Fréttir
hólkur á stöng efst á grónum varnargarði, fjallshlíð í baksýn
Efra radarmastrið á varnargarðinum undir Skollahvilft.

Hraði snjóflóðs mældur

8.4.2009

Snjóflóð úr Skollahvilft féll á varnargarðinn ofan Flateyrar aðfaranótt 30. mars síðastliðinn. Flóðið rann niður með endilöngum garðinum og náði niður í lónið við veginn út á eyrina. Flóðið rann um 5 m lóðrétt upp á garðinn sem er 15-20 m hár. Í febrúar 1999 féll talsvert stærra snjóflóð á sama stað og rann það um 13 m upp á garðinn.

Hraði nýja flóðsins var mældur með Doppler radar sem staðsettur er á mastri ofarlega á varnargarðinum. Tveir radarar eru á varnargarðinum en einungis sá efri var virkur þann 30. mars þegar flóðið féll. Radarinn mælir hraða snjóflóðsins með endurkasti rafsegulbylgna með svipuðum hætti og radar lögreglu mælir hraða bifreiða.

Hámarkshraði snjóflóðsins mældist milli 50 og 60 m/s, eða um 200 km/klst, þegar það kom fyrst inn í sjónsvið radarsins í um 300 m fjarlægð frá garðinum. Nánar má lesa um mælingarnar og skoða kort og línurit í fróðleiksgrein hér á vefnum.

Hraði þessa flóðs mældist nokkru meiri en búist var við fyrir flóð sem er ekki stærra en þetta. Samkvæmt framleiðanda radarsins er líklegt að hraðfara eðlisléttur snjór hafi verið fremst í þessu flóði. Slíkur snjóflóðssnjór ferðast hraðar og kemur stundum á undan hinum eiginlega þétta kjarna sem er meginhlutinn af massa stærri snjóflóða.

Hraðamælingarnar á Flateyri eru hluti af rannsóknum til þess að meta áhrif varnargarða á flæði snjóflóða. Markmiðið er að bæta hönnun slíkra garða og öðlast betri skilning á örygginu sem þeir veita. Ofanflóðasjóður og fimmta rammaáætlun Evrópuráðsins fjármögnuðu mælitækin og rannsóknirnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica