Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2009
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í febrúar 2009.

Jarðskjálftar á Íslandi í febrúar 2009

10.3.2009

Í febrúar mældust 1194 jarðskjálftar á og við landið. Auk þess mældust um 70 sprengingar eða ætlaðar sprengingar vegna framkvæmda víðsvegar um landið. Stærsti skjálftinn á landinu varð undir Bárðarbungu, laust fyrir miðnætti, þriðjudaginn 3. febrúar og var hann 3,0 að stærð. Stærri skjálftar mældust á Kolbeinseyjarhrygg þ.e. 3,4 og við Jan Mayen 3,5.

Helstu jarðskjálftahrinur í febrúar voru á Reykjanesskaga þar sem tæplega 300 skjálftar mældust alls í mánuðinum. Að morgni miðvikudagsins 4. febrúar hófst smáskjálftahrina við Kleifarvatn og stóð hún fram eftir degi. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu var 1,6 að stærð.

Viku síðar þ.e. um miðjan dag þann 11. hófst síðan skjálftahrina vestan við Fagradalsfjall, um 7 km norðaustur af Grindavík og lauk henni laust eftir hádegi daginn eftir. Stærsti skjálftinn í þeirri hrinu var tæp þrjú stig, nokkrir voru litlu minni, en flestir mjög smáir. Síðari hluta mánaðarins var mun rólegra á Reykjanesskaganum.

Á Reykjaneshrygg mældust 12 skjálftar og þar af fjórir milli klukkan 07:30 og 08:00 sunnudagsmorguninn þ. 8. Stærsti skjálftinn varð laust fyrir klukkan 8 og var hann 2,5 stig.

Að kvöldi mánudagsins 16. febrúar hófst jarðskjálftahrina við Stélbrattan, um 3,5 km SV af Hveravöllum. Hrinan fór rólega af stað, en efldist er leið á vikuna. Mest var virknin fimmtudaginn 19. febrúar og laugardaginn 21. febrúar og mældust skjálftar að stærð 2,7 og 2,8 þessa daga. Síðan dró aftur úr virkni og mældist seinasti skjáftinn, að stærð 2,8, þriðjudagskvöldið 24. febrúar. Alls mældust 30 skjálftar á stærðarbilinu 0,6 - 2,8 á þessu svæði í febrúarmánuði.

Virknin í Ölfusi og Flóa var með svipuðu sniði og mánuðinn á undan. Flestir urðu skjálftarnir á Kross-sprungunni en um 200 skjálftar mældust þar í febrúar, flestir sunnan Ölfusár. Stærstu skjálftarnir voru um og yfir tveimur stigum en flestir mun minni. Tæplega 30 smáskjálftar mældust við Ingólfsfjall og litlu fleiri vestan Ölfusár. Nokkrir skjálftar mældust á Suðurlandi og á Hengilssvæðinu.

Fremur rólegt var í Mýrdalsjökli í febrúar og mældist að meðaltali um einn skjálfti á dag. Álíka margir áttu upptök sín við og innan Kötluöskjunnar eins og í vesturjöklinum. Nokkrir skjálftar náðu stærðinni tveimur eða rúmlega það. Rólegt var á Torfajökulssvæðinu.

Undir Vatnajökli og næsta nágrenni mældust alls 124 jarðskjálftar í febrúar og lætur það nærri meðallagi. Í Kverkfjöllum mældust 22 skjálftar, flestir 2. til 5. febrúar, sá stærsti 2,6 að stærð. Við Kistufell mældust 15 skjálftar, sá stærsti 1,9 að stærð, ríflega 30 skjálftar mældust norðaustan í Bárðarbungu og 17 skjálftar á Lokahrygg.

Einn skjálfti var staðsettur í Kálfafellsfjöllum í Suðursveit og annar um 10 km norðan við Tungnafellsjökul, en staðsetning síðustu tveggja skjálftanna er nokkuð óviss. Þá var einn skjálfti mældur í Esjufjöllum og 11 ísskjálftar voru staðsettir í Skeiðarárjökli dagana 17. til 20. febrúar.

Á svæðinu í kringum Öskju og Herðubreið mældust 150 skjálftar í febrúarmánuði, allir undir tveimur stigum. Flestir jarðskjálftar mældust við Hlaupfell, norðan Upptyppinga, eða 56 skjálftar. Skjálftarnir við Hlaupfell eru flestir á 6 - 8 km dýpi.

Við Herðubreið og Herðubreiðartögl mældust 54 jarðskjálftar, þar af 40 undir norðanverðum Herðubreiðartöglum. Þeir 12 jarðskjálftar sem mældust norður af Öskju öskjunni voru allir djúpir, þ. e. staðsettust á dýptarbilinu 12,7 - 21,5. Alls mældust 18 skjálftar á svæðinu á yfir 12 km dýpi.

Úti fyrir Norðurlandi var nokkur virkni, mest þó smáir skjálftar. Stærsti skjálftinn á Tjörnesbrotabeltinu var um 45 km norðvestur af Grímsey, tæp þrjú stig. Þá mældust nokkrir skjálftar á stærðarbilinu 2,4 til 2,6. Í Öxarfirði var stærsti skjálftinn 2,6 stig, við Flatey 2,4 og austan við Grímsey 2,4. Úti fyrir mynni Eyjafjarðar var stærsti skjálftinn 2,3 stig. Á Þeistareykja- og Kröflusvæðinu mældust nokkrir skjálftar, allir smáir.

Jarðskjálftarvirkni síðustu vikna á Íslandi má skoða nánar hér á vef Veðurstofunnar.

Eftirlit með jarðskjálftavirkni í febrúar höfðu: Halldór Geirsson, Sigþrúður Ármannsdóttir, Steinunn S. Jakobsdóttir og Þórunn Skaftadóttir.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica