Fréttir
kort af Íslandi - skjálftar táknaðir með misstórum hringum
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í janúar 2009. Rauðir hringir tákna jarðskjálfta.

Jarðskjálftar á Íslandi í janúar 2009

mánaðaryfirlit

13.2.2009

Jarðskjálftavirkni á Íslandi í janúar 2009 var með eðlilegu móti. Á annað þúsund jarðskjálftar mældust á og við landið og einnig um 50 sprengingar vegna ýmissa framkvæmda. Tveir stærstu jarðskjálftarnir í janúar voru um 3 að stærð, annar með upptök við Kistufell norðan Vatnajökuls þann 5. janúar og hinn við Geitlandsjökul þann 21. janúar.

Helstu jarðskjálftahrinur á landinu í janúar voru við Kleifarvatn og sunnan við Herðubreið. Í byrjun mánaðarins varð snörp jarðskjálftahrina við Kleifarvatn á Reykjanesskaga og voru stærstu jarðskjálftarnir um 2,7 að stærð. Milli Herðubreiðar og Herðubreiðartagla voru staðsettir um 250 jarðskjálftar í janúar. Stærsti skjálftinn þar var 2,7 að stærð og varð í hrinu þann 17. janúar. Hrinur á þessum slóðum eru algengar.

Minni jarðskjálftahrinur voru meðal annars um 25 km suðaustur af Grímsey dagana 26. til 27. janúar og við Geitlandsjökul í Langjökli dagana 20.-21. janúar. Eins og áður hefur komið fram var stærsti jarðskjálftinn við Geitlandsjökul um 3 að stærð. Auk þess voru staðsettir yfir 40 ísskjálftar í Skeiðarárjökli 8. og 9. janúar.

Í Ölfusinu mældust að jafnaði 5-10 jarðskjálftar á dag, nær allir undir 2 stigum. Flestir þeirra voru með upptök á Kross-sprungunni þar sem meginskjálftinn varð 29. maí 2008.

Nær daglega mældust jarðskjálftar undir Mýrdalsjökli. Heldur fleiri jarðskjálftar áttu upptök undir Kötluöskjunni en Goðabungu. Stærsti jarðskjálftinn var með upptök undir Kötluöskjunni þann 5. janúar og mældist um 2,7 að stærð. Líklegt er að grjóthrun úr Steinafjalli undir Eyjafjöllum hafi framkallað smáskjálfta þar þann 28. janúar kl. 16:21.

Undir og við norðvesturhluta Vatnajökuls mældust um 70 jarðskjálftar. Sá stærsti var við Kistufell þann 5. janúar um 3 stig að stærð.

Við Herðubreið urðu tvær jarðskjálftahrinur. Sú fyrri og minni með um 40 jarðskjálfta stóð yfir dagana 6. - 7. janúar. Seinni hrinan hófst þann 17. janúar og var öflugust þann dag og daginn eftir. Jarðskjálftahrinan varaði fram undir 23. janúar og mældust rúmlega 200 jarðskjálftar í hrinunni. Stærsti skjálftinn í hrinunni var 2,7 stig þann 17. janúar.

Við Hlaupfell norðan við Upptyppinga mældust um 70 jarðskjálftar sem dreifðust nokkuð jafnt út mánuðinn og voru nær allir þeirra minni en 2 að stærð.

Úti fyrir Norðurlandi á svonefndu Tjörnesbrotabelti mældust tæplega 240 jarðskjálftar. Smáhrina varð austan við Grímsey dagana 26.-27. janúar eins og áður hefur komið fram.

Einn grunnur jarðskjálfti að stærð 0,9 mældist undir Heklu snemma morguns þann 21. janúar en ekki varð vart við frekari virkni á þeim slóðum.

Jarðskjálftavirkni síðustu vikna á Íslandi má skoða nánar á eldri vef.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica