
""
Eins og sjá má af myndinni eru hitavikin ekki stór nema í janúar og febrúar, þá var sérlega hlýtt, kalt var í apríl en hlýtt í júní, sérstaklega á Akureyri.

Meðalhiti ársins 2013 mældist hæstur á Garðskagavita, 5,9 stig. Taka verður fram að nokkuð vantar í athuganir á þremur mjög hlýjum stöðvum, Surtsey, Vestmannaeyjakaupstað og Önundarhorni undir Eyjafjöllum og ársmeðaltöl þeirra enn óreiknuð. Á vegagerðarstöðvunum var meðalhitinn hæstur á Hvammi undir Eyjafjöllum, 6,0 stig (nokkuð vantaði í athuganir frá Steinum).

Lægsti meðalhiti ársins mældist á Brúarjökli, -2,4 stig. Í byggð var ársmeðalhitinn lægstur í Möðrudal, 0,7 stig. Á vegagerðarstöðvunum var meðalhiti lægstur á Steingrímsfjarðarheiði, -0,2 stig.

Hæsti hiti ársins mældist í Ásbyrgi 21. júlí, 26,4 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 26,2 stig. Það var á Skjaldþingsstöðum þann 21. júlí.  Þann sama dag mældist einnig hæsti hiti á vegagerðarstöð, 25,1 stig. Það var á Sandvíkurheiði. Lægsti hiti ársins mældist -31,0 stig við Mývatn þann 6. desember. Á mannaðri stöð mældist hiti lægstur á Grímsstöðum á Fjöllum þann 7. desember, -24,2 stig. 

Hæsti hámarkshiti ársins í Reykjavík mældist 20,2 stig þann 27. júlí. Hæsti hámarkshiti ársins á Akureyri var 23,7 stig sem mældust 10. júlí.

Lægsti lágmarkshiti ársins í Reykjavík mældist -12,8 stig þann 5. desember. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík frá því í febrúar 2008, þá mældist frostið -14,4 stig. Á Akureyri mældist lægsta lágmark ársins -16,0 stig þann 6. desember. Meira frost (-16,8 stig) mældist á Akureyri sama dag árið 2011.

Úrkoma

Úrkomusamt var á landinu í janúar, febrúar og september. Sumarið var úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi og september og október norðaustanlands. Óvenjuþurrt var í október á Suðurlandi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 838 mm og er það um 5 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 597 mm og er það ríflega 20 prósent umfram meðallag. Úrkoma hefur nú verið yfir meðallaginu 1961 til 1990 í 12 ár í röð á Akureyri, að vísu aðeins í rétt rúmu meðallagi árið 2007.

Úrkomuvik
Gríðarmikil úrkoma var í maí, september, október og desember á Akureyri en þurrt í febrúar, júní og ágúst. Úrkoma í Reykjavík var vel yfir meðallagi sjö mánuði ársins en vel undir í fjórum.

Í Stykkishólmi mældist úrkoman 766 mm og er það 9 prósent umfram meðallag. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist úrkoma 1826 mm og er það um 15 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 1352 mm. Á Dalatanga mældist úrkoman 1440 mm og er það í meðallagi. Á síðastnefnda staðnum var úrkoma sérlega lítil í mánuðunum júní til ágúst, eða aðeins 125,8 mm. Úrkoma hefur aðeins einu sinni verið minni í þessum þremur mánuðum síðan mælingar á Dalatanga hófust 1938, það var 1957. Sumarið 1991 var úrkoma álíka lítil og nú.

Mesta sólarhringsúrkoma á mannaðri stöð mældist í Skaftafelli 26. febrúar, 154,1 mm. Daginn áður mældust þar 153,4 mm, eða samtals 307,5 mm á tveimur sólarhringum. Mesta sólarhringsúrkoma í Reykjavík mældist 22,1 mm þann 15. nóvember. Mesta sólarhringsúrkoma ársins á Akureyri mældist 35,6 mm þann 31. október.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 161 í Reykjavík og er það 13 dögum fleiri en að meðaltali 1961 til 1990. Miðað við sama úrkomumagn voru úrkomudagar 135 í Stykkishólmi, tveimur fleiri en í meðalári, á Akureyri voru þeir 112, níu fleiri en í meðalári, og 204 á Stórhöfða í Vestmannaaeyjum, 14 dögum fleiri en í meðalári.

