Fréttir
Norræni skjaladagurinn
Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður afhendir Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands, mynd af tveimur skjölum frá árinu 1919 og 1920, tengd upphafi Veðurstofunnar.

Norræni skjaladagurinn 13. nóv.

15.11.2010

Norræni skjaladagurinn var haldinn laugardaginn 13. nóvember og var Þjóðskjalasafn Íslands með opið hús í frá kl. 11 til 15 í samstarfi við Veðurstofu Íslands sem heldur upp á 90 ára afmæli sitt á þessu ári.

Þema dagsins var Veður og loftslag undir slagorðinu Óveður í aðsigi?. Sýningin var vönduð og vel upp sett og verður sá hluti hennar sem birtist á vef Þjóðskjalasafns áfram aðgengilegur. Er þar fjölbreytt efni, m.a. frá Veðurstofunni.

Á myndinni hér til hægri sést Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður afhenda Árna Snorrasyni, forstjóra Veðurstofu Íslands, mynd af tveimur skjölum frá árinu 1919 og 1920. Eldra skjalið er frá Marineministeriet í Danmörku, dagsett 9. desember 1919, og þar kemur fram að veðurathuganir á Íslandi færast frá dönsku veðurstofunni til Íslendinga. Í yngra skjalinu, frá 27. janúar 1920, fer Stjórnarráðið þess á leit við forstöðumann Löggildingarstofu Íslands að stofan taki að sér veðurathuganir á Íslandi frá 1. janúar 1920. Í framhaldi af þessari skipan mála varð til á Löggildingarstofunni sérstök veðurfræðideild. Frá ársbyrjun 1925 var Löggildingarstofan lögð niður og veðurfræðideildin varð sérstök stofnun. Á miðju ári 1926 voru svo fyrstu lögin um Veðurstofu Íslands sett.

Ítrekað skal hér að í leiðara skjaladagsvefsins eru vísur Páls Bergþórssonar, veðurfræðings og fyrrverandi veðurstofustjóra; Veðrabrigði um ársins hring, fallega myndskreyttar. Athugið að smella þarf á miðjar myndirnar til að fá þær stærri og fara svo á milli mynda með örvatökkunum (á miðri mynd).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica