Fréttir
Skýjað yfir hafi, gras í forgrunni
Skýjafar séð frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum 10. mars 2008.

Veðurstofa Íslands hátt skrifuð meðal þjóðarinnar

12.6.2008

Dagana 5.-13. maí sl. gerði Capacent Gallup könnun á afstöðu þjóðarinnar til átján opinberra stofnana sem eiga í miklum samskiptum eða þjónustu við almenning.

Í átta spurningum könnunarinnar var spurt um ánægju með þjónustu, traust, ímynd og trúverðugleika, viðmót starfsmanna og framsækni stofnunar. Í svörum tæplega 2400 landsmanna kom fram að Veðurstofa Íslands fékk í sjö spurninganna hæstu einkunn þessara átján stofnana og var í öðru sæti í einni þeirra.

Um 90% landsmanna telja stofnunina veita góða eða mjög góða þjónustu og um 75% bera mikið traust til stofnunarinnar en um 3% lítið. Að meðaltali fékk stofnunin 4,1 í einkunn af 5 mögulegum.

Þá kom í ljós að vefur Veðurstofunnar, www.vedur.is, er orðinn helsti upplýsingamiðill hennar en meira en 60% þjóðarinnar nefnir hann sem fyrsta kost þegar hún vill afla sér upplýsinga frá stofnuninni. Hefur engin íslensk stofnun náð viðlíka árangri með miðlun upplýsinga á vefnum en vefur Veðurstofunnar var valinn besti vefur í almannaþjónustu árið 2007.

Þær stofnanir sem Capacent Gallup valdi til að spyrja um afstöðu til í þessari könnun voru eftirfarandi, auk Veðurstofunnar: Byggðastofnun, Fasteignamat ríkisins, Fjármálaeftirlitið, Hagstofa Íslands, Heilsugæslan, Landspítali Háskólasjúkrahús, Íbúðalánasjóður, Lögreglan, Neytendastofa, Ríkisskattstjóri, Tollstjórinn í Reykjavík, Tryggingastofnun, Umferðarstofa, Umhverfisstofnun, Útlendingastofnun, Vegagerðin og Vinnumálastofnun.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica