Sjávarhiti 1882 til 2005

Trausti Jónsson

Myndin sýnir loft- og sjávarhita í Grímsey 1882 til 2005. Sjávarhitinn hefur allan þennan tíma verið hærri en lofthitinn að meðaltali og vermandi áhrif sjávar staðið allt tímabilið.

Munur á sjávar- og lofthita er heldur minni undan Norður- en Suðurlandi, því er bratti hitasviðsins í norður/suðurstefnu hér um slóðir meiri í sjó en í lofti. Í Grímsey hefur munurinn lengst af verið 2 til 3°C, en nokkurrar tímabilaskiptingar gætir.

Þegar hafísárin gengu í garð um 1965 óx hitamunur lofts og sjávar, sem þýðir að ívið meira hefur kólnað í lofti en sjó. Freistandi er að kenna auknum norðanáttum hafísáranna um (sjá mynd 2 í Vigurvindur), ásamt aukningu ísþekjunnar norðurundan, en hún veldur því að loft sem kemur að norðan hafði minni tækifæri til upphitunar á leið sinni til Grímseyjar en áður var.

línurit

Mynd 1. Loft- (blár ferill, vinstri kvarði) og sjávarhiti (rauður ferill, vinstri kvarði) í Grímsey (vinstri kvarði) og mismunur þeirra 1882 til 2005 (hægri kvarði). Takið eftir því að sjávarhitinn er hærri en lofthitinn allt tímabilið.

Athyglisverð er sú mismunaraukning sem átti sér stað á öðrum áratugi 20. aldar. Ástæður hennar hafa ekki enn verið greindar, en sennilegt er þó að auknum norðanáttum sé um að kenna.

Til baka, Senda grein, Prenta greinina

 
Aðrir tengdir vefirEkkert skjal tengt
Þetta vefsvæði byggir á Eplica