Snjór

Veturinn 2012 til 2013 var snjóléttur í Reykjavík og voru alhvítir dagar veturinn allan aðeins 24 (september 2011 til maí 2012). Það er 41 degi færra en að meðaltali 1971 til 2000. Snjóþungt var fyrir norðan. Á Akureyri voru alhvítir dagar á sama tíma 129. Það er 11 dögum fleiri en í meðalvetri.

Á árinu 2013 í heild voru alhvítir dagar í Reykjavík 42 og er það 23 dögum undir meðallagi. Á Akureyri voru alhvítir dagar á árinu 119, tveimur fleiri en í meðalári. Snjóasamt var á landinu í desember.

Mest snjódýpt á árinu mældist 171 cm. Það var við Skeiðsfossvirkjun þann 16., 17. og 26. apríl. Mest snjódýpt í Reykjavík mældist þann 17. desember, 19 cm, en mest mældist snjódýptin á Akureyri 32 cm þann 29. og 30. desember.

Sólskin

Í Reykjavík mældust 1350 sólskinsstundir á árinu, þetta er 82 stundum umfram meðallag 1961 til 1990. Sólinni var þó mjög misskipt eftir mánuðum. Mars og apríl voru óvenjusólríkir, en í öllum mánuðunum júní til september voru sólskinsstundir undir meðallagi, að tiltölu fæstar í júní. Sólskinsstundafjöldi í Reykjavík hefur á annan áratug verið ofan meðaltalsins 1961 til 1990 og var sólskinsstundafjöldinn á árinu 2013 sá minnsti síðan 2003, en sumarið (júní til september) var hið sólskinsrýrasta frá 2002.

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1013 og er það 32 stundum undir meðallagi. Sérlega sólríkt var í júní, en sólskinsstundir í maí, júlí og ágúst voru mun færri en í meðalári.

Sólskinsstundavik
Sérlega sólríkt var í júní á Akureyri, en í Reykjavík í mars og apríl.
Nornahringir
""
Skálarfjall og Mosaland (fjallsbrekkan) á Hafursey. Myndin er tekin 5. september 2013 kl. 15:00 frá Léreftshöfða (Selfjalli) og svörtu hringirnir í mosanum kallast nornahringir og eru vegna sveppaþráða í jarðveginum. Bíllinn er á slóða (svörtum vegi) sem er niðurgrafinn og sést því ekki. Ljósmynd: Njáll Fannar Reynisson.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1004,9 hPa og er það 1,0 hPa undir meðallagi. Þrýstingurinn var óvenjuhár í mars og óvenjulágur í desember. Myndin sýnir vik hvers mánaðar 2013 sem bláar súlur, en stærstu vik sem vitað er um í hverjum mánuði eru einnig á myndinni (stærstu jákvæðu vikin eru grænmerkt, en þau neikvæðu eru rauð).

Þrýstivik
Bláar súlur sýna vik hvers mánaðar árið 2013 en stærstu vik sem vitað er um í hverjum mánuði eru einnig á myndinni (stærstu jákvæðu vikin eru grænmerkt, en þau neikvæðu eru rauð). Þrýstingur var óvenjuhár í mars en lágur í desember.

Hæsti þrýstingur ársins mældist á Fonti á Langanesi 23. mars, 1038,7 hPa. Sama dag mældist hæsti þrýstingur ársins á mannaðri stöð, 1038,2 hPa á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Lægstur mældist þrýstingurinn á Dalatanga 19. desember 942,6 hPa. Lægsti þrýstingur á mannaðri stöð mældist á Dalatanga 19. desember, 944,7 hPa (aðeins mælt á 3 klst. fresti).

Vindhraði

Vindhraði var undir meðallagi fyrstu fjóra mánuði ársins, sem og í júní, júlí og október, en venju fremur vindasamt var í ágúst, nóvember og desember.

Vindhraðavik
Vindhraðavik allra veðurstöðva einstaka mánuði ársins 2013. Framan af ári var vindhraði undir meðallagi en yfir því síðustu tvo mánuðina.

Nokkur slæm illviðri gengu yfir landið á árinu. Þau helstu á landsvísu gerði dagana 26. til 28. janúar (A og svo NA-átt), 4. til 7. mars (NA-átt), 15. til 16. september (N-átt) og 24. og 25. desember (N-átt).

Í janúarveðrinu urðu talsverðar skemmdir í útsveitum norðanlands, sérstaklega á Siglufirði, en víðar varð foktjón. Samgöngur röskuðust verulega. Í veðrinu í mars gekk mikil hríð með frosthörku víða um land og lömuðust samgöngur m.a. á höfuðborgarsvæðinu þar sem margir íbúar komust hvorki lönd né strönd. Óvenjumikinn öskubyl gerði í lok snjóhríðarinnar um landið suðvestanvert þannig að sá snjór sem síðast féll varð mjög grár og óhreinn.

Norðanskotið í september olli fjársköðum sem þó urðu minni en í ámóta hríðarveðri ári áður. Sömuleiðis varð tjón á raflínum – en líka mun minna en í fyrra veðri. Veðrið um jólin olli miklum samgöngutruflunum um stóran hluta landsins.

Vindáttir

Vigurvindvik
Vigurvindvik ársins 2012 (austan- og norðanþættir jákvæðir). Mikil norðanátt var ríkjandi í mars, apríl, október og desember.

Allar vindathuganir á skeytastöðvum eru þáttaðar í austur- og norðurstefnur, mánaðameðaltöl reiknuð og borin saman við meðalvindvigra áranna 1961 til 1990. Mikil austanátt var í janúar og mars (grænt), vestanátt var ríkjandi í ágúst, september og nóvember. Mikil norðanátt var í mars, apríl, október og desember en suðlægar áttir voru ríkjandi í janúar, febrúar, júní, ágúst, september og nóvember.

Lauslegt yfirlit um einstaka mánuði

Janúar

Tíð var lengst af hagstæð en nokkurra daga hríðar- og krapaveður gekk yfir hluta Vestfjarða, Norður- og Austurlands seint í mánuðinum. Fokskaðar urðu þá á stöku stað.

Mánuðurinn var mjög hlýr og var hann í hópi þeirra tíu hlýjustu sem mælst hafa á flestum veðurstöðvum landsins. Hann var sá sjöundi hlýjasti í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga 1870. Þar þarf að leita aftur til 1987 til að finna hlýrri janúarmánuð. Úrkomusamt var um meginhluta landsins nema á sumum stöðvum norðvestan- og norðanlands. Snjóþungt var um landið norðanvert en snjólétt syðra. Alhvítir dagar hafa ekki verið jafnmargir á Akureyri í janúar síðan 1999. Þá var alhvítt allan mánuðinn.

Febrúar

Mánuðurinn var sérlega hlýr, annar til fjórði hlýjasti febrúar frá upphafi mælinga á 19. öld. Úrkomusamt var um landið sunnanvert og var mánuðurinn sums staðar sá úrkomusamasti frá upphafi mælinga. Samgöngur voru lengst af greiðar en vegir spilltust af þíðu. Talsverð flóð gerði í ám sunnanlands undir lok mánaðarins. Óvenjumikla úrkomu gerði um landið suðaustanvert í hlýindunum miklu í síðustu vikunni.

Frostlaust var í Surtsey allan mánuðinn. Þetta er í fyrsta skipti sem febrúar er alveg frostlaus á íslenskri veðurstöð. Það hefur gerst í marsmánuði (1929 og 1963).

Mars

Tíðarfar var fremur hagstætt að undanskildum nokkrum dögum snemma í mánuðinum. Þá gerði talsverða frosthörku og slæm hríð gekk yfir meginhluta landsins. Verst var hún þann 6. þegar segja mátti að samgöngur á landi og í lofti legðust af. Eftir þetta batnaði tíð og síðari hluti mánaðarins var hagstæður, vindur lengst af hægur og úrkoma lítil. Loftþrýstingur var með hæsta móti í mánuðinum.

Apríl

Aprílmánuður var kaldur á landinu. Kaldast var inn til landsins á norðaustan- og austanverðu landinu. Fyrstu fjórir dagarnir voru hlýir en síðan ríkti kuldatíð. Snjór var til ama víða norðan- og austanlands og norðantil á Vestfjörðum. Úrkoma var víðast hvar innan við meðallag. Sólskinsstundir voru óvenjumargar suðvestanlands.

Maí

Tíðarfar í maí var nærri meðallagi á landinu að slepptum fyrstu dögunum sem voru óvenjukaldir. Þá mældist meira frost heldur en áður hefur mælst hér á landi í maímánuði, -21,7 stig á Brúarjökli. Frost í byggð var einnig sjónarmun meira heldur en áður er vitað um. Lægstur varð hitinn á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum -17,6 stig. Snjó leysti venju fremur seint um landið norðaustanvert. Hlýjast var að tiltölu á Austfjörðum. Úrkoma var yfir meðallagi á landinu. Í síðustu viku mánaðarins urðu mikil skriðuföll í leysingum norðaustanlands, þau mestu í Kaldakinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Tjón varð þar á vegum og landi.

Júní

Hlýtt var í júní og tíðarfar telst hagstætt að því undanskildu að sólarlítið var um landið suðvestanvert og úrkoma þar yfir meðallagi. Þurrt var um landið norðan- og austanvert. Meðalhitinn á Norðaustur- og Austurlandi var í flokki 4 til 6 hlýjustu júnímánaða sem vitað er um og á Akureyri var hann sá hlýjasti frá 1953.

Júlí

Tíð var óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert lengi fram eftir mánuðinum, með úrkomu og sólarleysi, en batnaði þá og varð síðasti þriðjungur mánaðarins hagstæður. Um landið norðaustan- og austanvert var tíð lengst af hagstæð. Sérlega hlýtt var á hálendinu í síðustu vikunni og mældist þá hæsti hiti sem vitað er um hér á landi á stöð ofan 450 metra hæðar, hitinn í Veiðivatnahrauni komst í 25,9 stig, 0,1 stigi meira en mældist við Upptyppinga 13. ágúst 2004. Stöðin er í 647 metra hæð yfir sjávarmáli.

Ágúst

Tíð var lengst af óhagstæð um landið sunnan- og vestanvert með þrálátri úrkomu og þungbúnu veðri. Mun hagstæðara tíðarfar ríkti um landið norðan- og austanvert.

September

Hiti var nærri meðallagi áranna 1961 til 1990 en víðast hvar rúmlega 1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Úrkomusamt var á landinu og þurrkar víða daufir. Mikið norðanillviðri með nokkrum sköðum gerði um miðjan mánuðinn og setti niður talsverðan snjó á heiðar og í fjöll.

Október

Mánuðurinn var mjög þurr um landið suðvestanvert og er ekki vitað um jafnþurran eða þurrari október á þeim slóðum. Aftur á móti var úrkoma með meira móti um landið norðaustanvert. Vindar voru hægir og mánuðurinn var lengst af snjóléttur í byggð. Þó snjóaði nokkuð á fáeinum stöðum undir lok mánaðarins.

Nóvember

Tíð var rysjótt í nóvember. Venju fremur kalt var í kringum miðjan mánuð en síðasta vikan var mjög hlý. Úrkoma var yfir meðallagi um meginhluta landsins en náði þó ekki meðallagi sums staðar fyrir norðan.

Desember

Tíð var óróleg. Mikið kuldakast gerði dagana 4. til 8. en annars var hiti ekki langt frá meðallagi. Kaldast að tiltölu var á Vestfjörðum. Úrkoma var undir meðallagi suðvestanlands en annars yfir því, langmest þó á Austfjörðum. Illiviðri gerði um jólin með miklum samgöngutruflunum.

Skjöl fyrir árið

Mánaðarmeðalhiti mannaðra stöðva 2013.

Ársmeðalhiti sjálfvirkra stöðva 2013.

Þessa grein má einnig lesa eða sækja sem Tíðarfar ársins 2013 (pdf-skjal 0,6 Mb).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica